Flugmálaáætlun 1998-2001

Þriðjudaginn 04. nóvember 1997, kl. 16:10:14 (937)

1997-11-04 16:10:14# 122. lþ. 18.7 fundur 207. mál: #A flugmálaáætlun 1998-2001# þál., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur

[16:10]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Flugvallarskatturinn hér innan lands er 165 kr. Ég skal ekki segja hvenær hann var síðast hækkaður. Ég man satt að segja ekki hvort það var kannski einu eða tveimur árum eftir að ég varð samgrh. Það hefur ekki verið síðustu fimm eða sex árin. Svo mikið get ég fullyrt, en það er kannski ekki kjarni málsins heldur.

Í annan stað vil ég segja að það munar ekki ógnarlega mikið um þann flugvallarskatt þegar við höfum það líka í huga að aðrar hækkanir fyrir þjónustu á innanlandsflugvöllum hafa ekki orðið lengi. Það hefur verið reynt að hlífa innanlandsfluginu, enda hefur það verið rekið með tapi. Og ég vil nú ekki segja að það sé ógnarlega dýrt eins og nú er komið eftir að flugið varð frjálst.

Ég vil jafnframt segja vegna fyrirspurnar þingmanns um þá staði sem ekki er lengur ekið eða flogið til að samkomulag hefur tekist um það milli póstsins og Björns Sigurðssonar sérleyfishafa á Húsavík að aka fimm sinnum í viku frá Akureyri til Þórshafnar, fram og til baka, en á hinn bóginn eru horfur á að flug leggist niður til Raufarhafnar og Kópaskers eins og hv. þm. veit. Að öðru leyti eru umræður um þessi mál við flugrekstraraðila og aðra, sem m.a. koma að formaður fjárln. og fleiri með samgrn.