Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 08. desember 1997, kl. 17:01:59 (1838)

1997-12-08 17:01:59# 122. lþ. 37.7 fundur 328. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (lífeyrisiðgjöld o.fl.) frv., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[17:01]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Það lýsir svolítið virðingu hæstv. fjmrh. gagnvart þessu máli að þegar verið er að ræða uppfyllingu á hans eigin samningi, þegar gagnrýni er borin fram á málflutning hans, þá sér hann ástæðu til að fara úr þingsal og frá umræðunni. Hann fylgist ekkert með henni og veit ekki einu sinni hvaða spurningar eða hvaða gagnrýnisatriði eru lögð hér fram af hálfu stjórnarandstæðinga. Þetta lýsir e.t.v. betur en margt annað hvaða virðingu hæstv. fjmrh. ber gagnvart skoðunum annarra.

Ég lýsti því yfir, og ætla ekki að fara að endurtaka ræðu mína þó fjmrh. hefði vafalítið gott af því, að hér væri um að ræða svik og rakti frv. hæstv. ráðherra frá því sl. vor þar sem hvergi er möguleiki á því að breyta skattalækkuninni eins og hann gaf í skyn, þ.e. að falla frá 1,9% og fara með það ofan í 1,5% vegna hugsanlegs samnings við sveitarfélögin. Það er engin staða til að túlka þennan kjarasamning og skattalækkunarferlið á þann hátt. Hér er augljóst mál, herra forseti, að ráðherra og ríkisstjórn, ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, er að byrja samningsferlið með því að uppfylla ekki grundvallaratriði samningsins.

Ég spurði hæstv. ráðherra m.a. hvort aðilum vinnumarkaðarins og þá sérstaklega verkalýðshreyfingunni væri kunnugt um þessi áform eða hugsanleg áform ríkisstjórnarinnar. Ég minnti einnig á í umræðunni að í efh.- og viðskn. væri stjórn og stjórnarandstaða að reyna að afgreiða í sátt og samlyndi með aðilum vinnumarkaðarins frv. um nýja lífeyrissjóðalöggjöf. Aðilar vinnumarkaðarins, sérstaklega verkalýðshreyfingin, hafði ekki þegar hún gekk frá málinu í vor neina ástæðu til að ætla að hún yrði svikin á þennan hátt vegna þess að enginn fyrirvari er í þessu máli og ef hæstv. ráðherra vill ná fram þessu 0,4% af hálfu sveitarfélaganna, þá sagði ég í umræðunni sem hann hlustaði ekki á að hann ætti að gera það árið eftir því að þar áttu skattarnir líka að lækka um eitt prósentustig en hann þarf og verður að standa við samninga. Það er ekki hægt annað jafnvel þó að löggjafarvaldið sé nú hjá meiri hluta ríkisstjórnarinnar, þá er ekki hægt að brjóta þessa kjarasamninga með því móti sem hér liggur fyrir. Mótmæli sveitarfélaganna lágu fyrir allan tímann.

Ég óska eftir að vita, herra forseti, hvort hæstv. fjmrh. ætlar að láta þetta ganga fram og leggja fram frv. um þetta efni að skattalækkunin verði einungis 1,5% um næstu áramót og hin spurningin hvort aðilar vinnumarkaðarins séu upplýstir um þessar hugrenningar hæstv. ríkisstjórnar.