Vegagerð í afskekktum landshlutum

Þriðjudaginn 04. nóvember 1997, kl. 17:13:24 (955)

1997-11-04 17:13:24# 122. lþ. 18.9 fundur 60. mál: #A vegagerð í afskekktum landshlutum# þál., MS
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur

[17:13]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka fyrir þá tillögu sem hér er til umfjöllunar. Ég tel að hún tengist á margan hátt tillögu sem ég mælti fyrir fyrr í dag og það hlýtur að gleðja okkur, óvini malarveganna, að fá svona tillögu til umfjöllunar.

Ég tel að það komi mjög til greina við endurskoðun vegáætlunar sem fram fer núna --- vinna hefst við það væntanlega á næstu vikum --- að skoða sérstaklega það sem hér um ræðir. Það er mjög mikilvægt að útrýma sem fyrst þeim malarvegum sem tengja byggðarlög víða um landið við þjóðvegakerfið, sérstaklega þó á þeim svæðum sem hér eru til umfjöllunar, og byggja í staðinn upp almennilega vegi sem eru nútímalegir og tengja þessa staði.

Hér er um grundvallarbyggðamál að ræða, þ.e. vegamál og reyndar samgöngumál í heild sinni. Við sem fjöllum gjarnan um byggðamál vitum og heyrum það á fólki víða úti á landi að þetta er eitt allra stærsta málið sem brennur á fólki á þessum svæðum.

Með þessari tillögu er prentað kort af landinu, unnið af Vegagerðinni. Þar er dregin upp mynd af því hvernig ástandið er. Ég vil sérstaklega vekja athygli á að á því svæði sem ég þekki best til, á norðanverðu Snæfellsnesi, eru þéttbýlisstaðir með líklega rúmlega 4.000 íbúa samtals og enginn þeirra tengist þjóðvegakerfinu með vegi með bundnu slitlagi. Þar er ástandið reyndar þannig sums staðar að vegir sem miklir þungaflutningar fara um, malarvegir, gamlir vegir, eru hreinlega gjörsamlega ónýtir og ónothæfir þannig að víða brennur vandinn á. Ég ætla svo sem ekki að fara yfir landið, hv. flm. fór yfir það hér. Ég hef kynnt mér þetta töluvert sjálfur og hef farið um þessi svæði og veit hvernig það er. Og það er hreint út sagt mjög slakt ástand á þessum málum.

[17:15]

En það er auðvitað norðausturhornið og Vestfirðirnir sem eru verst settir. Ef menn meina eitthvað með því í alvöru að þeir vilji halda landinu í byggð á þessum svæðum sem við vitum að eiga undir högg að sækja með búsetuþróun, þá erum við hér að tala um grundvallarmál.

Þungaflutningar hafa aukist mjög á mörgum þjóðvegum og ekki síst á þeim svæðum sem við erum að ræða um. Ég tel að þeir muni aukast á næstu árum þannig að þetta mál brennur mjög á og ég tel að við þingmenn eigum að leggjast á eitt um að hraða þessu eins og kostur er.

Herra forseti. Ég kom upp til að þakka fyrir þessa tillögu. Ég tel hana mjög mikilvægt innlegg í umræðuna um byggðamál og samgöngumál almennt.