Framtíðarskipan raforkumála

Fimmtudaginn 20. nóvember 1997, kl. 12:23:36 (1481)

1997-11-20 12:23:36# 122. lþ. 30.2 fundur 227. mál: #A framtíðarskipan raforkumála# þál., KHG
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[12:23]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Það er athyglisvert þegar rætt er þetta mikla mál sem fjallar um framtíðarskipan raforkumála og er eitt af stærri málum ríkisstjórnarinnar á þessum vetri hversu lítil þátttakan er í umræðum, bæði af hálfu stjórnarflokka og stjórnarandstöðu og ekki hvað síst hve fáir eru viðstaddir umræðuna. Ég velti því fyrir mér hvaða ályktun megi draga af þessu og hef svo sem ekki einhlíta skýringu sem ég gæti sagt að ég trúi að sé hin eina rétta en mér finnst þetta bera vott um að áhuginn á málinu er lítill í herbúðum stjórnarinnar, af hvaða ástæðum sem það kann að vera.

Ég verð að segja að ég er ekki á þeirri skoðun að málið sé þannig að menn eigi að láta það fram hjá sér fara án þess að hafa skoðun á því og láta hana koma fram. Ég tel þetta vera mjög stórt mál sem getur breytt miklu til framtíðar litið, breytt bæði núverandi fyrirkomulagi og breytingarnar geta farið á báða vegu, á þann veg að menn geta haft ávinning af þeim og menn geta líka haft veruleg óþægindi af breytingunni. Miðað við framlagningu plaggsins er ávinningurinn að mínu mati líklegastur á þéttbýlinu á suðvesturhorni landsins en óþægindin sem málinu fylgja er líklegast að komi fram á landsbyggðinni.

Ég hef nokkrar áhyggjur af því að framsetning og stefnumörkun í málinu skuli ekki vera betur mörkuð þannig að litið sé til hagsmuna allra. Því miður er í hverjum málaflokknum á fætur öðrum horft of mikið á hagsmuni meiri hlutans og í of litlum mæli horft á hagsmuni heildarinnar. Þetta er því miður mjög áberandi í mörgum málum. Þjóðfélagið er í raun og veru tvískipt, það er annars vegar þessi mikla búseta hér við Faxaflóa sem skapar að mörgu leyti mjög góð skilyrði fyrir því að gangvirki markaðsþjóðfélagsins eigi við og kostirnir komi fram gagnvart íbúum sem hér eru og dreifbýli þar fyrir utan þar sem tiltölulega fáir búa þar, bæði sem hlutfall af þjóðinni og fáir íbúar á ferkílómetra. Þar gilda ekki þessi lögmál nema mjög takmarkað. Oftast nær eru menn við löggjöf eða stefnumörkun að glíma við það að hafa eitt fyrirkomulag fyrir alla þegar aðstæður eru þannig að það á mjög illa við. Þetta bið ég menn að hafa í huga við vinnu málsins í þinginu.

Fram til þessa hafa menn byggt orkumálastefnuna upp á heildarhagsmunum og rekið því mjög miðstýrða stefnu til þess að tryggja að unnt sé að dreifa ávinningnum til allra án tillits til búsetu. Það fyrirkomulag hefur haft sína kosti sem er engin ástæða til annars en að draga hér fram og minna á þó að ekki hafi tekist að öllu leyti eins og ýtrustu óskir voru um. Það að hverfa frá því að líta á það sem aðalatriði málsins að tryggja örugga afhendingu raforku hvar sem er og tryggja gæði hennar og tryggja sem jafnast verð sem hafa verið helstu markmiðin, að hverfa frá því að nokkru leyti yfir í önnur markmið sem eru arður af fjárfestingu og samkeppni hefur í för með sér verulegar breytingar. Þær breytingar eru ekki að öllu leyti til bóta og ég vil minna á það hér. Menn þurfa m.a. að gæta að því að taki menn upp þessa nýju stefnu sem ég er ekki að öllu leyti ósammála, þá spyr ég: Hvernig ætla menn að halda að einhverju leyti fram hinum markmiðunum? Við gætum breytt spurningunni: Að hve miklu leyti ætla menn að kasta hinum gömlu markmiðum? Ætla menn að hætta því að byggja upp raforkudreifingarkerfi sem nái til allra og ekki bara með einfasa rafmagn heldur þrífasa rafmagn? Ætla menn að hverfa frá því? Ætla menn að slaka á kröfum um afhendingaröryggið? Ætla menn að slaka á kröfum um sem jafnast orkuverð? Að hve miklu leyti ætla menn að víkja frá þessum markmiðum? Hvernig ætla menn að bregðast við þessum markmiðum sem eru óhjákvæmileg, a.m.k. að einhverju leyti, með því að taka strikið yfir í samkeppnina og arðgreiðslurnar, hvernig ætla menn þá að mæta hinum óæskilegu áhrifum sem því fylgir? Maður spyr sig að því.

Það ræður afstöðu hvort maður telur breytingarnar í heild vera til bóta og maður gæti stutt eða ekki því að við hljótum að líta til þess hvernig hagur allra er í málinu, hvort hann er til bóta eða ekki. Það er ekki nægilegt markmið að mínu viti að meiri hluti landsmanna njóti góðs af ávinningnum ef einhver minni hluti fer halloka út úr breytingunni. Mér finnst mjög miður að frumkvöðlar í þessari stefnubreytingu skuli vera Reykjavíkurborg að leggja áherslu á kröfuna um arðinn. Mér finnst það mjög miður og tel hlut Reykjavíkurborgar í málinu ekki vera góðan og hef svo sem gert grein fyrir því áður í umræðu um orkumál.

En mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um breytingar sem yrðu í kjölfar þess að tillagan yrði samþykkt og sérstaklega 1. tölulið hennar um að yfirfara rekstrarform raforkufyrirtækja sem ríkið á eignarhlut í og meta markaðsvirði þeirra o.s.frv. með það að markmiði að samræma arðgjafar- og arðgreiðslumarkmið þeirra. Hvaða áhrif hefur þessi stefnumörkun á rekstur Orkubús Vestfjarða? Er hæstv. iðnrh. að boða hækkun gjaldskrár á töxtum Orkubús Vestfjarða sem er nauðsynlegt til þess að skila þeim hagnaði sem þarna á að stefna að?

Í öðru lagi langar mig til þess að spyrja hæstv. iðnrh.: Er hann tilbúinn til þess að ríkið kaupi eignarhlut sveitarfélaga úr Orkubúi Vestfjarða þannig að ríki eigi allt fyrirtækið sem ég tel vera nauðsynlegt til þess að ná fram breytingum á rekstri þess fyrirtækis og markmiðum eins og lýst er í tillögunni?