Sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkur

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 14:52:29 (1656)

1997-12-04 14:52:29# 122. lþ. 35.2 fundur 287. mál: #A sameining Kjalarneshrepps og Reykjavíkurborgar# frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[14:52]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri að hv. 1. þm. Reykn. horfir til þessara fordæma þar sem hluti úr sveitarfélögum hefur verið færður til og það þvælist svolítið fyrir honum með tilliti til þess sem menn eru að leggja til að verði ákveðið nú. Það mundi hins vegar þvælast enn þá meira fyrir mér ef menn kæmust að annarri niðurstöðu en hér er verið að leggja til í þessu frv. og síðan kæmi það upp að Akureyrarbær tæki ákvörðun um það í atkvæðagreiðslu að sameinast Reykjavík. Ætla menn þá að segja að íbúar í þeim tveimur sveitarfélögum hefðu vald til þess að breyta kjördæmaskipuninni þvert á stjórnarskrána? Það mundi þvælast enn þá meira fyrir mér. Þess vegna held ég að mjög mikilvægt sé að menn komist hér að skýrri og ákveðinni niðurstöðu og ég held að hún geti varla verið á annan veg, eins og stjórnarskráin er orðuð, en að hún verði að gilda í þessu efni.