Uppsagnir sérfræðilækna

Miðvikudaginn 03. desember 1997, kl. 14:30:03 (1588)

1997-12-03 14:30:03# 122. lþ. 33.5 fundur 295. mál: #A uppsagnir sérfræðilækna# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., RG
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[14:30]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Á undanförnum vikum hafa uppsagnir sérfræðilækna á samningum við Tryggingastofnun ríkisins lent á sjúklingum af miklum þunga. Nú hafa 88 sérfræðilæknar sagt upp samningum og hafa 57 uppsagnir tekið gildi. Uppsagnir 14 lækna til viðbótar taka gildi 1. janúar nk. Lítið virðist miða í samkomulagsátt og breytir nýgerður kjarasamningur við sjúkrahúslækna litlu þar um. Þetta er haft eftir fulltrúum Tryggingastofnunar ríkisins og Læknafélags Reykjavíkur í frétt Morgunblaðsins um málið í dag. Ljóst er að þessi staða er orðin sjúklingum mjög erfið. Fyrir heimsókn til sérfræðings getur kostnaður numið frá 3 þús. kr. upp í tugi þúsunda, allt eftir eðli meðferðar. Nú starfar t.d. hvorki háls-, nef- og eyrnalæknar né bæklunarlæknar fyrir Tryggingastofnun ríkisins. Þvagfæraskurðlæknar landsins hafa allir nema tveir sagt upp samningum við stofnunina. Þetta ástand leggst þyngst á elli- og örorkulífeyrisþega sem hafa úr litlu að spila. Ein heimsókn til sérfræðings getur jafnvel kostað þá allar ráðstöfunartekjur eins mánaðar. Við bætist að nýverið var sú breyting gerð á reglum Tryggingastofnunar að elli- og örorkulífeyrisþegar þurfa að taka þátt í að greiða hluta kostnaðar sjúkra- og iðjuþjálfunar. Þannig er ljóst að þeir sem hafa eingöngu til ráðstöfunar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins eiga í verulegum vanda við að standa straum af lækniskostnaði. Afsláttarkort Tryggingastofnunar ríkisins nýtast þeim að sjálfsögu ekki í þessari stöðu.

Að sögn lækna er mikið um það að sjúklingar úr röðum lífeyrisþega þurfi að biðja um greiðslufrest eða hreinlega, sem nokkuð er orðið um, að læknar fella greiðslu niður vegna fátæktar sjúklinga sinna.

Barnafjölskyldur eru einnig í miklum vanda í þessari kjaradeilu. Aðgerð á eyrum, t.d. vegna eyrnabólgu, getur kostað allt að 12 þús. kr. Kostnaður sem fjölskyldan áður slapp að stærstum hluta við að greiða sjálf. Nú leggst þessi kostnaður alfarið á barnafjölskyldur.

Það er óraunsætt að halda því fram, eins og hæstv. heilbrrh. hefur gert hér á Alþingi, að sjúkrahúsin geti tekið við þeirri þjónustu sem sérfræðilæknar á stofum veita. Skipulag bráðasjúkrahúsanna hefur breyst mikið á undanförnum árum þannig að niðurskurður og aðstöðuleysi í kjölfarið gera möguleika þeirra til að bæta við sig þessum verkefnum að engu. Eðli utanspítalaþjónustu sérfræðilækna er líka þannig að hún verður ekki flutt aftur inn á sjúkrahúsin í einu vetfangi.

Virðulegi forseti. Í svari ráðherra hér á Alþingi fyrr í haust kom fram að ekki væri lagaheimild fyrir endurgreiðslu. Því er nú þeirri spurningu beint til ráðherrans hvort hún hyggist beita sér fyrir því að koma á lagaheimild fyrir endurgreiðslu lækniskostnaðar sem elli- og örorkulífeyrisþegar og barnafjölskyldur þurfa nú að greiða vegna yfirstandandi kjaradeilu sérfræðilækna.