Flugmálaáætlun 1998-2001

Þriðjudaginn 04. nóvember 1997, kl. 16:27:02 (942)

1997-11-04 16:27:02# 122. lþ. 18.7 fundur 207. mál: #A flugmálaáætlun 1998-2001# þál., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur

[16:27]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Það mál hefur oft verið rætt í þingsölum að nokkuð fari saman hvort við höfum innanlandsflug hér á landi eða ekki í jafnríkum mæli og við höfum það núna skulum við segja og hvort Reykjavíkurflugvöllur verður áfram opinn alþjóðlegur flugvöllur. Ég hygg að það sé líka eðlilegt að Reykvíkingar sækist eftir því að þeir geti t.d. flogið til Færeyja frá Reykjavík með Fokkerflugvélum úr því að þær eru notaðar en ekki hinar stóru þotur. Eins til Grænlands. Það styttir flugleiðina og er þægilegra fyrir þá sem með fluginu fara. Málið snýr auðvitað að farþegunum og að þjónustunni. Ég hef á hinn bóginn fundið að hv. þm. er mikill áhugamaður um að draga umsvif til Suðurnesja og má vera að það sé oftast nær sá þáttur sem er ráðandi í hans málflutningi.