Fyrirhuguð frestun skattalækkunar

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 13:48:13 (1876)

1997-12-09 13:48:13# 122. lþ. 38.88 fundur 121#B fyrirhuguð frestun skattalækkunar# (aths. um störf þingsins), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[13:48]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Það kom fram hjá hæstv. fjmrh. í gær að mál þetta hefði verið til athugunar hjá ríkisstjórninni og þá auðvitað hjá ríkisstjórninni allri og fer það ekkert á milli mála.

Vegna þess sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði hér áðan um að við vildum ganga gegn verkalýðshreyfingunni meðan hún væri með bundnar hendur, þá fer því auðvitað fjarri. Við áttum mjög góðan fund með forustu Alþýðusambandsins í dag, málefnalegan og einarðan fund. Ég tel að við höfum jafnframt, til að mynda þegar stórmál sem varða verkalýðshreyfinguna miklu eins og lífeyrissjóðsmálin hafa verið til umræðu, náð fram niðurstöðu sem hafi verið mjög ásættanleg fyrir verkalýðshreyfinguna. Óánægjan virðist meiri annars staðar en hjá henni varðandi þá niðurstöðu og kom reyndar fram, mér er óhætt að hafa það eftir í dag, á þessum fundi að verkalýðshreyfingin væri sérstaklega ánægð með það með hvaða hætti ríkisvaldið hefði gengið frá þeim málum og flaug það ekki að neinum að ríkisvaldið væri að notfæra sér það að samningar væru bundnir og beita verkalýðshreyfinguna einhverjum afarkostum í því þýðingarmikla máli.

Eins og ég hef áður sagt var þessi leið til athugunar vegna þeirrar sérstöku stöðu að peningar frá sveitarfélögunum hafa ekki skilað sér og það tekur lengri tíma að huga að því máli. Gert hefur verið samkomulag við sveitarfélögin og 6. liður samkomulagsins sem kynnt verður í dag gengur út á að aðilar eigi viðræður um þessi mál áfram. Því er ekki hafnað af sveitarfélögunum að eiga viðræður um aðkomu þeirra að þessari skattalækkunarleið áfram. Það hefur verið kynnt í dag og við horfum auðvitað á þá niðurstöðu líka varðandi framhald málsins. Við munum kynna þá niðurstöðu þegar líður á daginn.

Auðvitað munum við horfa til allra sjónarmiða við þá niðurstöðu.