Söfnunarkassar

Mánudaginn 03. nóvember 1997, kl. 17:29:53 (876)

1997-11-03 17:29:53# 122. lþ. 17.15 fundur 156. mál: #A söfnunarkassar# (brottfall laga) frv., 174. mál: #A Happdrætti Háskóla Íslands# (happdrættisvélar) frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[17:29]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég gat þess hér áðan að þetta væri sambærilegt. Við skattleggjum, við leggjum gjöld á áfengi og tóbak til ríkisins og þessi gjöld eru síðan notuð til hinnar ýmsu starfsemi hins opinbera. Við gætum farið þá leið sem sumar þjóðir fara þar sem spilavítin eru bara rekin af hinu opinbera, þau eru bara fjáröflun hins opinbera og síðan eru peningarnir notaðir til ýmissa þarfa. Við gætum gert það. Það er kannski kominn tími til að við ræðum það í heild hvernig við höfum þessi happdrættismál okkar, ef menn vilja það. En menn geta ekki gengið hér fram með aðför að fjáröflun fernra mjög merkra samtaka og ætla síðan að skilja þau eftir. Við höfum kannski ekki gert rétt í því að ætla Háskóla Íslands eða einhverjum menningar- og líknarsamtökum að fá tekjur með því að útdeila þeim svona tekjustofnum. Það kann að vera rangt. Við hefðum kannski heldur átt að láta ríkið sjá um þennan rekstur og afhenda svo þessum stofnunum styrk frá ríkinu. Það kann að vera að það hefði verið réttara. En við getum ekki ráðist einhliða á þessi samtök eins og er verið að gera mjög ótæpilega, með óvönduðu orðbragði og lítt völdu eins og síðasti hv. ræðumaður notaði þegar hann lét að því liggja að þessi líknarsamtök væru með hálfgerða glæpastarfsemi á sínum vegum. Þetta er bara níð, herra forseti. Það er níð um samtökin að tala svona. Það er til vansa að gera það.