Flugmálaáætlun 1998-2001

Þriðjudaginn 04. nóvember 1997, kl. 15:31:09 (925)

1997-11-04 15:31:09# 122. lþ. 18.7 fundur 207. mál: #A flugmálaáætlun 1998-2001# þál., GHall
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur

[15:31]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég tek heils hugar undir síðustu orð hv. 4. þm. Norðurl. v., Ragnars Arnalds, um Reykjavíkurflugvöll. Það er ekki neinum vafa undirorpið að ástand flugvallarins jaðrar við hættumörk. Það hefur áður komið fram varðandi staðla Alþjóðaflugmálastofnunar að hún setur ákveðin skilyrði og mælist til að notaðir séu ákveðnir staðlar fyrir þá flugvelli sem hún fylgist með og þá kemur í ljós að Reykjavíkurflugvöllur er á mörkum þess að hann sé nothæfur.

Á síðasta ári fóru nærri 400 þúsund farþegar um Reykjavíkurflugvöll og það má sjá hvílík umferð það er þegar bornir eru saman aðrir flugvellir í hinni dreifðu byggð og auðvitað þarf málið í heild sinni mikillar skoðunar við.

Í gegnum árin hefur framkvæmdum við Reykjavíkurflugvöll verið frestað æ ofan í æ og verður ekki við svo unað öllu lengur án þess að stórhætta skapist fyrir þann mikla fjölda sem um völlinn fer. Á næstu tveimur árum er gert ráð fyrir því í flugmálaáætlun, þeirri þáltill. sem hér liggur fyrir, að verja vel á annað hundrað millj. til lagfæringar og til byggingar nýrra flugstöðva í hinni dreifðu byggð. Ég hef sagt áður að full ástæða er til að búa vel að farþegum úti á landi. Oftar en ekki gerist það því miður að flugi seinkar eða það breytist vegna veðurs og þá er eðlilegt að aðbúnaður þess fólks sem bíður eftir flugi sé allnokkuð góður.

Þegar litið er til þess sem nú stendur til varðandi Reykjavíkurflugvöll, að þar eigi að eyða 29 millj. á næsta ári til flugvallarins og áður hafði verið gert ráð fyrir því að á árinu 1998 mundu framkvæmdir hefjast við lagfæringu á flugvellinum, þá rekur mann í rogastans og fyllist ótta vegna þess að nú sé öryggi um 400 þúsund farþega sem eigi eftir að fara um flugvöllinn á næsta ári stefnt í voða.

Ég spurði hæstv. samgrh. í fyrirspurnatíma ekki fyrir löngu hvað hann hygðist gera varðandi þetta mál og benti þá á að ekki væri óeðlilegt að hann mundi beita sér fyrir því að samþykki hins háa Alþingis fengist fyrir sérstakri heimild honum til handa að taka framkvæmdalán svo að hægt væri að hefja framkvæmdir fljótlega á næsta ári, þar sem svo mikil nauðsyn er á að lagfæra Reykjavíkurflugvöll. Hann kom ekki inn á svör í því sambandi en taldi þó að þar sem flugmálaáætlun væri nú ekki endanlega fram komin, að hann gæti ekki efnislega rætt þessi mál. En vonandi er það hægt á þessari stundu vegna þess að það þurfa að koma fram skýr svör um hvort meiningin sé og alvara hjá hæstv. samgrh. að til Reykjavíkurflugvallar falli aðeins 29 millj. kr. á árinu 1998. Það er gjörsamlega óviðunandi. Ég trúi því ekki öðru en hér verði miklar breytingar á og vænti þess að í hv. samgn. verði brugðið til þeirrar áttar að breyta þessum tölum.

Eins og ég kom inn á áðan er Reykjavíkurflugvöllur mjög varasamur samkvæmt staðli Alþjóðaflugmálastofnunarinnar. Ég gat þess í umræðunni að flugvöllurinn væri mjög hættulegur í miklum rigningum þegar flugvélar væru að lenda. Fjölmargir aðilar sem starfa við flug á Reykjavíkurflugvelli, bæði flugmenn og starfsmenn Reykjavíkurflugvallar, höfðu samband við mig og þótti ástæða til þess að benda mér sérstaklega á að í miklum rigningum væri völlurinn ekki síður hættulegur í flugtaki vegna þess að þá situr svo mikið vatn á vellinum að það er stundum á mörkum þess að hægt sé að hefja flugvél á loft.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð mín mikið lengri, virðulegi forseti, en ég vænti þess að hæstv. samgrh. komi hér með afgerandi svör. Mun hann beita sér fyrir því að afla heimildar innan hins háa Alþingis til þess að taka framkvæmdalán svo hægt verði að hefja framkvæmdir á Reykjavíkurflugvelli fljótlega á næsta ári? Og þá bendi ég enn og aftur og í þriðja sinn á þann öryggisþátt sem nauðsynlegur er með tilliti til þess að 400 þúsund manns fara um þennan flugvöll sem hefur verið vanhirtur áratugum saman.