Orka fallvatna

Þriðjudaginn 11. nóvember 1997, kl. 14:42:28 (1099)

1997-11-11 14:42:28# 122. lþ. 22.5 fundur 50. mál: #A orka fallvatna# frv., 56. mál: #A jarðhitaréttindi# frv., Flm. HG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur

[14:42]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir tveimur frumvörpum og þakka hæstv. forseta fyrir að heimila að það sé gert í einu lagi. Um er að ræða frv. til laga um orku fallvatna, nýtingu hennar og um breytingu á vatnalögum, nr. 15/1923, og hitt er frv. til laga um jarðhitaréttindi, 56. mál. Þessi frv. eru vel kunnug hér á hv. Alþingi. Þau hafa verið flutt á mörgum þingum allt frá árinu 1983 að telja og voru til meðferðar á síðasta þingi og hefur ætíð verið vísað til iðnn. þingsins.

Hér er um grundvallarmál að ræða sem varða eignarrétt, yfirráðarétt og umráðarétt á þessum auðlindum og löngu brýnt að um það verði sett lög á hv. Alþingi. Fleiri þingflokkar hafa látið sig þessi mál skipta, þá sérstaklega Alþfl. og nú þingflokkur jafnaðarmanna sem flutti mál um svipað efni á síðasta þingi, sem einnig lá fyrir hv. iðnn. Þá gerðust þau tíðindi loks á síðasta þingi að ríkisstjórnin lagði fyrir frv. til laga um eignar- og umráðarétt auðlinda í jörðu og kom það fram á þinginu en hefur ekki verið endurflutt. Ég geri fastlega ráð fyrir að það mál komi fyrir þingið og taldi rétt sem 1. flm. þessa máls, en með mér eru flm. allir hv. þingmenn í mínum þingflokki, Alþb. og óháðum, að rétt væri að mál þetta kæmi til þingsins og til hv. nefndar þannig að það væri til athugunar jafnhliða frv. sem væntanleg eru og boðuð hafa verið frá hæstv. ríkisstjórn og e.t.v. fleiri sem leggja í það málasafn. Ég geri því, virðulegur forseti, ráð fyrir og legg það til að frv. þetta fari til hv. iðnn. Hv. iðnn. þingsins hefur á fyrri stigum fjallað um þessi mál, aflað margháttaðra gagna og ætti að vera vel í stakk búin til að taka á þessum stóru málum. Ég leyfi mér að láta í ljós þá von að á þessu þingi takist að ná saman um heildstæða löggjöf að þessu leyti svo brýnt sem það er að sett verði skýr lög um þessi efni.

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar en ítreka að málið gangi til hv. iðnn.