Aukin hlutdeild almennings í atvinnurekstri

Þriðjudaginn 11. nóvember 1997, kl. 14:11:53 (1094)

1997-11-11 14:11:53# 122. lþ. 22.2 fundur 35. mál: #A aukin hlutdeild almennings í atvinnurekstri# þál., TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur

[14:11]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég endurtek að það er rangnefni og bætir ekki við neinn skilning þingsins á eðli þessa máls að tala um skyldusparnað hér. Það er jafnmikið rangnefni eins og t.d. að nota hugtakið skyldusparnaður um það mál sem hefur verið fyrir þinginu í mörg undanfarin á, þ.e. húsnæðissparnaðarreikningar þar sem fólki stendur til boða að fá skattafslátt gegn samningsbundnum sparnaðareikningum. Það er enginn sem skyldar fólk til þess að taka slíku boði frekar en hér er um að ræða neina skyldu. Þetta er því rangnefni og er ekki gert til þess að skýra málið fyrir þingheimi heldur til þess að draga úr skilningi á því.

Ég tek einnig fram að hér er ekki um lagafrv. að ræða. Hér er talað um að undirbúa lagasetningu. Þau atriði sem ég vék að áðan, um að það væri hægt að nýta sér heimildir fyrirtækja til þess að eiga hlutabréf í sjálfum sér, gætu komið til móts við þær hugmyndir sem eru settar fram en að sjálfsögðu væri það liður í því að undirbúa lagasetningu að skoða þessa möguleika. Það er því ekki hægt að tala um að hér sé vanhugsað mál á ferðinni þegar gert er ráð fyrir því að það sé beinlínis tekið til athugunar við undirbúning lagasetningarinnar.

Að lokum tek ég fram vegna athugasemda hv. þm. Ágústs Einarssonar um viðskiptahalla að viðskiptahallinn í dag er frábrugðinn viðskiptahalla fyrri ára að því leyti til að hér er um að ræða fjárfestingu að talsverðu leyti, sem mun ýta undir aukna verðmætasköpun í framtíðinni, en hitt er einnig rétt að benda á að hugmyndirnar sem eru fólgnar í þessari þáltill. eru að sjálfsögðu gerðar til þess að draga heldur úr viðskiptahalla.