Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 06. nóvember 1997, kl. 15:46:36 (1074)

1997-11-06 15:46:36# 122. lþ. 21.1 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[15:46]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil hér eyða misskilningi. Athugasemd mín um yfirborðskenndar umræður þingmanna Alþfl. um hugsanlega aðild að ESB áttu alls ekki við þær umræður sem fóru fram hér fyrir nokkrum árum um aðildina að EES. Þær umræður voru mjög gagnlegar og þær voru efnislegar. Ítarlega var rætt um það mál á Alþingi og athugasemd mín átti alls ekki við það. Athugasemd mín átti hins vegar við umræður sem hafa margítrekað orðið hér á Alþingi um hugsanlega aðild Íslendinga að ESB. Sú umræða hefur mér þótt vera nokkuð yfirborðskennd og vera, eins og ég sagði áðan, í símskeytastíl. Það er verið að tala um hluti eins og það hvort málið sé á dagskrá eða ekki, hvort menn hafi lært heimvinnuna sína eða ekki. Það er miklu minna gert af því að steypa sér ofan í það að skoða t.d. hvaða áhrif gjaldeyrissamstarfið, þegar það kemst á, kemur til með að hafa á þróun Evrópusambandsins í heild. Þau áhrif verða djúp og mikilvæg. Og þau geta nefnilega skipt sköpum fyrir þróun Evrópusambandsins.

Þessi umræða hefur ekki farið mikið fram hér. Það hefur ekki farið fram mikil umræða um hvaða áhrif þetta samstarf kemur til með að hafa á stöðu Íslands og það er ekki heldur mikil umræða um hvaða áhrif þessi samrunaþróun sem kristallast í Maastricht-samkomulaginu kemur til með að hafa á Evrópuríkin í heild. En ég bendi á það í lok máls míns að Maastricht-samkomulagið átti sér aðdraganda allan níunda áratuginn við kringumstæður þar sem heiminum var stjórnað af tveimur blokkum. Síðan hrundi önnur blokkin, (Forseti hringir.) en eftir stóð Maastricht-samkomulagið sem hafði verið unnið á forsendum sem þá voru ekki lengur til.