Starfsstöð Vegagerðarinnar í Rangárvallasýslu

Miðvikudaginn 19. nóvember 1997, kl. 15:32:40 (1434)

1997-11-19 15:32:40# 122. lþ. 28.10 fundur 205. mál: #A starfsstöð Vegagerðarinnar í Rangárvallasýslu# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[15:32]

Fyrirspyrjandi (Ísólfur Gylfi Pálmason):

Herra forseti. Afstaða þessa skelegga ráðherra kemur mér mjög á óvart. Ég var að spyrja ráðherrann um afstöðu hans til þessara mála. Hann les upp úr svari Vegagerðarinnar og segir að þeir beri alla ábyrgð á málinu. Ráðherrann ber ábyrgð á Vegagerðinni. Það er alveg ljóst. Það er ráðherrann og ég var að spyrja um afstöðu hans.

Það vantar enn þá öll rök í þessi mál. Það vantar allar tölur. Ég spurði um heildarstefnu. Hvar er framtíðarstefna Vegagerðarinnar í þessum málum? Það er verið að tala um fortíðina. Það er ekki verið að tala um daginn í dag.

Þetta er mjög furðulegt á þeirri forsendu að í Rangárvallasýslu er engin höfn. Allir flutningar fara landleiðina. Það er alveg ljóst. Og það annað sem vekur líka furðu mína. Ég sat á fundi hjá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga ekki alls fyrir löngu þar sem þessi mál bar á góma. Þar sagði flokksbróðir hæstv. ráðherra, hv. 3. þm. Suðurl., að þetta mál yrði tekið til sérstakrar skoðunar og lýsti því þar yfir að þessu máli yrði frestað í það minnsta um fimm ár eða svo. Það kemur hvergi fram í afstöðu ráðherrans og þess vegna spyr ég: Hvaðan hefur þessi hv. þm., flokksbróðir ráðherrans, þær upplýsingar?