Förgun mómoldar og húsdýraáburðar

Miðvikudaginn 19. nóvember 1997, kl. 13:33:14 (1391)

1997-11-19 13:33:14# 122. lþ. 28.1 fundur 104. mál: #A förgun mómoldar og húsdýraáburðar# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[13:33]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Eitt meginvandamál íslensku þjóðarinnar er uppfok og eyðing jarðvegs. Þrátt fyrir mikla sókn gegn þessari vá hefur heldur miðað hægt. Vandamálið er mikið en ein ástæða þess hversu hægt hefur gengið virðist vera skortur á stefnumörkun eða alltént nógu skýrri stefnumörkun á þessu sviði.

Samtímis því sem við fylgjumst með stórum svæðum verða örfoka með viðeigandi óþægindum og hættu, þá erum við samhliða að eyða efnum sem vel má nýta til skilvirkrar uppgræðslu. Þannig er, herra forseti, að í landnámi Ingólfs Arnarsonar er talið að fargað sé um 72 þúsund tonnum af lífrænum úrgangi frá búrekstri og húsdýrahaldi og tæpum 50 þúsund tonnum af öðrum lífrænum úrgangi. Og það sem meira er, vitað er að stærstur hluti af úrgangi á stórum svína- og hænsnabúum fer beint í sjóinn. Þetta er athyglisvert. Þarna er verið að taka verðmæti og láta þau valda mengun í hafi í stað þess að nýta efnið til uppgræðslu. Þetta er í rauninni skammarlegt.

Í annan stað vil ég nefna að um 70 þúsund tonn af mómold eru árlega talin falla til vegna mannvirkjagerðar á landnámi Ingólfs Arnarsonar einu. Drjúgum hluta af þeirri mómold er fargað með ýmsum hætti. Þannig er talið að upp úr framkvæmdum við Ártúnsbrekku hafi komið um 57 þúsund rúmmetrar af jarðvegi sem fór til uppfyllingar á landi.

Herra forseti. Þetta geta vart talist búhyggindi. Hér er um að ræða gífurlega mikil og í rauninni ómetanleg verðmæti sem ekki eru nýtt en þess í stað látin valda skaða. Hér er afskaplega brýnt að móta skýra stefnu. Á þessu þarf að taka.

Samtökin Gróður fyrir fólk hafa lagt fram metnaðarfulla og í rauninni ódýra áætlun um það hvernig nýta megi þessi verðmætu efni í stað þess að spilla þeim og láta þau valda skaða. Þess vegna spyr ég hæstv. umhvrh. hvort hann muni beita sér fyrir stefnumörkun á þessu sviði.