Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 16:44:10 (1787)

1997-12-05 16:44:10# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., JBH
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[16:44]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Áður en þetta mál var tekið til umræðu óskaði formaður Alþfl., hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, eftir því að umræðan færi ekki fram nema hæstv. forsrh. væri kvaddur til. Ástæðan var sú að hæstv. forsrh. lagði fram á seinasta þingi frv. til laga um þjóðlendur. Sérstök ástæða var til að fá skýr svör frá forsrh. um hver væru áform hans og ríkisstjórnarinnar varðandi það mál. Hæstv. forseti varð vel við þeim tilmælum og fundi var frestað og kallað var á hæstv. forsrh. sem gaf yfirlýsingu.

[16:45]

Hann lýsti því yfir í fyrsta lagi að áform ríkisstjórnarinnar um að flytja þjóðlendufrv. væru óbreytt og í annan stað lýsti hann því yfir að það yrði flutt óbreytt eins og það var lagt fram á síðasta þingi. Í svari sínu lagði hann líka áherslu á og vísaði til 3. gr. þjóðlendufrv. Það snertir annan kjarna þessa máls vegna þess að þar er að finna svör við því hvort þessi frumvörp séu samrýmanleg eða er ríkisstjórnin að gera eitt með hægri hendinni og annað með þeirri vinstri og veit nú hin vinstri ekki af því sem hin hægri gjörir.

Fyrst örfá orð um þjóðlendufrv. Árum og áratugum saman hefur ríkt réttaróvissa á Íslandi um gríðarlega mikilvægt mál, þ.e. um eignarrétt á hálendinu utan staðfestra og viðurkenndra eignarréttinda bújarða og heimalanda. Um þetta hafa gengið hver hæstaréttardómurinn á fætur öðrum og Hæstiréttur hefur raunar beinlínis óskað eftir því að Alþingi eyddi þessari réttaróvissu með því að setja lög og áréttaði að til þess hefði Alþingi að sjálfsögðu fullar heimildir. Nefndir hafa verið að störfum og niðurstaðan er þetta frv. til laga um þjóðlendur sem má að vísu skoða sem tilraun til málamiðlunar en engu að síður er þar að finna ákveðin grundvallarsjónarmið. Og þau grundvallarsjónarmið eru þessi: Í þeim tilvikum þar sem einstaklingar geta ekki fært sönnur á eignarrétt sinn fyrir dómi, þá verði hálendið, almenningar og afréttarlönd staðfest sem sameign þjóðarinnar. Þetta er tilraun til þess að eyða óvissu, til þess að kveða upp úr um það að hálendið sé sameign þjóðarinnar og þar með eytt þeim hugsunarhætti sem lengi hefur verið uppi að takmörkuð nýtingarréttindi eins og upprekstrarréttindi, beitiréttur eða veiðiréttur í vötnum sé ígildi staðfests eignarréttar sem ekki er.

Þá er spurningin þessi: Ef þjóðlendufrv. er eingöngu um eignarrétt eins og hæstv. félmrh. sagði er þá ekki allt í lagi þó hæstv. félmrh. flytji frv. um allt annað mál sem er útfærsla á mörkum sveitarfélaga inni á hálendinu og þar með inn á þjóðlendurnar?

Málið er ekki svona einfalt vegna þess að þjóðlendufrv. er ekki bara um eignarrétt. Það er líka um nýtingarrétt, ráðstöfunarrétt og þar með um stjórnsýslu og framkvæmdir. Kostur þjóðlendufrv. er sá að hann eyðir óvissu og frv. er í grundvallaratriðum skýrt. Helsti gallinn á frv. hæstv. félmrh. er að það er fullkomlega óljóst til hvers samþykki þess mun leiða í framkvæmd en þó má færa fyrir því veigamikil rök að það mun skapa nýja óvissu um framkvæmdir og nýtingar á hálendinu, þ.e. ef þetta frv. hæstv. félmrh. á annað borð heldur eitthvað og hefur einhverja merkingu.

Þjóðlendufrv. kveður á um að íslenska ríkið sé eigandi lands og hvers konar landsréttinda og hlunninda í þjóðlendum sem eru ekki háð einkaeignarrétti. Forsrh. fer með málefni þjóðlendna sem eru ekki lögð til annarra ráðuneyta með lögum. Hvaða lög gætu það verið? Það gætu t.d. verið sveitarstjórnarlög, það gætu verið skipulagslög eða einhver lög sem kveða á um að aðrir aðilar fari með stjórnsýslu í þjóðlöndum. Til þess nú að taka af meiri tvímæli um þetta, þá segir í 3. gr. þjóðlendufrv. sem er kjarni þessa máls:

,,Enginn má hafa afnot þjóðlendu fyrir sjálfan sig, þar með talið að reisa þar mannvirki, gera jarðrask, nýta hlunnindi, vatns- og jarðhitaréttindi, sbr. þó 5. gr., nema að fengnu leyfi skv. 2. eða 3. mgr. og að uppfylltum skilyrðum laga að öðru leyti.``

Síðan kemur sú málsgrein. sem kveður á um valdsvið forsrn.:

,,Leyfi forsætisráðherra þarf til að nýta vatns- og jarðhitaréttindi, námur og önnur jarðefni innan þjóðlendu nema mælt sé fyrir um annað í lögum.``

Ég staldra hér við. Er það ekki það sem skiptir sköpum, vatns- og jarðhitaréttindi, námur og önnur jarðefni? Aftur: nema mælt sé fyrir um annað í lögum. Er það áform hæstv. félmrh. að frv. hans eigi t.d. að vera þessi ,,önnur lög`` og þannig skarist við eða takmarki þetta valdsvið forsrn.? Það mun að vísu ekki standast. Ráðherrar, þ.e. forsrh., er jafnframt heimilt að leyfa nauðsynleg afnot af landi til hagnýtingar á þessum réttindum. Það er a.m.k. ljóst að ekki er verið að tala bara um eignarrétt, auðvitað er verið að tala um stjórnsýslu, því að stjórnsýsla er um heimildir bæði til stjórnvalda og annarra aðila um nýtingu á landi og landsréttindum.

Síðan kemur undanþáguákvæði í 3. mgr.:

,,Til að nýta land- og landsréttindi innan þjóðlendu að öðru leyti en greinir í 2. mgr.`` --- þar sem búið er að taka út aðalatriðin sem eru skýr og heyra undir forsrn. --- ,,þarf leyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar.``

Þetta er með öðrum orðum mjög takmarkað, bæði hvaða málasvið og síðan er það raunverulega staðfestingarréttur. Sé nýting heimiluð til lengri tíma en eins árs þarf jafnframt samþykki forsrh. Nú spyr ég, virðulegi forseti: Ef við erum að ræða um stórt mál, sem er nýting á auðlindum hálendisins, hvað erum við að tala um? Við erum að tala um fallvötn, við erum að tala um jarðhita, við erum að tala um nýtingu á orku, við erum að tala um mannvirkjagerð, við erum að tala um vegalagnir, við erum að tala um aðgengi almennings og t.d. ferðamanna og skipulag ferðamála og þá spyr ég: Eru þessi mál þess eðlis að einhver fari út í framkvæmdir eða mannvirki sem falla undir skilgreininguna að nýtingin sé til skemmri tíma en eins árs? Er þá ekki efnislega niðurstaðan sú að í þjóðlendufrv. sé gert ráð fyrir því að eignarhaldið á því sem er sannanlega einskis manns, það verður í ríkiseign og að framkvæmdin á því verði í stórum dráttum sú að forsrn. fari með málið nema í einhverjum hreinum aukaatriðum sem varða eitthvað? Hvað? Að byggja skúr sem á ekki að standa nema í eitt ár? Getur hæstv. félmrh. upplýst okkur um það hvaða rétt hann er að færa að eigin mati sveitarfélögunum til þess að gera hvað innan eins árs sem hefur varanlegt gildi innan eins árs?

Ástæða er til þess að spyrja vegna þess að einkum er borið við nauðsyn skipulagningar á hálendinu sem rök fyrir flutningi hæstv. félmrh. á frv. hans. Um hvað er það? Það er um það að segja um minni hluta sveitarfélaga í landinu sem eiga mörk að hálendinu og þar sem um 4% þjóðarinnar býr, að það eigi að færa mörk þeirra sveitarfélaga inn á hálendið og inn í þjóðlendurnar. Til hvers? Er það þá ekki hugsað til þess að færa þeim einhver völd og áhrif, til þess t.d. að þau ráði skipulagi og stjórnsýslu? Er þetta alveg skýrt? Kveður frv. á um það hvernig þessi mörk eigi að vera? Nei, nei. Það er auðvitað vitað að mikill ágreiningur er um það þegar farið er að framlengja þessi mörk inn í hálendið hvar þau liggja og deiluefni milli sveitarfélaga. Hvernig á að leysa það? Jú, það á að leysa með úrskurðum hæstv. félmrh.

Hins vegar er í þjóðlendufrv. sett upp annað úrskurðarferli, þ.e. um eignarréttarákvæðin þar sem óbyggðanefnd svokölluð á að starfa tiltekið árabil og kveða upp úr úrskurð um það hvað er í eign ríkisins og hvað er í eign einstakra aðila. En stöldrum aðeins við þessi réttindi sveitarfélaga sem hæstv. félmrh. telur sig vera að veita þeim. Hver eru þau? Er hægt að fá það upplýst hver þessi réttur sveitarfélaga á að vera? Ef hann er sannanlega ekki um nýtingu vatns- og jarðhita og ekki um námur og ekki jarðefni og ekki önnur afnot af landi til hagnýtingar á þessum réttindum og hann snýst ekki um nýtingu sem er heimiluð til lengri tíma en eins árs. --- Annaðhvort er þetta bara vanhugsað rugl sem gildir þá um hið fornkveðna að þeim mun fleiri sem komið hafa að þessu máli þeim mun verr gefast góð ráð eða þá að hér liggur fiskur undir steini og ef hann er einhver og ef það er eitthvert innihald í þessu er alveg ljóst mál að það er árekstur við meginákvæði þjóðlendulaganna. Ef það er virkilega meining hæstv. ráðherra að hann sé að færa sveitarfélögunum veruleg stjórnsýsluvöld yfir hálendinu og hann er að segja það í öðru orðinu þegar hann segir að þetta sé nauðsynlegt vegna þess að það þurfi að koma í veg fyrir það ófremdarástand sem þar gildir nú verður hann að svara því: Hvaða völd eru það sem hann er að færa sveitarfélögunum? Ef hann stendur í þeirri trú að sveitarfélögin fái með þessu frv. allar valdheimildir venjulegra sveitarfélaga samkvæmt skipulagslögum, sveitarstjórnarlögum og öðrum lögum, þ.e. þau eiga að ráða skipulagi, þau eiga að geta ráðið því hvaða vegir eru þar lagðir, hvaða mannvirki eru þar reist o.s.frv., þá er hann vissulega að efna til alveg gríðarlegrar óvissu og það er raunverulega kjarni málsins sem mér finnst að menn verði að taka afstöðu til og ég leyfi mér að taka dæmi.

Nýting auðlinda á hálendinu er alveg gríðarlega stórt mál sem varðar óumdeilanlega þjóðina alla og nær út fyrir öll sveitarmörk. Ef upp kemur stórt mál, nú skulum við gefa okkur það að hæstv. iðn- og viðskrh. sé að beita sér fyrir einhverju stóru máli sem varðar einmitt nýtingu vatns- eða jarðhitaréttinda eða námaréttinda á hálendinu sem er hins vegar svo stórt í sniðum að það kallar á t.d. byggingu á uppistöðulónum, það kallar á línulagnir, það kallar á vegalagnir, það kallar á mannvirkjagerð og það spannar svæði þar sem samkvæmt frv. hæstv. félmrh. er búið að færa sveitarfélagamörkin þannig að það eru kannski 12 eða 15 sveitarfélög sem koma að málinu. Hvernig stöndum við þá að stjórnsýslu? Er líklegt eða er ekki líklegt að upp kunni að koma mikill ágreiningur innbyrðis milli sveitarfélaga, andstæð sjónarmið í sveitarfélögum um hvað megi og hvað megi ekki, annaðhvort í nýtingu á réttindum eða þá kröfur um verndun á einhverjum náttúruperlum o.s.frv. ef sveitarstjórnarmenn trúa því virkilega að verið sé að færa þeim þessi völd og það er réttlætingin á frv. Hins vegar eru ákvæði þjóðlendufrv. um samræmda stjórnsýslu forsrn. í þessum málum. Er þá ekki hætt við því að við séum að efna til langdreginna deilna í hefðbundnum íslenskum stíl, landamæradeilna og landamerkjaþrætna sem verði eilíft úrskurðarefni dómstóla og komi raunverulega í veg fyrir skynsamlega niðurstöðu um heildarnýtingu út frá sjónarmiðum beggja, nýtingar og náttúruverndar? Ég fæ ekki betur séð en með þessu frv. sé fyrst og fremst verið að skapa óvissu og út frá því sjónarmiði séð sé þetta slys og það verði að koma í hlut Alþingis að forða þessu slysi.

Herra forseti. Hv. stjórnarliðar sumir hverjir, þeir sem hafa reynt að verja þetta mál, hafa fyrst og fremst gert það með því að tala í einum kór um að verið sé að sýna sveitarstjórnum landsins óvirðingu vegna þess að verið sé að vekja upp spurninguna um hvort þau ráði við stór mál eins og skipulagningu á meiri háttar mannvirkjum eða stjórnsýslu í tengslum við meiri háttar mannvirkjagerð eða nýtingu á hálendinu. Þetta er alrangt, málið snýst ekkert um það. Menn geta haft hvaða skoðun á því sem þeir vilja og auðvitað eru sveitarfélögin mjög misjafnlega stór og misjafnlega undir það búin að valda slíkum verkefnum. En málið bara snýst ekkert um það. Málið snýst um það hvort verið er að efna til meiri háttar deilna milli sveitarfélaga um það sem máli skiptir, hvernig ætlum við að nýta auðlindir hálendisins eða friða þær út frá heildarsjónarmiðum? Um það snýst málið og það er algerlega óþarfi og reyndar ekki sæmandi af sumum þingmönnum að gera öðrum það upp að þeir hafi eitthvert minna álit á sveitarstjórnarmönnum eða getu sveitarstjórna. Við höfum flest okkar starfað í sveitarstjórnum. Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að það er góður skóli og gagnlegur í pólitík og stjórnsýslu en málið snýst bara ekkert um það. Svona undanbrögð benda til þess að málstaðurinn sé frekar veikur vegna þess að það er ekkert innihald í þessu. Það er sérstaklega t.d. alveg út í hött að vera að bera hv. þm. Siv Friðleifsdóttur, sem hér hefur flutt gagnrýni á málflutning hæstv. ráðherra, það á brýn að hún láti fyrst og fremst stjórnast af einhverri forakt á sveitarstjórnum, manneskja sem hefur sjálf gegnt störfum í sveitarstjórn í sjö ár. Reyndar er ástæða til þess að spyrja hæstv. ráðherra líka að því er varðar afstöðu framsóknarþingmanna: Er það virkilega rétt að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sé sá eini sem hefur gert fyrirvara um afgreiðslu þessa máls í þingflokki Framsfl.? Vegna þess að eftir mínum heimildum eru þeir fleiri. Mér er t.d. sagt að hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson, hv. þm. Hjálmar Árnason og hv. þm. Gunnlaugur M. Sigmundsson séu meðal þeirra sem hafi gert fyrirvara um málflutninginn.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð að sinni. Til þess að forðast slysið teldi ég nú ráðlegast að þessu bráðabirgðaákvæði sem er þarna eins og hortittur eða smyglgóss í frv. hæstv. félmrh. verði bara fleygt og í staðinn við hins vegar sett bráðabirgðaákvæði sem samrýmist þeim grundvallarsjónarmiðum og grundvallarreglum sem koma fram í miklu vandaðra frv. um þjóðlendurnar þannig að það sé alveg skýrt að Alþingi sé ekki að efna til þess óvinafagnaðar að upp kunni að koma í kjölfarið deilur innbyrðis milli sveitarfélaga eða milli sveitarfélaga og ríkisvalds eða milli náttúruverndarsinna og framkvæmdarsinna þannig að niðurstaðan verði sú ein að það verði algert stjórnleysi og glundroði varðandi þessi mál.