Markaðshlutdeild fyrirtækja

Miðvikudaginn 12. nóvember 1997, kl. 13:47:10 (1136)

1997-11-12 13:47:10# 122. lþ. 23.5 fundur 218. mál: #A markaðshlutdeild fyrirtækja# (dagblaðaútgáfa) fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur

[13:47]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Hv. þm. Tómas Ingi Olrich spyr á þskj. 231 í fyrsta lagi: Hefur ráðherra upplýsingar um markaðshlutdeild tveggja stærstu fyrirtækja landsins í dagblaðaútgáfu?

Samkvæmt skýrslu Samkeppnisstofnunar frá desember 1994 um stjórnun og eignatengsl í íslensku atvinnulífi voru Árvakur hf. og Frjáls fjölmiðlun hf. stærstu fyrirtækin í útgáfu dagblaða. Sú breyting hefur orðið á að þessi fyrirtæki eru einu útgefendur dagblaða hér á landi. Ekki hefur verið aflað sérstakra gagna um veltu fyrirtækjanna tveggja á dagblaðamarkaðnum.

Í öðru lagi spyr hv. þm.: Telur ráðherra ástæðu til, með tilliti til markaðshlutdeildar þessara fyrirtækja, að setja lög sem takmarka umsvif og starfsemi þeirra umfram það sem samkeppnislög segja til um?

Sem svar við þessari spurningu vísa ég til svars míns áðan við annarri fyrirspurn hv. þm. á þskj. 230 sem er efnislega samhljóða svari við þessari spurningu.