Kjör stjórnenda Pósts og síma hf.

Miðvikudaginn 05. nóvember 1997, kl. 13:48:10 (967)

1997-11-05 13:48:10# 122. lþ. 19.1 fundur 49. mál: #A kjör stjórnenda Pósts og síma hf.# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[13:48]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Hæstv. forseti. Þá höfum við það, engar upplýsingar. Loka á upplýsingar, upplýsa sem minnst. Hæstv. ráðherra segir að sér sé ekki heimilt að veita þessar upplýsingar. Það er rangt. Það sem fram kemur í lögfræðilegri úttekt á þessu máli er að honum ber ekki skylda til að gera það, hann hafi hins vegar heimildina, nema það sé sannanlega til þess að skaða stofnunina, skaða fyrirtækið. Á þeirri lagaklásúlu gæti hann hugsanlega hangið til að fullnægja þeirri löngun sinni að loka á upplýsingar. En þá vakna margar spurningar.

Finnst Halldóri Blöndal, hæstv. samgrh., það geta skaðað hagsmuni Pósts og síma hf. að greina frá launakjörum stjórnenda fyrirtækisins? Og þá vaknar í framhaldinu sú spurning: Hvað er það sem hann telur að muni skaðast? Ímynd Pósts og síma hf., mun hún skaðast? Og ef svo er, í hvers augum mun hún skaðast? Hver er það sem mundi fyrtast við? Það skyldi þó aldrei vera íslenska þjóðin sem er allt í senn, viðskiptavinur, notandi og eigandi Pósts og síma hf.? Það hlýtur að vera grundvallarkrafa að ráðherra geri grein fyrir því hvað þeir menn hafa að fela sem ekki vilja láta upplýsa um launakjör sín því að þessar spurningar vakna. Hvað er það sem menn hafa að fela? (Forseti hringir.) Og við heyrðum ekki betur sem fylgdumst með sjónvarpi í gærkvöldi en stjórnarformaður fyrirtækisins segði að nú yrði öldin önnur. Nú yrði hætt að loka á upplýsingar, (Forseti hringir.) nú yrðu þær gefnar. En hér kemur hæstv. samgrh. og segir: Lok, lok og læs og allt í stáli.