Flugmálaáætlun 1998-2001

Þriðjudaginn 04. nóvember 1997, kl. 15:56:03 (935)

1997-11-04 15:56:03# 122. lþ. 18.7 fundur 207. mál: #A flugmálaáætlun 1998-2001# þál., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur

[15:56]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Hér er komið að árvissri umræðu um flugmálaáætlun og um leið um Reykjavíkurflugvöll. Maður veltir því fyrir sér hvað það hafi upp á sig að vera að ræða málefni flugvallarins. Það virðist vera sama hvað sett er fram í þál. um flugmálaáætlun, þegar koma á að framkvæmdum þá er búið að breyta öllum áætlunum. Og nú þegar þessi flugmálaáætlun kemur hér fram þá er enn búið að fresta framkvæmdum á Reykjavíkurflugvelli. Auðvitað er það algjört ábyrgðarleysi af hæstv. ráðherra að ætla að fresta framkvæmdum á flugvellinum eins og ástandið er nú á þeim flugbrautum sem þar eru.

Í fskj. með flugmálaáætlun er birtur kafli úr skýrslu sem Flugmálastjórn lét vinna um ástand flugbrauta, akbrauta og flughlaða, skýrslu sem kom út í mars 1995. Þessar niðurstöður hafa komið hér til umræðu nokkrum sinnum og menn hafa varað við því að láta þetta ástand ríkja áfram á flugvellinum. Ég vil minna á það --- ég held að það hafi bara verið í sumar --- að slys varð vegna þess hvernig ástandið á brautunum er, vegna þess að þarna er allt í óstandi. Flugvöllurinn er stórhættulegur í rigningum. Það er hættulegt að lenda eins og kom hér fram hjá þeim þingmönnum sem hafa talað á undan mér og það er ekki hægt að una við það, hvorki Reykvíkingar né aðrir landsmenn, að aðalflugvöllur landsmanna sem 400 þúsund manns fara um árlega sé lokaður 10--12 daga á ári vegna þess hvernig ástandið þar er. Og ef hæstv. ráðherra man ekki eftir þessu flugslysi sem ég er að vitna í þá var það þegar hér var keppni í flugi og erlendir flugmenn sem ætluðu í keppnina lentu á vellinum og eyðilögðu flugvélina sína. Sem betur fer varð ekki neinn mannskaði en þarna varð fjárhagslegt tjón.

Ég vil líka mótmæla því að hæstv. ráðherra noti það sem rök í málinu að fresta framkvæmdum að ekki sé búið að samþykkja deiliskipulag fyrir Reykjavík. Það er algjört aukaatriði í þessu máli. Það hefur því miður komið fram í þessari umræðu að það er ekki vilji hjá hæstv. ráðherra til að gera neinar lagfæringar á Reykjavíkurflugvelli. Viljann vantar.

Ég ætla ekki að hafa ræðu mína um flugmálaáætlunina langa að þessu sinni. Ég á kost á því að koma að henni í samgn. og mun gera það. En ég gat ekki staðist það að koma hér upp og mótmæla þessum niðurskurði á Reykjavíkurflugvelli enn eina ferðina og ég trúi því ekki að ekki verði tekið á því máli. Ég trúi því ekki að þetta verði látið fara svona í gegn og að þingið muni samþykkja flugmálaáætlun með þessum niðurskurði, með þessum smánarlegu fjárveitingum til framkvæmda á Reykjavíkurflugvelli. Þetta er stórmál fyrir alla landsbyggðina. Þetta er ekki eingöngu málefni Reykjavíkur. Það er málefni okkar Íslendinga allra að þokkalegt ástand sé á vellinum. Og það er stórhættulegt að vera að draga lappirnar í þessu máli. Ég tek undir það með hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni að ég kæri mig ekki um að taka þátt í þeirri ábyrgð ef eitthvað kemur fyrir þarna á vellinum. Ábyrgðin er öll hjá hæstv. samgrh., það er hann sem vill ekki taka á þessu máli.

Ég mun koma að málefnum flugvallarins í samgn. og síðan við síðari umr. um flugmálaáætlun en treysti því að þingmenn muni beita sér fyrir því að þarna verði gerð bragarbót á.