Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 15:46:27 (1772)

1997-12-05 15:46:27# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., MS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[15:46]

Magnús Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. flutti hér merkilega ræðu að mínu viti. Hér talaði varaformaður félmn. Alþingis og ég sakna þess mjög að ekki skyldi hafa komið fram umfjöllun um fjölmörg önnur atriði sem koma fram í þessu frv. En ræða hv. þm. virkaði þannig á mig að í henni fælist mikil gagnrýni á sveitarstjórnir vítt og breitt um landið og ekki fannst mér laust við að það væri ákveðinn hroki í þeirra garð --- ég verð bara að segja það eins og þetta virkaði á mig --- og að þau væru nánast ófær um að sinna þessum skipulagsmálum. Meira að segja kom hv. þm. inn á vandamál í sínu sveitarfélagi, Seltjarnarnesi og hugsanlega mætti skilja það svo að það sveitarfélag væri ekki fullkomlega fært um að sinna skipulagsmálum.

Einnig fannst mér hv. þm. vilja gera breytingar á núverandi skipulagi mála. Landinu er nú skipt í sveitarfélög upp að jökulrótum. Er það rétt skilið hjá mér að hv. þm. vilji breyta núverandi skipulagi? Einnig vil ég spyrja: Er hv. þm. ekki þeirrar skoðunar í grundvallaratriðum að það eigi að skipta landinu öllu í sveitarfélög? Mér finnst vanta nákvæmar lýsingar á afstöðu hv. þm. í þessu máli.