Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 12:04:59 (1727)

1997-12-05 12:04:59# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[12:04]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir. Hann hefur nú tekið af öll tvímæli um að ákvæðin eins og þau standa í ákvæði til bráðabirgða í því frv. sem við erum nú að ræða standast ekki vegna þess að þau gera ráð fyrir því að sveitarfélögin, hvert á sínu svæði á hálendinu, fari með æðsta vald í skipulags- og stjórnunarmálum. Samkvæmt þjóðlendufrv. forsrh. er það einn aðili sem fer með þetta æðsta vald á öllu hálendi Íslands, þ.e. forsrh., einn og sami aðili. Það finnst mér mjög eðlilegt því þarna er um að ræða þjóðareign. Það er mjög eðlilegt að einn og sami aðili fari með stjórnsýsluvaldið á því svæði. Sveitarfélögin eru hins vegar samkvæmt þjóðlendufrv. undir vald forsrh. sett í þessum efnum, þ.e. þau eru ekki æðsta vald í stjórnsýslu á hálendinu heldur er forsrh. það. Þannig að ákvæði til bráðbirgða í frv. hæstv. félmrh. hvað þetta varðar standast ekki og það verður að breyta þeim til samræmis við frv. forsrh.

Í annan stað vek ég athygli á ummælum hæstv. forsrh. um að gert sé ráð fyrir því að Alþingi þurfi að fara í þessa samræmingarvinnu og afgreiða ekki frv. hæstv. félmrh. fyrr en jafnhliða hinu. Þá langar mig til að benda á að ekki er eðlilegt, að mínu viti, að félmn. Alþingis, þangað sem frv. félmrh. verður sent, fái þjóðlendufrv. til meðferðar heldur er það eðlilegt umfjöllunarefni allshn., að mínu viti. Ég ítreka að það hefur komið fram í máli forsrh. að ekki er stætt á að afgreiða ákvæði til bráðabirgða í frv. félmrh. eins og það liggur fyrir og ég þakka hæstv. forsrh. fyrir það.