Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Þriðjudaginn 18. nóvember 1997, kl. 14:12:29 (1334)

1997-11-18 14:12:29# 122. lþ. 27.1 fundur 249. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[14:12]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir góð orð um frv. Ég ætlaði mér ekki að rifja upp að hv. þm. ásamt ýmsum þingmönnum stjórnarandstöðunnar hefði stór orð um það við upphaf þingsins að það mál sem hér er til umræðu yrði stærsta og harðasta pólitíska deilumálið á yfirstandandi þingi. Það yrði styrjöld á þinginu vegna þessa máls. Það sem hefur hins vegar gerst er að menn hafa náð niðurstöðu í málinu, menn hafa náð málamiðlun sem ég tel vera vel ásættanlega og það ríkir kyrrð um þetta mjög svo mikilvæga mál. Og ef okkur tekst í vetur að koma þessu máli í gegnum þingið, sem ég á fulla von á, þá tel ég að tekið sé eitt allra stærsta skrefið í velferðarmálum Íslendinga.

Varðandi það sem ég minntist á um innheimtuna þá benti ég hv. nefnd á að full ástæða væri til þess að fara betur í saumana á þessu ákvæði vegna þess að þegar málið er gaumgæfilega skoðað þá er nokkuð erfitt fyrir ríkisskattstjóra að sjá um innheimtuna eins og þegar skattar eru innheimtir. Til þess liggja ýmsar og gildar ástæður sem ég hef ekki tíma til að fara út í hér. Aðalatriðið er þetta: Skattstjóri hlýtur að eiga að fylgjast með því hverjir greiða og þar með er kominn upplýsingagrunnur um það hverjir greiða ekki lögmæt gjöld. Það er grunnurinn. Spurningin er hins vegar sú hvort menn séu tilbúnir til þess að láta skattyfirvöld eltast við einstaklinga eins og hér er gert ráð fyrir eins og um skattskuldir sé að ræða eða hvort eðlilegra sé að t.d. lífeyrissjóðirnir sjálfir myndi með sér bandalag, einhvers konar stofnun, sem sæi um slíka innheimtu á grundvelli upplýsinga frá ríkisskattstjóraembættinu. Ég bað nefndina um að kanna þetta rækilega. Við höfum rætt þetta við skattstjórana og fjmrn. er tilbúið til þess að ræða þetta við nefndarmenn. Í þessu felst ekkert það sem hv. þm. ýjaði að, að verið væri að ganga á bak orða sinna eða sinna ekki málamiðluninni.