Gjaldskrárbreytingar Pósts og síma hf.

Þriðjudaginn 04. nóvember 1997, kl. 14:14:34 (908)

1997-11-04 14:14:34# 122. lþ. 18.93 fundur 74#B gjaldskrárbreytingar Pósts og síma hf.# (umræður utan dagskrár), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur

[14:14]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Hærri símakostnaður, hærri laun til yfirmanna. Við þessum afleiðingum var varað, að þetta mundi gerast hér líkt og í öðrum löndum í skjóli hlutafélagavæðingar Pósts og síma. Við það bætist nú að læstar eru dyr á allar upplýsingar til þingmanna, fjölmiðla og almennings í skjóli hlutafélagalaga. Hvað er verið að fela? Þola launahækkanir til toppanna hjá Pósti og síma ekki dagsljós eða rökleysan á bak við himinháa gjaldskrárbreytingu hjá fyrirtækinu sem skilar á árinu 2--3 milljörðum í hagnað eða er verið að undirbúa jarðveginn fyrir einkavinavæðingu stjórnarflokkanna á Pósti og síma gegnum skattlagningu á símnotendur sem renna á í vasa fjármagnseigenda?

Sem betur fer, herra forseti, hafa þessir herramenn snýtt rauðu og orðið að hörfa síðustu dagana fyrir þrýstingi almennings sem líður ekki svona svívirðilega framkomu og skattlagningu hjá ríkisreknu einokunarfyrirtæki. Almenningi hefur blöskrað hrokafull framkoma ráðherra og yfirmanna fyrirtækisins sem skila mun allt að 3 milljarða hagnaði á árinu sem m.a. er fengin með miklum gjaldskrárhækkunum bæði á póst- og símþjónustunni fyrir nokkrum mánuðum. Fyrirtækið á auðvitað sjálft að standa undir því sem það kostar að gera landið að einu gjaldskrársvæði eins og flestir töldu að yrði gert. Þvert á vilja Alþingis er líka verið að hækka símakostnað á innanbæjarsímtöl á landsbyggðinni en ekki að lækka hann og það bjóst enginn við því að það yrði hækkun á símgjöldum á landsbyggðinni heldur yrði lækkun til samræmis við það sem er á höfuðborgarsvæðinu.

Hér er á ferðinni gróf aðför að heimilunum í landinu, ekki síst barnmörgum fjölskyldum, öryrkjum og öldruðum. Þessi skattlagning mun auka á aðstöðumun fjölskyldna og unga fólksins, draga úr jafnrétti til náms og minnka möguleika fólks til endurmenntunar og hvers konar tækniþjálfunar, allt eftir fjárhag einstaklinga og fjölskyldna. Það er líka óskammfeilni að 80% ný hækkun á gjaldskránni skuli hafa tekið gildi þó boðuð hafi verið lækkun.

Flótta ráðherrans verður að reka áfram, herra forseti. Enn stendur eftir 40% ný gjaldskrárhækkun og í heild 88% hækkun á tíu mánaða tímabili auk þess sem skref innifalin í fastagjaldinu endast helmingi skemur en áður. Þetta er ekkert annað en okur í skjóli einokunar. Að halda því fram að þetta lækki símakostnað heimilanna er hrein blekking.

Herra forseti. Hvað á að gera við ráðherra sem orðið hefur uppvís að ósannindum eins og þegar hann hélt því fram að ekki væri hægt að lækka símtöl til annarra landa nema hækka innanbæjarsímtöl? Hvað á að gera við ráðherra sem plataði þjóðina þegar hann sagði hækkunina nauðsynlega? Hvað á að gera við ráðherra sem segir forsendur gjaldskrárbreytinganna leyndarmál en forsrh. ber til hlýðni að gera opinbera þannig að ráðherrann liggur kylliflatur í málinu? Svona valdahroki og framganga er til skammar og annars staðar hefði ráðherra sem ber væri að slíkum embættisafglöpum verið látinn fjúka og er það vissulega einn möguleiki í stöðunni þegar öll kurl eru komin til grafar. Þingflokkur jafnaðarmanna hefur þegar farið fram á stjórnsýsluúttekt á Pósti og síma þar sem m.a. er lagt mat á þessa ósvífnu skattlagningu sem ráðherrann ber ábyrgð á og skipan rannsóknarnefndar samkvæmt 39. gr. stjórnarskrárinnar til að kanna embættisfærslu ráðherrans getur einnig komið til skoðunar.

Eitt er víst, herra forseti. Þessu máli er hvergi lokið.