Einkaréttur ÁTVR

Mánudaginn 03. nóvember 1997, kl. 16:01:36 (858)

1997-11-03 16:01:36# 122. lþ. 17.1 fundur 65#B einkaréttur ÁTVR# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[16:01]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. fjmrh. varðandi stöðu ÁTVR. Fyrir um einu og hálfu ári síðan hygg ég knúði hæstv. fjmrh. í gegn breytingar á hlutverki og stöðu ÁTVR sem fól það m.a. í sér að taka af fyrirtækinu rétt til heildsöludreifingar á áfengi. Ýmsir óttuðust að þar væri verið að leggja upp í ferli sem ætti að leiða til þess að leggja fyrirtækið niður og afhenda einkaaðilum að fullu og öllu öll umsvif á þessu sviði.

Áhugamenn um að svo verði hafa bundið nokkrar vonir við að þeim bærist stuðningur utan úr heimi sem mundi dæma það fyrirkomulag sem Íslendingar og hin Norðurlöndin að undanskilinni Danmörku hafa viðhaft varðandi einkarétt ríkisins til að dreifa þessum vímuefnum. En þeir hinir sömu áhugamenn urðu fyrir nokkru áfalli á dögunum þegar Evrópudómstóllinn dæmdi tilhögun áfengiseinkasölu í Svíþjóð löglega, að vísu að uppfylltum tilteknum skilyrðum.

Nú vil ég spyrja hæstv. fjmrh. að þessu gefna tilefni: Hvaða áhrif mun þessi niðurstaða Evrópudómstólsins, og þar með væntanlega sams konar niðurstaða hvað varðar stöðuna á hinu Evrópska efnahagssvæði, hafa á stefnu stjórnvalda, á stefnu hæstv. ríkisstjórnar varðandi framtíðartilhögun verslunar með áfengi hér í landi? Verður horfið frá öllum áformum um frekari breytingar eða rýrnun á hlutverki ÁTVR? Í öðru lagi spyr ég hæstv. fjmrh.: Hvaða áhrif mun þetta hafa á stefnu svokallaðrar stjórnar Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins sem eins og kunnugt er hefur ekki verið aðallega upptekin af því að stjórna fyrirtækinu heldur hinu, að móta nýja áfengisstefnu í landinu og þar með talið að leggja það fyrirtæki niður sem stjórnin sjálf á þó að stýra? Mun hæstv. fjmrh. beita sér fyrir því að stjórnin taki upp aðra stefnu en hún hefur fylgt? Mun hann hugsanlega endurskipa stjórnina í ljósi þess að hún hefur aðra stefnu en þá sem nú hefur verið dæmt lögmætt að viðhafa í þessum efnum og hefur verið stefna Íslands hingað til?