Dreifikerfi Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 05. nóvember 1997, kl. 14:44:53 (990)

1997-11-05 14:44:53# 122. lþ. 19.6 fundur 183. mál: #A dreifikerfi Ríkisútvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[14:44]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég er sannfærður um að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson var ekki að ferðast í Miðfirðinum eftir að langbylgjusendingar hófust því að það á að vera hægt að ná þeim í Miðfirðinum mjög auðveldlega.

Varðandi spurningu hv. þm. Guðjóns Guðmundssonar um kostnað við það að dreifa sjónvarpi víðar en á landi þá hef ég ekki tölur um það hér og nú en menn hafa nefnt hundruð millj. kr. eins og kunnugt er og einnig að það sé erfitt að gera það með viðunandi hætti nema með allt öðrum tæknibúnaði en við ráðum við núna. Raunar stendur valið fyrir menn í þessu efni um margar leiðir eins og málum er nú komið, bæði gervihnetti og ljósleiðara eins og hv. þm. Jón Kristjánsson vakti máls á og einnig tölvur því að eins og við vitum er nú hægt að nota tölvur til þess að taka á móti sjónvarpsefni. Ég veit ekki hvaða áhrif það hefur á sjó úti hvort menn geta eins og þeir geta stundað fjarnám í tölvum, hvort þeir geta einnig náð sjónvarpsefni og slíku efni betur en áður með tilstyrk hinnar nýju tækni. Leiðirnar í þessu eru því sífellt að verða fleiri en kostnaðurinn við það að óbreyttri tækni er mjög mikill að ætla sér að ná út á hafið í ríkari mæli en gert hefur verið.

En ég tel að langbylgjusendirinn á Gufuskálum hafi þegar sannað gildi sitt. Hann hefur gerbreytt aðstæðum bæði á landi og sjó og þegar langbylgjustöðin á Eiðum verður komin í notkun verða aðstæður enn þá betri í öðrum landshlutum en núna þannig að það stefnir í rétta átt. Ég ætla ekki að fullyrða að það sé endilega rangt hjá Ríkisútvarpinu að velta rækilega fyrir sér hvernig nota má ljósleiðara því að ég tel að það sé ýmisleg önnur tækni sem menn geta haft til hliðsjónar þegar þeir velta fyrir sér að veita betri þjónustu að þessu leyti.