Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 03. nóvember 1997, kl. 19:17:40 (894)

1997-11-03 19:17:40# 122. lþ. 17.17 fundur 209. mál: #A stjórn fiskveiða# (hámark aflahlutdeildar) frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur

[19:17]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Það frv. sem er til umfjöllunar er að mörgu leyti ákaflega merkilegt þingmál og dregur fram í dagsljósið niðurstöðu ríkisstjórnarinnar í umfjöllun um tiltekin viðfangsefni varðandi stjórnun fiskveiða. Það er greinilega niðurstaða ríkisstjórnarinnar að ástæða sé til þess að takmarka eign einstakra aðila eða ráðstöfunarrétt einstakra aðila á aflahlutdeild í sjávarútveginum. Út af fyrir sig er mjög merkileg niðurstaða að stjórnarflokkarnir skuli hafa komist að þeirri niðurstöðu að ástæða sé til þess að hafa áhyggjur af því að einstakir aðilar í sjávarútvegi verði of stórir.

Þau rök eru færð fram í frv. af hálfu starfshópsins, sem ég geri ráð fyrir að ráðherra hafi gert að sínum rökum, að nauðsynlegt sé að setja þessa takmörkun á stærð fyrirtækja af efnahagslegum ástæðum. Það beri að koma í veg fyrir að einstakur aðili hafi þann styrk í skjóli aflaheimilda sinna að hann geti hamlað eðlilegri samkeppni í sjávarútvegi og ráðið mjög miklu um það hverjir komi nýir inn í sjávarútveg. Þetta eru þau rök sem færð eru fram af hálfu stjórnarflokkanna fyrir tillögunni sem er að finna í frv. um að setja hámark eða þak á stærð einstakra aðila í útgerð.

Þetta er vissulega viðfangsefni í þjóðfélagsumræðunni sem mikið er rætt um þessar mundir og margir sem hafa velt því fyrir sér hafa haldið því fram að aflaheimildir séu að færast á of fárra hendur og það sé hættuleg þróun. Það er greinilegt að ríkisstjórnin og þeir flokkar sem að henni standa taka undir þessi sjónarmið, komast að þeirri niðurstöðu að það beri að reisa skorður við því að menn geti náð þessu afli. Þetta er meginatriði í málinu sem hlýtur að beina umræðunni um stjórn fiskveiða á nýjar brautir þegar þessi viðurkenning liggur fyrir á hættunni á stærð fyrirtækja í sjávarútvegi.

Önnur rök eru færð fram fyrir því að nauðsynlegt sé að reisa skorður við stærð fyrirtækja í útgerð og þau eru dregin fram í greinargerð með frv. án þess þó að ríkisstjórnin geri þau að rökum sínum. En mér þykir rétt að minna á þau og draga þau sérstaklega fram af því að ég held að þau hafi sitt gildi líka og vegna þess að niðurstaðan er sú að það getur verið hætta á ferðum og því beri að setja hömlur þá er nauðsynlegt að þessi rök séu líka með í umræðunni en ekki bara þau sem liggja að baki flutningi frv. Ég nefni þrjú atriði sem koma til álita líka í þessum efnum.

Ef fyrirtæki verður of stórt og öflugt í íslenskum sjávarútvegi er hætt við því að staða þess verði allt of sterk gagnvart stjórnvöldum, lánastofnunum og starfsfólki. Þessi rök benda á að mjög stór og öflug fyrirtæki geti haft þann styrk að stjórnvöld, framkvæmdarvaldið og Alþingi hiki við að setja þau lög sem menn teldu að öðrum kosti eðlilegt að setja. Þetta felst í fullyrðingunni um að staðan geti verið of sterk gagnvart stjórnvöldum. Það þarf ekki að tíunda eða rökstyðja frekar hvers vegna menn benda á hættuna á því að þessi stóru fyrirtæki geti haft of sterka stöðu gagnvart lánastofnunum og gagnvart starfsfólkinu sem vinnur hjá þessum öflugu fyrirtækjum.

Í öðru lagi er á það bent að mjög stór fyrirtæki auki líkur á því að tilfærsla á aflaheimildum milli byggða verði veruleg og leiði þannig til röskunar.

Í þriðja lagi er á það bent að mjög öflug fyrirtæki geti leitt það af sér að tilflutningur á aflaheimildum milli útgerðarflokka verði þannig að það leiði af sér röskun og þá á þann veg að minni útgerðir verði undir í samkeppninni við stóru fyrirtækin, m.a. vegna stöðu þeirra gagnvart lánastofnunum og þetta leiði til þess að fjölbreytni verði minni í útgerðarmynstrinu en menn vildu sjá. Þessi þrjú atriði held ég að sé rétt að draga fram og fara fram á að þau verði með í umræðunni sem fylgir frv., þ.e. of sterk staða fyrirtækjanna gagnvart stjórnvöldum, lánastofnunum og starfsfólki, röskun vegna tilflutnings á aflaheimilda milli byggðarlaga og röskun í útgerðarmynstri sem verður vegna tilflutnings á aflaheimildum milli útgerðarflokka frá minni útgerðum til stærri útgerða. Það er athyglisvert að í þessum þremur atriðum er ríkisstjórnin ekki með neinar tillögur. Það skil ég þannig að það sé niðurstaða stjórnarflokkanna að ekki þurfi að hafa áhyggjur af þessari þróun að þessu leyti til. Út af fyrir sig er ákveðin stefna að ekki beri að setja lög um neinar aðgerðir sem komi í veg fyrir eða dragi úr líkum á röskun vegna flutnings aflaheimilda milli byggðarlaga. Það er dálítið köld stefna að vísu að ríkisstjórnin segir að það sé niðurstaðan þrátt fyrir að í mörgum sjávarplássum hafi veiðiheimildir nánast tapast, flust burtu, verið keyptar upp af stærri fyrirtækjum. Við höfum ekki áhyggjur af því. Það er niðurstaða ríkisstjórnarinnar. Það er út af fyrir sig stefna en það er ekki sjálfgefið að allir stjórnmálaflokkar séu sammála þeirri stefnu.

Í öðru lagi telur ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir ekki ástæðu til að setja reglur sem draga úr líkunum á því að útgerðarmynstrið raskist um of á þann veg að aflaheimildir færist til frá tilteknum útgerðarflokkum og dragi úr vægi þeirra í heildarveiðinni yfir í aðra útgerðarflokka sem þannig hafa yfir meiri veiðiheimildum að ráða en áður. Mér finnst líka ákaflega athyglisverð niðurstaða stjórnarflokkanna að ekki sé rétt að reisa skorður þarna við. Ég vil setja fram þau sjónarmið að ég tel að það komi vel til greina og eigi í raun í löggjöf að taka mið af þessum þáttum. Í löggjöf eigi að setja ákveðna varnagla fyrir því að raskist um of vægi á milli einstakra útgerðarflokka annars vegar og það verði röskun vegna tilfærslu á milli byggða.

Herra forseti. Að öðru leyti er ekki margt um málið að segja á þessu stigi. Það mun að sjálfsögðu hljóta athugun í sjútvn. og eðlilegt að menn spari yfirlýsingar um einstök atriði málsins á þessu stigi en ég tek undir þau meginatriði að nauðsynlegt sé að reisa skorður við stærð einstakra sjávarútvegsfyrirtækja. Ég tel að það sé eðlileg niðurstaða í ljósi þess hversu þýðingarmikil þessi atvinnugrein er í íslensku þjóðfélagi og hversu gífurleg verðmæti menn geta haft undir höndum í einstökum fyrirtækjum í þessari atvinnugrein. Hvort mörkin séu nákvæmlega eins og þarna er lagt til eða önnur skal ég ekki segja um á þessu stigi enda er eðlilegt við 1. umr. að gefa aðeins út skoðun á meginaefni frv. en ekki einstökum útfærsluþáttum.