Skýrsla félagsmálaráðherra um réttindi fatlaðra

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 10:57:26 (1608)

1997-12-04 10:57:26# 122. lþ. 35.1 fundur 108#B skýrsla félagsmálaráðherra um réttindi fatlaðra# (munnl. skýrsla), SvG
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[10:57]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það er mikilvægt að ræða hér um skýrslu Sameinuðu þjóðanna um jafna þátttöku fatlaðra. Og það er mikilvægt að fara yfir grundvallaratriðin í málefnum fatlaðra hér í þessari stofnun en það verður auðvitað að gæta þess að umræðan um málefnið breytist ekki í almennt tal og frómar óskir sem við eigum öll innan í okkur en breyta engu ef við fylgjum þeim ekki eftir í veruleikanum. Mér finnst það oft vera vandinn við umræður af því tagi sem hér eru að hefjast að menn eru almennt séð góðir en gera ekki grein fyrir því hvernig þeir ætla að fara að því. Ég er ekki að segja þetta til að gagnrýna neinn þeirra sem þegar hafa talað hér í þessari umræðu en ég minni á að dagskrárliðurinn heitir: Skýrsla um réttindi fatlaðra. Með öðrum orðum --- okkur er ætlað að fjalla hér um réttindi fatlaðra almennt --- og kannski í okkar landi sérstaklega. Hvernig standa þau mál í dag? Þess vegna er nauðsynlegt, herra forseti, í þessari umræðu að ræða um kjaramál fatlaðra. Þessi umræða er markleysa ef ekki er rætt um kjaramál fatlaðra. Umræðan er markleysa ef ekki er á það minnt að laun fatlaðra, öryrkja, eru komin niður fyrir lágmarkslaun og lengra niður fyrir lágmarkslaun um næstu áramót en þau hafa verið um langt árabil af því það tókst að bisa kauptöxtum upp í u.þ.b. 70 þúsund kall frá og með næstu áramótum. Um þetta á að tala og það á að segja það --- og ég segi það af okkar hálfu að við teljum að það eigi að lyfta launum fatlaðra þannig að þau séu nær lágmarkslaunum en þau eru í dag. Um þetta á að tala.

Á þessum degi á líka að tala um það, herra forseti, að það stendur ekki til að miða laun fatlaðra við laun á almennum vinnumarkaði þrátt fyrir bandormsfrv. sem rætt verður seinna í dag. Það stendur ekki til. Það er blekking. Ríkisstjórnin er að reyna að plata fatlaða og aldraða með því ákvæði í frv. um efnahagsráðstafanir sem hér liggur fyrir. Í því stendur ekkert annað en að það eigi að hafa hliðsjón af launaþróun í landinu og ákvörðunin eigi að vera í samræmi við fjárlög hverju sinni. Þetta dugir ekki. Og um þetta á að tala.

Á þessum degi á í öðru lagi að tala um það, herra forseti, að ákvörðun hefur verið tekin um að flytja málefni fatlaðra til sveitarfélaganna frá og með 1. janúar 1999.

[11:00]

Að mínu mati á hins vegar að tala um það á þessum degi, að ljóst er að þetta er mjög erfitt verkefni. Það er ljóst að mörg sveitarfélög, t.d. Reykjavík, hafa sett spurningarmerki við það að þetta sé hægt vegna þess að það er flókið mál og erfitt að skrifa réttindamál fatlaðra eins og þau heyra undir félmrn. öll inn í lögin um félagsþjónustu sveitarfélaga. Hér er um að ræða mikið verkefni sem ekki hefur verið leyst og það er greinilegt að ríkjandi er vantrú meðal allra sveitarstjórnarmanna í landinu á því að þetta geti gengið upp.

Á þessum degi á í þriðja lagi að tala um húsnæðisvandamál fatlaðra sem núna þurfa, til að mynda á þessu svæði, að skrá sig á biðlista --- til hve langs tíma? Hvað er biðlistinn langur í Reykjavík eftir húsnæði fyrir fatlaða og öryrkja? Hann er þrjú ár. Um þetta á að tala.

Það á í fjórða lagi að tala um margs konar ráðstafanir og ákvarðanir stjórnvalda sem hafa orðið til þess á undanförnum missirum að skerða réttaröryggi fatlaðra í landinu og allra þeirra sem þurfa að skipta við hina félagslegu þjónustu. Um þetta á að tala. Þetta er innihald en ekki bara form og umbúðir. Og það á líka að tala um það, eins og minnt var á hér í gær, að farið er að rukka öryrkja sem eru lagðir inn á sjúkrastofnanir. Það er farið að rukka öryrkja, það er farið að leggja sérstakan sjúklingaskatt á öryrkja og það er einmitt rætt á degi fatlaðra í þessum sal að frumkvæði hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur. Um þetta á að tala og það á líka að tala um menntunarmál fatlaðra sem eru t.d. þannig að greinilegt er að menntmrn. sinnir ekki lögbundnum skyldum sínum að því er varðar börn í leikskólum með þroskafrávik og líka er greinilegt að menntmrn. sinnir ekki skyldum sínum þegar um er að ræða ákveðna fötlun barna þar sem þeim er hent á milli stofnana og umdæma í fullkominni óvissu. Um þetta verður að tala líka.

Markmiðið með umræðunni um málefni fatlaðra er bara eitt: Það er jafnrétti. Fatlaðir hafa aldrei beðið um forréttindi. Fatlaðir hafa bara beðið um jafnrétti fyrir fatlaða í samfélaginu og okkar áherslur eiga fyrst og fremst að beinast að því að komast eins nálægt því og mögulegt er að tryggja þeim jafnrétti. Það eru til peningar. Það er alltaf verið að svara fötluðum og öðrum með því að það séu ekki til peningar. Fréttir komu um það í sjónvarpinu í gærkvöldi að byggja ætti og væri verið að byggja 64.000 m3 verslunarhúsnæði hér í grenndinni, hér á þessu svæði þar sem maður skyldi nú ætla að væri nóg fyrir á næstu árum. Það eru bersýnilega til peningar þegar tekin er ákvörðun um að leggja 10--15 milljarða kr. í að byggja verslunarhúsnæði þar sem nóg er fyrir. Spurningin í þessu efni er þess vegna ekki um hjartagæsku, ekki um gott hugarþel heldur um pólitík. Eru menn tilbúnir til þess að skerða frelsi fjármagnsins í staðinn fyrir að halda þannig á málum, eins og gert hefur verið á undanförnum árum, að tryggja frelsi fjármagnsins og borga það með ófrelsi fatlaðra, biðlistum fatlaðra eftir þjónustu? Hér er spurning um pólitík og ekkert annað. Þingflokkur Alþb. og óháðra lýsir eindregnum stuðningi við baráttu fatlaðra.