Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 06. nóvember 1997, kl. 12:47:46 (1045)

1997-11-06 12:47:46# 122. lþ. 21.1 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[12:47]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Síðasti ræðumaður sagði að það þyrftu að vera tvær búðir, þ.e. fyrir non-Schengen-farþega og fyrir aðra. Það þarf hvort eð er að byggja upp í Keflavík. Hér sjáum við fram á að flugrekstraraðilar ætla að bæta gífurlega við sig í farþegafjölda sem fer hér í gegn. Flugstöðin er þegar orðin of lítil og því þarf að stækka hana. Það er líka rétt sem síðasti ræðumaður kom inn á að sterkar pólitískar ástæður eru fyrir því að fara inn í Schengen, þ.e. að liggja þétt upp að Evrópusambandinu, eins og ég dró fram í ræðu minni, án þess þó að ganga inn í það.

Það er hins vegar skoðun mín að það muni auðvelda ferðaþjónustunni ef við erum aðilar að Schengen vegna þess að þá þarf ekki að nota passa hingað eins og ég nefndi. Þegar menn eru að velja sér land til þess að fara til vilja þeir að sjálfsögðu hafa sem minnsta fyrirhöfn. Fólk mun fara miklu meira á milli landa í framtíðinni en í dag og þetta er eitt af því sem fólk mun skoða, þ.e. fyrirhöfnin við það að fara á milli landa.

Það er líka ljóst að þeir aðilar sem eru í flugrekstri í dag munu geta nýtt sér samninginn. Þeir geta sagt, t.d. í Bandaríkjunum, þegar þeir selja sínar ferðir: Fljúgið með okkur, komið við í Keflavík, farið í gegnum Keflavík, við tékkum ykkur inn á Schengen-svæðið, þið skuluð afgreiða þann pakka hjá okkur í ró og næði, í þessari litlu flugstöð --- af því að hún er að sjálfsögðu lítil þegar við miðum við aðrar flugstöðvar í Evrópu. Ég tel því að flugrekstraraðilar ættu að sjá þetta sem ákveðið jákvætt skref og þeir geta auglýst þetta upp.