Framtíðarskipan raforkumála

Fimmtudaginn 20. nóvember 1997, kl. 11:30:50 (1468)

1997-11-20 11:30:50# 122. lþ. 30.2 fundur 227. mál: #A framtíðarskipan raforkumála# þál., SvG
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[11:30]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Hér er á ferðinni býsna stórt mál og væri ástæða til þess að velta því fyrir sér hvort rammi þingskapa sé ekki of þröngur um mál af þessu tagi. Hér er á ferðinni mál sem mér finnst að eigi að jafna til skýrslna þannig að tíminn sé þá tvöfaldur á við það sem gerist og gengur í venjulegum þingsályktunartillögum. Þetta segi ég ekki til að gagnrýna neinn sem hér er heldur bara til að minna á þetta mál í tengslum við endurskoðun þingskapa sem er óhjákvæmilegt að verði farið í.

Herra forseti. Ég ætlaði mér að vekja athygli á nokkrum atriðum í sambandi við tillöguna og fyrst að nefna það að mér finnst tillagan veik. Mér finnst tillagan ekki mjög öflugt skjal eins og hún lítur hér út. Út af fyrir sig vil ég líka segja að ég er tilbúinn fyrir mitt leyti og af hálfu þingflokks okkar til þess að vinna að því að bæta tillöguna í hv. iðnn. en það eru mjög veigamikil atriði sem vantar í hana. Það er alveg ótrúlegt að það skuli vera flutt till. til þál. um framtíðarskipun raforkumála án þess að nefna tvö tiltekin grundvallaratriði sem eru hvergi nefnd þannig að orð sé á gerandi.

Hið fyrra er að hvergi er farið út í að rekja umhverfisforsendur orkunýtingar og það er gamaldags nálgun í orkumálum að ræða um orkumál öðruvísi en að taka sérstaklega á umhverfisforsendun orkunýtingar bæði vistvænum, mengunarlausum orkugjöfum, málum eins og því hvernig á hugsanlega að nýta vetni og vindorku í framtíðinni. Hér er engin áhersla á að draga úr notkun lífræns eldsneytis og engin áhersla á að verðlagning orkunnar endurspegli allan kostnað, líka umhverfiskostnaðinn til skemmri eða lengri tíma. Þessa sakna ég úr tillögunni og um það gæti ég farið mörgum fleiri orðum en geri ekki.

Hitt atriðið sem ég tel að sé sérstaklega alvarlegt að vera ekki með í tillögunni er áherslan á jöfnun orkuverðs. Það er ótrúlegt að það skuli gerast, sérstaklega með hliðsjón af því hvað orkuverðlagsmálin er alltaf veigammikill þáttur orkuumræðunnar á Íslandi, ekki síst núna þessa dagana. Hvergi er minnst á verðjöfnun raforku í þessum pappír. Það er mjög merkilegt með hliðsjón af þeirri stöðu sem nú er, t.d. vegna þess að einmitt í dag eða gær er verið að tilkynna verulega hækkun á töxtum Landsvirkjunar. Það er bersýnilegt að sú hækkun á öll að fara til þess að uppfylla kröfur eigenda samkomulagsins um það að eigið fé Landsvirkjunar skili tilteknum arði. Hægt er að halda því fram að ef ekki kæmu til þessar kröfur eigenda samkomulagsins þá þyrfti orkuverðshækkunin ekki að eiga sér stað. Ég vil gera það að hluta af mínu máli í umræðunni að skora á hæstv. iðnrh. að knýja Landsvirkjun til að taka þessa hækkunarákvörðun til baka af því að engin rekstrarleg rök eru fyrir henni. Það eru engin rök fyrir henni önnur en þau að það þurfi núna að uppfylla ákvæði þessa eigendasamkomulags. Ég tel með hliðsjón af þessu og öðru að ótrúverðugt sé að flytja till. til þál. um framtíðarskipan raforkumála, og tala ekki um umhverfismál, tala ekki um jöfnun orkukostnaðar, tala ekki um neitt annað en samkeppni sem hlýtur að þýða það hvað sem menn segja um samkeppni að öðru leyti að það verði misjafnt orkuverð í landinu því að samkeppnin byggist á því að orkuverð sé misjafnt.

Í þriðja lagi verð ég að segja það í framhaldi af þessu, herra forseti, að ég tel að grundvallarpólitíkin í tillögunni sé slæm að því er varðar þessa einhliða samkeppnisáherslu.

Ég tel hins vegar sjálfsagt mál og það er stefna Alþb. og hefur lengi verið að það eigi að vinna að skipulagslegum aðskilnaði vinnslu, flutnings og dreifingar. Það er út af fyrir sig mál sem við erum tilbúin til þess að taka á og vinna að að verði orðað í texta tillögunnar. Ég tel að tillagan sé að mörgu leyti almenn og kannski meinlaus því að ein og sér breytir hún sáralitlu. Hæstv. iðnrh. á samkvæmt tillöguni að yfirfara rekstrarform orkufyrirtækja. Hann á að láta fara fram könnun á tæknilegum og fjárhagslegum forsendum fyrir breyttu fyrirkomulagi á flutningi raforku um meginflutningskerfið. Hann þarf að móta skilyrði fyrir veitingu virkjanaleyfa án þess að það sé neitt skilgreint nánar og ég botna satt að segja ekkert í því orðalagi hvað er átt við með því hvers lags skilyrði getur ráðherra mótað. Hann getur engin skilyrði mótað. Sá eini sem getur mótað skilyrði í málinu er Alþingi eins og allir vita sem sitja í þessum sal. Ráðherrann á að kanna nýjar leiðir til nýtingar orkulindanna til atvinnuuppbyggingar og allt í góðu með það. Hann á að kanna tæknilega, fjárhagslega og umhverfislega kosti og galla þess að tengja íslenska orkukerfið við raforkukerfi á Bretlandseyjum og meginlandi Evrópu. Mér finnst að það eigi að kanna þessa hluti. Mér finnst að það eigi að kanna fjármögnunarhliðina, arðshliðina og allt það, fara mjög rækilega yfir þá hluti og ég hef ekkert við það að athuga að menn kanni það.

Síðan kemur síðasti punkturinn. Ráðherrann á að gefa þinginu skýrslu um framgang málsins eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti og í fyrsta sinn eftir að hann hefur látið af embætti, þ.e. árið 2000. Það er í raun allt sem stendur í tillögunni og ég segi eins og er að síðastnefnda ákvæðið er það langmeinlausasta vegna þess að það skiptir sáralitlu máli.

Ég held þess vegna, herra forseti, að það þurfi mjög mikla vinnu að leggja í tillöguna í hv. iðnn. og ég endurtek það af hálfu þingflokks Alþb. og óháðra að við munum gera það sem við getum í þeim efnum.

Alþb. ályktaði ítarlega um umhverfismál á landsfundi sínum núna nýlega og þar hvetur Alþb. til þess að fylgt verði sjálfbærri stefnu í orkunýtingarmálum og við mat á virkjunarkostum verði ósnortin náttúra metin til verðmæta. Efla þarf grunnrannsóknir á náttúru Íslands, m.a. til þess að tryggja að mat á umhverfisáhrifum geti farið skilvirkt fram. Eins og segir í ályktuninni varar landsfundurinn við stórfelldum áformum um virkjanir á hálendi Íslands og lagningu háspennulína og annarra orkudreifingarkerfa. Fundurinn hvetur til varfærni í framkvæmdum og til virðingar við náttúru landsins, krefst þess að alþjóðlegir samningar verði virtir, leggur áherslu á jöfnun orkuverðs sem grundvallaratriði stefnu sinnar í verðlagsmálum raforku. Fundurinn leggur til að raforku verði skipt upp þannig að orkusala til stóriðju verði algerlega skilin frá orkusölu til almenningsveitna og að snúið verði af þeirri braut að hinn almenni raforkunotandi greiði niður orkuverð fyrir stóriðjuna. Þessir þættir, herra forseti, skipta mjög miklu máli í sambandi við meðferð málsins og við munum halda þeim til haga við meðferð málsins í hv. iðnn.

Að lokum þetta um tillöguna, herra forseti. Það vantar tvö úrslitaatriði í hana, þ.e. umhverfisforsendurnar og jöfnunarverðsforsendurnar. Útilokað er að ná samkomulagi um tillögu eða ályktun Alþingis um skipulag raforkumála öðruvísi en á þessum þáttum sé tekið. Í tilefni af þessu, herra forseti, skora ég á hæstv. ráðherra að beita sér fyrir því að Landsvirkjun afturkalli strax í dag þá ákvörðun um hækkun sem tilkynnt hefur verið núna í gær og í fyrradag.