Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996

Fimmtudaginn 13. nóvember 1997, kl. 11:41:06 (1175)

1997-11-13 11:41:06# 122. lþ. 25.3 fundur 86#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1996# (munnl. skýrsla), KHG
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur

[11:41]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Vissulega er af mörgu að taka þegar ræða skal skýrslu Byggðastofnunar og byggðamál almennt í samhengi við þá skýrslu. Ég drep fyrst á þá þætti sem mér sýnist að séu helst áhrifavaldar hvað varðar þá þjóðflutninga sem hafa átt sér stað á undanförnum áratugum og hafa varið vaxandi á síðustu árum á nýjan leik eftir að úr þeim dró um nokkurt skeið þar á undan. Vissulega er margt af því sem dregið hefur verið fram sem hugsanlegar skýringar satt og rétt og ég get tekið undir margt af því. Hins vegar vil ég árétta að menn eiga ekki að vanrækja að líta á hinar augljósu skýringar. Menn mega ekki láta sér yfirsjást þau augljósu teikn sem sjá má um hvað ræður helst úrslitum í þessu efni. Það er einkum tvennt. Það er atvinna og það eru laun. Þetta tvennt skýrir að mínu viti megnið af fólksflutningum á síðustu árum og áratugum. Aðalorsakavaldarnir eru hvaða atvinna er í boði og hvaða laun eru í boði. Þegar maður hefur þetta í huga og það að á undanförnum árum hefur verið gríðarlegur samdráttur í veiði á ýmsum nytjastofnum, sérstaklega þorski, er augljóst að hægt er að skýra þær breytingar sem orðið hafa. Því er bæði eðlilegt og skiljanlegt hvers vegna breytingar hafa verið meiri á Vestfjörðum en annars staðar. Það er einfaldlega vegna þess að störfin sem í boði eru eru færri, launin eru að jafnaði lág og samdrátturinn í fiskveiðunum hefur verið mestur í þeim atvinnugreinum sem eru stærstar fyrir. Þetta eru augljósar skýringar og að mínu viti eiga menn að skoða þær en ekki láta sér yfirsjást þessar meginskýringar á þeim breytingum sem orðið hafa á síðustu árum. Ég vara við því að menn dragi um of athyglina frá þessum þáttum málsins. Ég tek þó undir að margt annað getur hjálpað til við að leita að skýringum.

Ég minni á að Byggðastofnun hefur óskað eftir því við Háskóla Íslands að unnin verði upp skýrsla af þeirra hálfu því að við viljum gjarnan nota hið mikla hugvit og þá spekinga sem hér eru búsettir til að hjálpa okkur við að skýra þessi mál. Það er komið rúmt ár síðan þeir tóku þetta verkefni að sér en ekki er enn farið að sjást í niðurstöður. Ég verð að láta í ljós mikil vonbrigði með það að þessi ágæta stofnun, Háskóli Íslands, sem okkur öllum þykir svo vænt um, skuli ekki sýna þessu verkefni meiri ræktarsemi en raun ber vitni.

Í öðru lagi vil ég nefna að ástæða er til að láta sig varða þessa þróun. Margir, sérstaklega þeir sem búa á stöðum sem eru að taka við fólki og eru í uppsveiflu, vilja láta það líta þannig út að hér sé um að ræða náttúrulögmál, rétt eins og vatn sem rennur niður á við og verður ekki breytt og þess vegna sé ekki á færi stjórnvalda að breyta. En ég vil andmæla því og segja að það eru skýringar á þessu og það er hægt að breyta hlutunum. Það er ástæða til að gera það vegna þess að það tapa allir, þeir sem búa út á landi, þeir sem flytja og þeir tapa sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Það er það mikill kostnaður við flutningana að það er enginn sem græðir. Það þarf að byggja ný mannvirki, mannvirki sem eru til á þeim stöðum sem eru að tapa fólkinu. Hver borgar þau mannvirki? Þjóðin borgar þau með sköttum sínum, bæði sköttum til ríkis og sveitarfélaga. Við sjáum það ef við skoðum reikninga um fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar að hún hefur farið hríðversnandi á síðustu árum og líka annarra sveitarfélaga í nágrenninu. Hvers vegna skyldi það vera? Það er einföld skýring. Vegna þess að það að fá nýja íbúa þýðir ekki bara tekjur heldur líka útgjöld.

[11:45]

Útgjöld Reykjavíkurborgar vegna nýrra íbúa á síðustu árum hafa verið meiri en nemur þeim tekjum sem þeim hafa fylgt. Hjá Reykjavíkurborg hefur verið beint tap af þessum flutningum á undanförnum árum og það mun halda áfram. Það skýrir m.a. þann mikla þunga sem er af hálfu Reykjavíkurborgar um sérframlög gegnum fjárlög ríkisins á ýmsum sviðum, einkum á sviði menntamála. Það hafa verið stofnaðir ákveðnir sjóðir sem dreifa peningum sérstaklega inn á höfuðborgarsvæðið til þess að mæta þeim mikla kostnaði sem borgin verður fyrir. Það er dálítið hlálegt að hafa það í huga í þeirri umræðu að hinir fáu og smáu séu óhagkvæmir að stóru sveitarfélögin fá sérstaka ríkisaðstoð á sumum sviðum. Ég minni á 2 milljarða sem eru veittir til að einsetja grunnskóla og er samkvæmt ákvæðum laganna bundið við að þau framlög fái bara þau sveitarfélög sem eru fjölmennari en 2.000 manns. Þau þurfa sérstaka ríkisaðstoð af því þau geta ekki einsett skóla sína af almennum tekjum sínum. En Alþingi hefur sagt: Þau sveitarfélög sem eru fámennari en 2.000 manns geta einsett skóla sína. (Gripið fram í: Og eru búin að því.) Og eru búin að því. (Gripið fram í: Með hjálp ríkisins.) Já, sömu hjálp og ríkið veitti hinum stóru sveitarfélögum, það er ekki hallað á. Ég er ekki að segja, herra forseti, vegna frammíkalls hv. þm. Reykn., að óeðlilegt sé að Reykjavíkurborg fái umframfyrirgreiðslu, ég er að segja: Það er vegna þess að það er umframkostnaður sem Reykjavíkurborg verður fyrir vegna þess að hún er að fá til sín svo margt fólk og því fylgja ekki tekjur til að standa undir kostnaði. Við erum komin yfir þau mörk þar sem hagkvæmni stærðarinnar gildir. Allir tapa á þessum flutningum og þess vegna eigum við láta okkur málið varða, og við eigum að leitast við að grípa til aðgerða til að stöðva þetta af því það er öllum í hag. Það er höfuðborgarsvæðinu í hag, það er landsbyggðinni í hag en fyrst og fremst er það því fólki sem býr á báðum þessum stöðum í hag því að við getum þá lækkað skattana eða veitt meiri þjónustu fyrir sömu skatta. Með því að láta þetta viðgangast erum við að minnka lífskjör á Íslandi af því við þurfum að taka svo og svo mikið út úr almennum skatttekjum til þess að endurbyggja og endurfjármagna hluti sem við vorum búin að koma upp og þá peninga getum við ekki notað til að veita fólki þá þjónustu sem kallað er eftir.

Herra forseti. Skoðun mín á því hvernig við viljum breyta þessu liggur alveg skýr fyrir. Hún er þannig að við eigum að taka upp valddreifingu í stjórnsýslunni. Ísland er fullkomlega miðstýrt land. Alveg frá 1904 hefur verið fullkomin miðstýring, eitt af fáum löndum Evrópu sem er þannig fyrir komið að það er bara ein miðstöð. Sveitarfélagastigið er svo aumt að varla er hægt að kalla að það megni nokkurs. Ég tel að við eigum að byggja upp stjórnsýslustig úti um landið. Þetta eru sömu áherslur sem hafa endurspeglast í því að menn hafa sagt í mörg ár: Við skulum efla sveitarfélögin. En ég segi að það er alveg sama þó að sameining sveitarfélaga gangi eins og villtustu draumar eru um, þau verða þá kannski ekki 150 heldur 50 eða 60 eða 70, það breytir engu, því að þau verða eftir sem áður svo lítil að þau geta ekki tekið við því valdi sem þau þurfa til þess að snúa þróuninni við. Þess vegna þurfum við að byggja upp stjórnsýslustig sem er miklu stærra í sniðum, u.þ.b. fjórar til fimm einingar yfir landið. Þá getum við byggt upp á þeim einingum stjórnsýslu, fært þangað völd, tekjur og verkefni og þá munu menn breyta hlutunum. Þar sem völdin eru þar eru peningar og þar sem peningar eru þar er fólkið. Fólkið flytur til Reykjavíkur af því að þar eru völdin og af því að völdin eru í Reykjavík þá eru peningarnir í Reykjavík og fólkið flytur eðlilega á eftir. Til þess að breyta þessu þarf að taka á þessum þætti málsins. Mín vegna mega menn alveg tengja þessar breytingar við breytingar á kjördæmaskipan, stækka kjördæmi og fækka, ég geri ekki neinn ágreining um það og er reyndar á þeirri skoðun að núverandi fyrirkomulag sé landsbyggðinni ekki til mikils gagns. Það hefur ekki dugað til að halda við og við þurfum endurbætur á þessu sviði til þess að geta snúið vörn í sókn.

Hér var vikið að Byggðastofnun og ég vil fara nokkrum orðum um það. Ég vil árétta, svo mönnum sé það ljóst, að Byggðastofnun er til þess að taka áhættu, henni er ætlað að hafa peninga með höndum og dreifa þeim eftir ákveðnum reglum af því að almennu bankakerfi er ekki ætlað að taka áhættu af þessum toga. Þess vegna er eðlilegt að afföll verði í útlánastarfsemi þeirrar stofnunar af því að henni er ætlað að taka áhættu. Þess vegna er það ákaflega skrýtið, sem hæstv. forsrh. hefur ákveðið, að stofnunin verði að varðveita eigið fé. Hvernig á stofnun sem í eðli sínu á að vera útlánastofnun á áhættusviði að varðveita sitt eigið fé? Hvernig fer það saman? Ef hún á að varðveita sitt eigið fé er hún bara venjulegur banki. Við þurfum svo sem engan nýjan banka, það er nóg af bönkum. Við getum þess vegna lokað Byggðastofnun að þessu leyti til. Ef Byggðastofnun má ekki taka áhættu, hvort sem það er formi lánveitinga, hlutafjárframlaga eða styrkveitinga vilja menn bara ekki hafa neina byggðastefnu. Það er einfaldlega svar mitt. Hæstv. forsrh. má mín vegna taka af alla útlánastarfsemi stofnunarinnar sem er ekki á áhættulánasviði, ég geri ekki stóran ágreining um það, en ég bendi á að tekjurnar af þeirri útlánastarfsemi eru uppistaðan í bolmagni stofnunarinnar til þess að veita styrki. Ef ríkisstjórnin ætlar að taka af þessar tekjur, án þess að skerða möguleika stofnunarinnar til þess að veita framlög og styrki verður að auka framlag ríkisins í gegnum fjárlög. Hæstv. forsrh. gat ekki um það hvort hann ætlaði sér að gera það og ef svo er ekki er ráðherra einfaldlega að segja að það sé stefna ríkisstjórnarinnar að við séum ekkert í því að hafa neina byggðastefnu. Við ætlum bara að hafa stofnun sem framleiðir skýrslur og meira af skýrslum. Það er ágætt að fá skýrslur til að lesa annað slagið en við höfum alveg nóg af skýrslum, við vitum allt sem við þurfum að vita um þessi mál. Það sem við þurfum eru menn sem vilja gera eitthvað. Þá er ekki að finna á bekknum hér fyrir aftan mig, eins og þið sjáið, því að þeir eru allir tómir. Þar eru ekki menn sem vilja gera eitthvað í þessum málum.

Það er af mörgu fleira að taka. En ég vil víkja aðeins að skýrslu Aflvaka og ég verð að segja að margt hefur nú rekið á fjörur mína af skýrslum en fátt er verra en þessi skýrsla. Þar er margt sem er illa sagt, sem er missagt og margt sem er hreinn rógburður svo ekki sé fastar að orði kveðið. Skýrslunni er fylgt úr hlaði með bréfi og þar stendur, með leyfi forseta: ,,Aðstandendum úttektarinnar er það ljóst að hér er um pólistískt hitamál að ræða þar sem sitt sýnist hverjum eftir því hvar á landinu er búið. Umræðan hefur því gjarnan fremur snúist um skiptingu framlaga milli landsvæða fremur en um heildarhagsmuni þjóðarinnar.`` Og svo vilja skýrsluhöfundar breyta þessu og þá kemur næst: ,,Af hálfu aðstandenda úttektarinnar skal það undirstrikað að til hennar var ekki stofnað til að viðhalda eða kynda undir þeim deilum sem verið hafa milli landshluta eða einstakra hagsmunaaðila, þvert á móti.`` Svo lesum við: ,,Niðurstöður: Ríkið ver árlega um 32 milljörðum kr. til að koma í veg fyrir byggðaröskun og af þessari upphæð má telja tæpa 13 milljarða til beinna styrkja.`` Það er ekkert annað. Ég hef setið í fjárln. en hef ekki séð þá 32 milljarða sem eru til þess að koma í veg fyrir byggðaröskun. Þegar ég fer að lesa skýrsluna kemur í ljós að það eru peningarnir sem eru til þess að reka sjúkrahúsin úti á landi. Það heitir framlag til að koma í veg fyrir byggðaröskun en peningarnir til þess að reka spítala í Reykjavík heita bara framlag til stjórnsýslu og er allt annað mál. Fleira af þessum toga væri ástæða til þess að fara yfir en ég hef ekki tíma til.

En vil bara segja að lokum, herra forseti, til þeirra sem skrifa þessa skýrslu, að þeir mega mjög hafa það í huga að þeir sem ráða úrslitum í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík eru fólkið sem bjó áður á landsbyggðinni og hefur flutt þúsundum saman til Reykjavíkur á síðustu árum og áratugum. (Forseti hringir.) Þeir borgarfulltrúar í Reykjavík sem telja það helst til framdráttar að tala og flytja óhróður um landsbyggðina ættu mjög að vara sig.