Framtíðarskipan raforkumála

Fimmtudaginn 20. nóvember 1997, kl. 11:45:30 (1472)

1997-11-20 11:45:30# 122. lþ. 30.2 fundur 227. mál: #A framtíðarskipan raforkumála# þál., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[11:45]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi er það þannig að í till. til þál. um framtíðarskipan raforkumála, sem hefur verið lögð fyrir 122. löggjafarþing og er 227. mál á þskj. 259, er hvergi nefnd jöfnun orkuverðs. Það er hvergi nefnd sú stefna að stuðla eigi að jöfnun orkuverðs. Það þarf að fara aftur neðst á bls. 4 í grg. til að finna það að menn ætli að leitast við af fremsta megni, einhvern tímann, að reyna að koma á jöfnun orkuverðs. Þannig er alveg ljóst að grg. liggur ekki hér fyrir sem tillaga og texti í grg. er aldrei borinn upp á Alþingi. Auðvitað mætti hugsa sér að flytja texta úr grg. í tillögu en ráðherrann gerir ekki þessa tillögu til Alþingis. Hann gerir það ekki. Hann gerir bara tillögu um að verðlag á raforku lúti samkeppnis- og markaðslögmálum og punktur --- það er það eina sem stendur í þessu skjali.

Varðandi hækkun Landsvirkjunar þá vil ég bara segja að ég tel óhjákvæmilegt að Landsvirkjun verði rekin til baka með þessa hækkun, fyrst og fremst vegna þess að Landsvirkun á með þessu að standa við ákvæði eigendasamkomulagsins. Hún er ekki að gera neitt annað. Ég var andvígur þessu samkomulagi, eins og menn vita og muna sem hér eru í salnum. Ég tel að það eigi í raun og veru að hafna því eins og staðan er í dag. Það er eins og blaut tuska framan í andlit landsmanna að knýja fram þessa hækkun. Á sama tíma og Landsvirkjun er á aðalfundum sínum að monta sig af milljarðahagnaði á hún ekki að hækka verð á raforku. Það á ekki að gera það með þeim hætti sem hæstv. iðnrh. er að verja hér á þessum fundi. (Gripið fram í: Þú greiddir atkvæði með.) Það er rangt. (Gripið fram í: Nei.) Það er rangt.