Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 11. nóvember 1997, kl. 15:23:07 (1104)

1997-11-11 15:23:07# 122. lþ. 22.11 fundur 77. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sala aflaheimildar) frv., Flm. KHG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur

[15:23]

Flm. (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Á þskj. 77 hef ég leyft mér að flytja frv. til laga um breytingu á lögum um tekju- og eignarskatt, nr. 75/1981. Í frv. þessu sem eru fjórar greinar eru sex efnisatriði. Í 1. gr. frv. eru tvö efnisatriði. Í hinu fyrra er kveðið á um söluhagnað og hann skilgreindur af sölu aflahlutdeildar sem úthlutað er samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða. Fram til þessa hafa ekki verið í skattalögum nein ákvæði sem skilgreina söluhagnað af sölu aflahlutdeildar.

Í öðru lagi er kveðið á um það í 1. gr. frv. að söluhagnað af sölu aflahlutdeildar skuli ávallt að fullu teljast til skattskyldra tekna á söluári. Með því er girt fyrir að önnur ákvæði í skattalögum, lögum um tekju- og eignarskatt, sem varða dreifingu og frestun söluhagnaðar gildi þegar í hlut á hagnaður af sölu aflahlutdeildar. Með þessu lagaákvæði mun söluhagnaður af sölu aflahlutdeildar ávallt teljast að fullu til skattskyldra tekna á því ári sem sala fer fram.

Þriðja efnisatriðið er í 2. gr. frv. en þar er að finna skilgreiningu á orðinu aflahlutdeild en það orð hefur enga skilgreiningu nema í lögum um stjórn fiskveiða og er því nýmæli að kveða á um skilgreiningu þess í skattalögum en skilgreiningin er svo hljóðandi, með leyfi forseta:

,,Aflahlutdeild ... telst vera réttindi tengd ófyrnanlegum náttúruauðæfum ...``

Í fjórða lagi er í þessari lagagrein kveðið á um að þessi réttindi verði eigi fyrnd. Það er einnig nýmæli því ekki er að finna ákvæði í umræddum lögum sem lúta að meðferð þessara réttinda og hefur verið stuðst við úrskurði ríkisskattanefndar hvað það varðar og síðar Hæstaréttar. Með þessari breytingu sem er meginefni frv. er komið í veg fyrir að unnt verði að færa til gjalda á rekstrarreikningi fyrirtækja kaupverð á aflahlutdeild. Það leiðir af sér að til þess að standa undir kaupunum er einungis hagnaður af rekstri fyrirtækisins eða eigin fé þess.

Í fimmta lagi er í 3. gr. frv. að finna ákvæði sem kveða á um það að aflahlutdeild skuli ekki teljast til eignar í skilningi skattalaga. Er það gert til áréttingar á því sjónarmiði að þessi réttindi séu ekki varanleg í hendi útgerðarmanns. Þetta leiðir af sér að ekki verður greiddur eignarskattur af þessum réttindum.

Í sjötta lagi er í 4. gr. frv. gildistökuákvæði og kveðið á um að lögin öðlist þegar gildi.

Frv. þetta var flutt á síðasta löggjafarþingi og var 611. mál þá og er nú endurflutt að mestu leyti óbreytt. Eftirfarandi greinargerð fylgdi þá með frv.:

,,Í frumvarpi þessu er mörkuð skýr stefna um skattalega meðferð viðskipta með aflahlutdeild sem úthlutað er með lögum um stjórn fiskveiða. Nauðsynlegt er af hálfu Alþingis að taka af skarið um hvernig með skuli fara í þessum efnum, enda margt álitaefnið. Lagt er til í frumvarpinu að aflahlutdeild verði skilgreind sem ófyrnanleg réttindi til þess að nýta náttúruauðæfi og því verði kostnaður vegna kaupa á slíkum réttindum ekki færður til gjalda í rekstrarreikningi. Á hinn bóginn verði hagnaður af sölu aflahlutdeildar færður til skattskyldra tekna samkvæmt frumvarpinu. Með þessari skattalegu meðferð stendur einungis hagnaður af rekstri eftir skatta undir kaupum á aflahlutdeild nema til komi framlög frá eigendum eða önnur eiginfjáraukning. Þar með er loku skotið fyrir það fyrirkomulag sem nú er að útgerðarmaður geti komist hjá því að nokkru leyti að greiða tekjuskatt af hagnaði útgerðar með því að festa kaup á aflahlutdeild. Sú takmörkun leiðir til þess að verð á aflaheimildum mun óhjákvæmilega lækka í verði sem hlýtur að teljast æskilegt markmið. Þá er gert ráð fyrir að verðmæti aflahlutdeildar verði ekki fært til eignar í skilningi skattalaganna, þ.e. það verðmæti myndi ekki stofn til eignarskatts.``

Þá fylgir með frv. kafli úr skýrslu nefndar um mótun sjávarútvegsstefnu sem gefin var út á þskj. 360 á 117. löggjafarþingi sem fjallar um skattalega meðferð aflaheimilda. Nefndin, sem skipuð var af sjútvrh. og stundum kölluð tvíhöfða nefndin fjallaði um þetta efni, komst að þeirri niðurstöðu að rétt væri að leggja til að óheimilt verði að fyrna kaupverð varanlegra aflahlutdeilda sem eigendaskipti verða á frá og með upphafi fiskveiðiársins sem hefst 1. sept. 1996. Það má segja að frv. sem ég flyt nú hafi að geyma sömu skoðun á þessu máli og svokölluð tvíhöfða nefnd setti fram fyrir fjórum árum.

Herra forseti. Það er óþarft að hafa öllu frekari orð um efnisatriði frv. nema aðeins að geta þess sem ég gleymdi áðan að kveðið er á um það í 2. gr. frv. að tap af sölu aflahlutdeildar verði ekki talið sem rekstrarkostnaður. Þetta er nokkuð mikilvægt ákvæði því að svo kann að fara á næstu árum vegna þess háa verðs sem verið hefur á aflahlutdeild að verð á henni muni lækka og því ekki ólíklegt að upp komi tilvik þar sem um er að ræða tap af sölu aflahlutdeilda. Þykir rétt að setja það lagaákvæði að það tap verði eigi heimilt að færa til gjalda og er tilgangur sá sami og með hinu almenna ákvæði frv. að stuðla að lækkun á verði aflahlutdeilda, skilgreina þau í skattalögum sem ófyrnanleg verðmæti sem teljast eigi til eigna með þeim rökum að þessi réttindi rýrni ekki við notkun og því ástæðulaust að heimila fyrningu á kaupverði þeirra.

Herra forseti. Ég hef lokið við að mæla fyrir þessu frv. sem er flutt öðru sinni og geri mér vonir um að það njóti nokkurs stuðnings, ekki hvað síst í ljósi þess að hæstv. sjútvrh. hefur lýst viðhorfum nýlega sem ganga í sömu átt og starfshópur sem er þessar vikurnar á vegum fjmrh. fjallar um þetta álitaefni. Er búist við því að hann muni leggja til að þessi háttur verði upp tekinn sem hér er lagt til í frv. Ég vænti því, herra forseti, að frv. þetta eigi greiða leið í gegnum farvegi þess í þinginu og verði að lögum fyrir jól.

Að lokinni umræðunni legg ég tíl að málinu verði vísað til efh.- og viðskn. og 2. umr.