Stefnan í málefnum Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 05. nóvember 1997, kl. 15:40:12 (1018)

1997-11-05 15:40:12# 122. lþ. 19.92 fundur 77#B stefnan í málefnum Ríkisútvarpsins# (umræður utan dagskrár), menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[15:40]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Þegar útvarpslögin voru samþykkt árið 1985 voru aðstæður einstaklinga og fyrirtækja til fjölmiðlunar allt aðrar en þekkist í dag. Gífurlega hröð þróun í fjarskipta- og fjölmiðlunartækni, einkum með samruna útvarps, fjarskipta og tölvutækni hefur gerbreytt umhverfi fjölmiðla um allan heim og möguleikum einstaklinga til þess að velja sér dagskrárefni og láta til sín taka við miðlun á hvers kyns efni og upplýsingum.

Íslensku útvarpslögin eru að mínu mati ófullnægjandi rammi um fjölmiðlun hér á landi og fyrirsjáanlega þróun í þeim efnum á næstu árum. Þess vegna er óhjákvæmilegt að mínu mati að hafin sé samhliða endurskoðun á lögum um fjarskipti og útvarpsrekstur þar sem stefnt sé að því að afnema laga- og tæknilegar hindranir í fjarskiptum og tryggja að ekkert hamli eðlilegri þróun í hvers kyns boðskiptum. Tækniþróunin verður ekki stöðvuð. Spurningin er hvernig við getum nýtt okkur hana, m.a. til þess að treysta menningarlega hagsmuni þjóðarinnar. Þetta er nauðsynlegt að hafa í huga þegar ég leitast við að svara fyrirspurnum þingmannsins.

Hvað varðar framtíð Ríkisútvarpsins skiptir mestu máli hvernig stofnuninni tekst að sinna menningarlegu hlutverki sínu og hvernig hún mætir kröfum tímans, þar með með því hvernig hún nýtir sér upplýsingatæknina. Það leiðir af þeirri tækniþróun sem ég hef getið um að breytingar verða að mínu mati óhjákvæmilegar á starfsemi Ríkisútvarpsins í samræmi við kröfur tímans og breytta fjölmiðlaneyslu ef svo má að orði komast. En að uppi séu áætlanir um að leggja Ríkisútvarpið niður eða selja hluta af því hefur aldrei verið á dagskrá hjá mér. Ég sem menntmrh. hef aldrei boðað slíka stefnu eins og þingmenn ættu að vita.

Ég tel hins vegar að það eigi að endurskoða útvarpslögin og fjarskiptalögin þannig að settur sé almennur rammi um útvarpsstarfsemi hér á landi. Útvarpsréttarnefnd hefur vakið athygli mína á því að nauðsynlegt sé sem allra fyrst að setja skýrar og skilmerkilegar reglur um réttindi og skyldur eigenda og/eða rekstraraðila kerfa sem dreifa útvarps- og sjónvarpsefni um þráð. Næstu skref verða að útfæra þessar hugmyndir með það fyrir augum að leggja fram frv. um þetta efni á hinu háa Alþingi. Ég tel að það komi einnig sérstaklega til álita hvort ekki beri að aðskilja þessi ákvæði í útvarpslögum og síðan hafa sérstök lagaákvæði um Ríkisútvarpið sem stofnun og þurfi ekki að vera endilega í einum og sama lagabálkinum. Þetta er í samræmi við það sem ég hef löngum sagt að tækniþróunin gerir þær kröfur í þessu máli að við hugsum um það á allt öðrum forsendum en hefur gerst til þessa. Að sjálfsögðu verður ekki flutt frumvarp um þessi mál af hálfu ríkisstjórnarinnar nema það sé samstaða um málið milli ríkisstjórnarflokkanna. Það liggur í hlutarins eðli.

Að því er varðar ráðningu starfsfólks að Ríkisútvarpinu er það svo að í höndum menntmrh. er að ráða útvarpsstjóra og framkvæmdastjóra sjónvarps annars vegar og hljóðvarpsins hins vegar. Málin eru send til umsagnar hjá útvarpsráði og síðan tekur ráðherra ákvörðun sína.

Varðandi ráðningu þessara starfsmanna eins og annarra starfsmanna á vegum ríkisins tel ég að það beri að fara að því sem sérstaklega hefur verið tíundað af umboðsmanni Alþingis að þessar ákvarðanir eigi að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum með hliðsjón af menntun, reynslu, skólagöngu, hæfni og öðrum persónulegum eiginleikum. Ég tel að í ákvörðunum mínum um þetta efni hafi ég fylgt þessum meginsjónarmiðum.

Að því er varðar húsnæðismálin er það skoðun mín að núna beri að taka ákvarðanir um það að sameina Ríkisútvarpið á einum stað við Efstaleiti. Það hafa farið fram það margar athuganir á því máli að ég held að málið verði ekki skoðað öllu meira. Það liggja fyrir tillögur frá Ríkisendurskoðun, það liggja fyrir tillögur frá nefnd sem ég skipaði á síðasta ári til að fjalla um málið og nú liggur fyrir rekstrarfræðileg úttekt á Ríkisútvarpinu sem unnið hefur verið eftir og henni hefur verið hrundið í framkvæmd og í henni felst einnig áskorun um að útvarpið verði sameinað undir einu þaki í Efstaleiti. Hins vegar er umdeilanlegt hvað þessi framkvæmd kostar mikið. Menn hafa nefnt þar allt frá 500 millj. upp í einn milljarð kr. en þetta er málefni sem ég tel að verði að taka ákvarðanir um og hef ég þegar kynnt hugmyndir mínar um það efni á vettvangi ríkisstjórnarinnar. Ég tel einnig að það verði að stýra þessu máli með það að leiðarljósi að framleiðsla leikins efnis verði flutt til sjálfstæðra fyrirtækja utan veggja stofnunarinnar eins og hvatt hefur verið til, m.a. af Bandalagi íslenskra listamanna.