Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 06. nóvember 1997, kl. 16:45:57 (1086)

1997-11-06 16:45:57# 122. lþ. 21.1 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[16:45]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er reyndar mjög ánægð með það hvað formaður Framsfl. er mikill EES-sinni miðað við að Framsfl. var klofinn í afstöðu sinni á þeim tíma sem aðild var samþykkt að þeim samningi. Þá var andstaða fyrrv. formanns flokksins hörð við aðildina að EES og þannig er það nú oft þegar fólk skoðar ekki málin með opnum huga. Við verðum t.d. að skoða hvað felst í Amsterdam-sáttmálanum fyrir okkur, fyrir Norðurlöndin, fyrir lönd innan og utan Evrópusambandsins. Við eigum að skoða hvað breytingin á Schengen og hvað myntsambandið hefur að segja fyrir okkur og fleiri atriði sem er að finna í Amsterdam-sáttmálanum sem við áttum okkur ekki alveg á hvaða áhrif hafa fyrir löndin eftir því hvort þau eru innan eða utan. Auðvitað á ríkisstjórn að þora, alveg eins og þetta, að opna umræðu um Evrópusambandið. Það er alveg ljóst, óháð því hvaða skoðun maður hefur á því hvort við eigum að fara inn í Evrópusambandið eða ekki, að stjórnarflokkarnir stöðva heilbrigða umfjöllun sem á að leiða til niðurstöðu í svona stóru hagsmunamáli þannig að unnt sé að taka ákvörðun á þeim grundvelli um það hvort Íslandi sé betur varið innan eða utan Evrópusambandsins.

Af því að ráðherrann tekur nú svo stórt upp í sig varðandi það að skoða málin með opnum huga, kanna hverjir eru kostirnir, hverjir eru gallarnir og í fyllingu tímans leggja það mál fyrir þjóðina hvort eigi að sækja um, þá segi ég: Það skyldi þó aldrei vera að sú stund eigi eftir að renna upp að ráðherrann fari með okkur í að spyrja þjóðina um þetta.