Vegagerð í afskekktum landshlutum

Þriðjudaginn 04. nóvember 1997, kl. 17:24:00 (957)

1997-11-04 17:24:00# 122. lþ. 18.9 fundur 60. mál: #A vegagerð í afskekktum landshlutum# þál., GHall
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur

[17:24]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Þessi þáltill. er allrar athygli verð. Ég vil sem þingmaður Reykv. lýsa stuðningi mínum við þann málflutning sem hér hefur komið fram af hálfu 1. flm., hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Nauðsyn þess að efla byggð í landinu og halda henni svo við að ekki raskist byggðahlutföll þau sem nú eru orkar ekki tvímælis í mínum huga. Ég átti því láni að fagna um margra ára skeið sem stýrimaður á vitaskipinu Árvakri að kynnast vel hinni dreifðu byggð og gerði mér þá mjög vel grein fyrir nauðsyn hennar og mikilvægi. Þótt ég teljist til þingmanna Reykv. sem oftar en ekki er kvartað yfir að sjáist sjaldan þegar málefni Reykjavíkur eru rædd en séu hins vegar í sviðsljósinu þegar málefni dreifbýlisins eru í umræðunni á hinu háa Alþingi, þá á það jafnt við um þingmenn Reykjavíkur sem hinna dreifðu byggða að allir erum við að vinna að sama máli, að byggja þannig upp okkar land að nokkuð verði vel við unandi að búa hér og eyða lífsdögum í þessu hrjóstruga landi. Það má segja sem svo að á stundum hefur það komið upp meðal gárunga þegar rætt er um landsbyggðina að ekki þýði að leggja mikið í að útbúa góða vegi eða góðar hafnir því dæmi séu um að þegar vegurinn sé orðinn góður þá flytji menn í burtu. Þetta er nú í hálfkæringi sagt og ekki nokkur meining þar á bak við.

En vegna alvöru málsins vildi ég aðeins lýsa yfir stuðningi mínum við það sem býr að baki. Ég tel að full ástæða sé til þess og mjög nauðsynlegt að þetta mál sé tekið því taki að vel sé unandi við þá byggðakjarna sem fjærst eru höfuðborgarsvæðinu hvað áhrærir vegakerfið. Það var rétt sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom inn á í sambandi við þær miklu breytingar sem hafa orðið á sjóflutningum í kringum landið og þær breytingar sem hafa orðið á landflutningum. Það er sérkennilegt og á stundum hjákátlegt að sjá þegar fiskflutningabílar eru að keyra með fiskinn í gagnstæðar áttir. Fiskur að norðan er unninn hér fyrir sunnan og svo öfugt, en það segir til um hvað vegakerfið er mikið nýtt. Menn veigra sér ekki við að flytja vörur að norðan landleiðina til að skipa þeim út frá Reykjavíkurhöfn eða Hafnarfjarðarhöfn. Þannig eru allar þær fjarlægðir sem menn töluðu um áður og fyrr orðnar afstæðar og ekki þær sömu og þær voru þegar allir vegir voru malarvegir. Það á alveg jafnt við um samgöngur í lofti eins og við töluðum um fyrr í dag hér á hinu háa Alþingi varðandi Reykjavíkurflugvöll.

Herra forseti. Ég kom upp til að lýsa því yfir að ég tel að það sé alveg eins Reykvíkinga og íbúum hinnar dreifðu byggðar að stuðla að og halda svo um mál að byggðakjarnar út um land haldist áfram og byggð verði efld áfram í okkar ágæta, ástsæla, hrjóstruga landi því það er okkur þéttbýlingunum á suðvesturhorninu jafnvel nauðsynlegra en áður hefur komið fram. Ég lýsi yfir stuðningi við inntak þessarar þáltill. Hún er af hinu góða og vissulega allrar athygli verð og til umhugsunar um að rétt sé að taka til hendinni og búa svo um hnúta að nokkuð megi þeir vel við una sem í hinni dreifðu byggð búa.