Framkvæmd EES-reglugerðar um félagslegt öryggi

Miðvikudaginn 05. nóvember 1997, kl. 13:55:49 (970)

1997-11-05 13:55:49# 122. lþ. 19.5 fundur 161. mál: #A framkvæmd EES-reglugerðar um félagslegt öryggi# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[13:55]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hv. þm. spyr hér um kostnað íslenska ríkisins vegna lyfjakaupa íslenskra lífeyrisþega, sem búsettir eru um stundarsakir erlendis og nýta sér rétt til hvers konar lyfjakaupa þar samkvæmt svokallaðri EES-reglugerð E/121 um félagslegt öryggi, en sú reglugerð er frá 1994.

Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnuninni hafa stofnuninni borist reikningar frá tryggingastofnunum EES-ríkjanna að fjárhæð 7,5 millj. kr. vegna aðstoðar sem veitt hefur verið Íslendingum sem dveljast tímabundið í öðrum EES-ríkjum. Hér er um heildarkostnað að ræða og þarna er ekki sundurliðaður lyfja- og lækniskostnaður. Þetta er bæði lyfja- og lækniskostnaður og það er erfitt að fá sundurliðað nákvæmlega hversu mikið af þessari upphæð eru lyf. En þess ber að geta að við eigum endurkröfurétt til þessara EES-ríkja um 20 millj. kr. þannig að íslenska ríkið hefur ekki enn þá greitt þessar 7,5 millj. og mun ekki gera fyrr en heildardæmið er gert upp, en alþjóðadeild Tryggingastofnunar er að vinna með tryggingastofnunum erlendis að því að gera þetta dæmi upp.

Hv. þm. sagði að það kæmi fyrir að einstaklingar gætu t.d. fengið frí lyf. Það rétt því að það fer eftir lögum í því landi sem fólkið er, í Þýskalandi og Danmörku gilda t.d. ekki sömu lög og á Spáni, þar sem sjúklingarnir borga hærri hlut heldur en ef þeir dvelja t.d. í Danmörku.

En aðalatriðið er að það er ekki búið að gera upp heildardæmið. Reikningurinn er upp á 7,5 millj. en við eigum endurkröfurétt upp á 20 millj.