Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 06. nóvember 1997, kl. 14:03:20 (1051)

1997-11-06 14:03:20# 122. lþ. 21.1 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[14:03]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það voru mörg atriði í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar sem væri ástæða til að taka upp í andsvari, en ég vil aðeins einbeita mér að einu og það er almannavarnaæfingin Samvörður 97 þar sem ég leyfði mér að taka þannig til orða að þessi æfing hefði fengið afar jákvæða athygli erlendis.

Er það ekki merkilegt mál að hingað skuli koma 20 þjóðir til þess að æfa almannavarnir á Íslandi? Er það ekki merkilegt mál að við skulum vilja leita samstarfs við aðrar þjóðir gagnvart þeirri vá sem náttúruhamfarir eru hér á Íslandi eða í öðrum löndum? Er það ekki merkilegur hlutur að Rússar tóku þátt í þessari æfingu? Er það ekki merkilegur hlutur að Eystrasaltsþjóðirnar allar tóku þátt í þessari æfingu og aðrar þjóðir sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum? Að sjálfsögðu er hér um afar merkilegan atburð að ræða og það er líka mjög merkilegt að þetta er fyrsta æfingin innan friðarsamstarfsins sem stýrt er af borgaralegum aðila.

Ég hélt satt best að segja að þetta væri m.a. ekki aðeins í þágu íslensku þjóðarinnar heldur í þágu þeirra sem telja og vilja að annars konar öryggismál en þau sem tengjast herafla komi inn í umræðuna og komi fram í reynd í okkar umhverfi. Ég hef skilið hv. þm. Alþb. fram að þessu þannig að það sé eitthvað svona sem þeir vilja sjá. Þeir vilja sjá nýja heimsmynd og nýjar áherslur. Þetta er m.a. þáttur í því að breyta þessu að frumkvæði Íslands og það hefur vakið mikla athygli erlendis. Það er staðreynd. En að mönnum skuli líka það illa og vera nákvæmlega sama hvað öðrum finnst um okkur, það er dálítið merkileg yfirlýsing.