Söfnunarkassar

Mánudaginn 03. nóvember 1997, kl. 18:16:16 (887)

1997-11-03 18:16:16# 122. lþ. 17.15 fundur 156. mál: #A söfnunarkassar# (brottfall laga) frv., 174. mál: #A Happdrætti Háskóla Íslands# (happdrættisvélar) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[18:16]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég sé nú enn ástæðu til að koma hér upp og lýsa yfir stuðningi við þau ágætu samtök sem hér er vitnað til, Slysavarnafélag Íslands, Rauða krossinn, SÁÁ, Landsbjörg, að ógleymdum Háskóla Íslands. En hv. þm. segir hér, það fólst í rauninni í orðum hans, að ef við leyfum okkur að flytja frv. til laga sem setur á skorður og á endanum reyndar bann við spilavítum á Íslandi, þá höfum við ekki áhyggjur af fjáröflun þessara samtaka eða ríkissjóði Íslands. Við erum að leggja áherslu á það sem reyndar hefur komið fram í máli fjölmargra hv. þm. sem hér hafa tekið til máls að spilafíkn á Íslandi í eins ríkum mæli og við þekkjum nú er nýtt þjóðfélagsmein, svo útbreitt sem raun ber vitni, og að það sé nauðsynlegt fyrir löggjafann að setja lög til að sporna við þessu.

En mér finnst alveg ófært að flm. þessara frv. sé stillt upp sem andstæðingum annaðhvort Háskóla Íslands og þeirri starfsemi sem þar fer fram eða þeirra samtaka sem njóta góðs af arðinum af þessari starfsemi. Þetta eru gerólík mál. Við höfum lagt áherslu á það í okkar málflutningi að að sjálfsögðu þurfi að taka á þeim málum ef það reynist vera vilji fyrir því hér á hv. Alþingi að samþykkja þær lagabreytingar sem við erum að leggja til.