Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 06. nóvember 1997, kl. 15:51:12 (1076)

1997-11-06 15:51:12# 122. lþ. 21.1 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[15:51]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu er það rétt hjá hv. síðasta ræðumanni að aðild að Evrópusambandinu er ekki á dagskrá. Ég mundi hins vegar fagna því að það yrði aukin umræða um samrunaþróunina í Evrópu, á hvaða braut hún er nú, hvað er líklegt að gerist á næstu árum og hvernig Evrópusambandið kemur til með að laga sig að aðstæðum þar sem ekki eru lengur 15 ríki heldur rúmlega 40 ríki. Sjálfur mun ég með ánægju taka þátt í slíkri umræðu. Og ég vil geta þess að í hádeginu vorum við staddir, sá sem hér stendur og hv. þm. Ágúst Einarsson, á fundi Verkfræðingafélagsins og áttum þar viðræður saman og fluttum erindi þar sem einmitt var fjallað um þessa hluti. Og ég verð að viðurkenna að þar var að mínu mati annar bragur yfir umræðunum heldur en oft vill verða hér í þingsalnum. (Gripið fram í: Var þá meira vit í þessum ... ) Það var minna í símskeytastíl, hv. þm. En ég vil endurtaka það að ég er tilbúinn í þær umræður hvenær sem er og mundi hafa ánægju af því.