1997-11-19 16:09:19# 122. lþ. 28.92 fundur 96#B rekstrargrundvöllur landvinnslu í samkeppni við sjóvinnslu um borð í frystiskipum# (umræður utan dagskrár), StB
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[16:09]

Sturla Böðvarsson:

Herra forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir að hafa tekið þetta mál hér upp þó að ekki sé tími eða möguleikar til þess að ræða það til hlítar. Staðreyndin er sú að við stöndum frammi fyrir mjög óæskilegri þróun hvað varðar hina svokölluðu landvinnslu.

Hins vegar ber á það að líta að okkur Íslendingum er lífsnauðsynlegt að nýta auðlindir sjávarins þannig að það sé gert af sem allra mestri hagkvæmni. Verðum við einnig að líta til þess sem er mikilvægt að við nýtjum sjávarauðlindirnar þar sem það er hagkvæmast og þá er ég fyrst og fremst að líta til þess að nýta auðlindir við ströndina, botnsjávardýr og annað á strandveiðiflota.

Síðan vil ég nefna í þriðja lagi að við eigum mjög mikið undir því að nýta sjávarauðlindirnar þannig að við getum byggt landið allt, að við getum haldið áfram að styrkja eða a.m.k. verja sjávarbyggðirnar allt í kringum landið og gera það með því að þær geti nýtt auðlindirnar. En þetta er hins vegar ekki auðvelt eða einfalt mál og þróunin hefur verið sú að landvinnsla sem hefur staðið undir atvinnulífinu í mörgum sjávarbyggðum hefur átt undir högg að sækja.

Við sjáum það m.a. á þskj. sem hér hefur verið dreift að frá árinu 1994, hafa verið úrelt á fimmta hundrað skip sem hafa verið mikilvæg undirstaða öflunar hráefnis fyrir landvinnsluna. Landvinnslan stenst ekki samkeppni miðað við þær aðstæður sem stóru togurunum sem vinna sinn afla úti á sjó er sköpuð í dag. Af þeirri ástæðum þurfum við að stokka upp spilin og ég fagna því þess vegna að þessi umræða skuli vera hafin hér. Hins vegar sakna ég þess að ekkert hefur enn þá komið fram í þessari umræðu sem getur leitt til nokkurrar lausnar á þeim vanda landvinnslunnar sem við stöndum frammi fyrir.