Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 15:32:12 (1887)

1997-12-09 15:32:12# 122. lþ. 38.6 fundur 323. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998# (breyting ýmissa laga) frv., GE
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[15:32]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Í upphafi vil ég spyrja hvort ekki sé hægt að fá í salinn hv. formann þingflokks Sjálfstfl., hv. formann þingflokks Framsfl., hæstv. landbrh. og hæstv. félmrh. eða staðgengla þeirra ef þeir eru ekki viðlátnir af einhverjum ástæðum. Hvernig stendur það mál?

(Forseti (GÁS): Forseti verður því miður að upplýsa að það stendur ekki býsna vel því að formenn þingflokka stjórnarflokkanna eru báðir með fjarvistarleyfi og sinna skyldustörfum erlendis. Það sama gildir um hæstv. félmrh. og hæstv. landbrh. Á hinn bóginn telur forseti víst að einhver flokksbróðir þeirra tveggja síðarnefndu gegni fyrir þá og mun leitast eftir því að fá þann hinn sama til fundarins.)

Ég óska eftir að tíminn verði stöðvaður á meðan verið er að athuga það mál.

(Forseti (GÁS): Það verður að sjálfsögðu orðið við því.)

Herra forseti. Á meðan get ég kannski fengið upplýsingar um það hjá forseta, að ef ég ætla að leggja fram brtt. við þetta frv. sem er verið að ræða, frv. til laga um ráðstafnir í ríkisfjármálum, hvort það á við ef um sömu greinar er að ræða í fjárlagafrv., að leggja þurfi fram brtt. eða brottfallstillögu við bæði fjárlagafrv. og frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum?

(Forseti (GÁS): Forseti vill ógjarnan svara þessu að óathuguðu máli en mun koma boðum til hv. þm. þegar tækifæri gefst.)

Þetta er mjög nauðsynlegt, herra forseti, að fá upplýsingar um slík tæknileg atriði, hvernig þau eiga að gerast, vegna þess að hér er um að ræða frv. til laga, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, þar sem um er að ræða sömu greinar í 6. gr. fjárlagafrv. þannig að þetta þarf að liggja skýrt fyrir hvernig á að fara með því ég hyggst leggja fram brtt., í báðum tilvikum ef nauðsyn ber til, varðandi 2. gr. frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum.

Ég fagna því að sjá fyrsta varaforseta þingsins, hv. þm. Ragnar Arnalds, því ég hafði hugsað mér að óska eftir honum í salinn vegna þess máls sem ég ætla að ræða á eftir. Ég óska enn fremur eftir því, herra forseti, að þeir aðilar sem um er að ræða, og ég óskaði eftir að kæmu sem staðgenglar þeirra manna sem eru í svo miklum önnum erlendis, verði hér í salnum og hlýði á mál mitt vegna þess að þetta lýtur að samþykkt þingsins, sem gerð var fyrir þremur árum, til fimm ára og ég dreg í efa, herra forseti, að heimilt sé að vinna á þennan máta sem um er að ræða, og það á eftir að koma í ljós hvað þeir þingmenn sem stóðu að tillögunni sem varðar 2. gr., gera þegar borið verður upp hér að þessi grein verði felld út úr frv. til laga.

(Forseti (GÁS): Eins og forseti gat um áður hefur hann fullan skilning á þessum óskum hv. þm. Þegar eru uppi ráðstafanir um að kalla eftir staðgenglum nefndra hæstv. ráðherra og ég á von á þeim í hús fyrr en síðar. Forseti vill bjóða hv. þm. að gera hlé á ræðu sinni og fá sér sæti á meðan og við hinkrum bara sameiginlega. Forseti vill upplýsa að hæstv. iðn.- og viðskrh. er á leiðinni. Hefur hv. þm. nokkur tök á því að hefja mál sitt og ræða aðra málaflokka á meðan svo er eða vill hann bíða?)

Herra forseti. Ég skal verða við þeirri beiðni og byrja aðeins að ræða málið en síðan þarf hæstv. ráðherra að vera viðstaddur.

(Forseti (GÁS): Forseti hefur skilning á því.)

Herra forseti. Við erum að ræða frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Þetta eru sértækar ráðstafanir sem er árlegur viðburður. Það ber að fagna því að liðum hefur fækkað úr 63 í 16. Ég tel að það sé til bóta og vil láta það koma fram. En eins og þessi lagaheimild er notuð, ef menn ætla sér að nota hana, þá er að mínu viti gengið út yfir það sem telst eðlileg meðferð laga.

Ég vil gera að umræðuefni skerðingarákvæði 6. gr. sem getið er um í fjárlagafrv. og ber saman við frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Það er þá í fyrsta lagi skerðingarákvæði sem varðar Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga, að þær tekjur sem áttu að renna af eignarskatti til viðhalds og framkvæmda skuli renna í ríkissjóð, það er það fyrsta. Þar eru menn komnir að skerðingum sem ég dreg í efa að rétt sé að staðið.

Í öðru lagi er það sem ég mun gera helst að umræðuefni mínu. Það er 2. gr. frv. þar sem segir þrátt fyrir ákvæði 4. gr. laga nr. 27/1995, um framleiðslu og markaðssetningu vistvænna og lífrænna afurða, skuli framlag ríkissjóðs á árinu 1998 ekki nema hærri fjárhæð en 12,5 millj. kr. Ég tel, herra forseti, að þarna sé verið að fara gegn mjög eðlilegum vinnubrögðum þar sem þetta var samþykkt sem hluti af þjóðargjöf Íslendinga til þessarar atvinnugreinar. Ég mun koma að því á eftir hvernig það varð til með tilstuðlan hv. þm. sem þá voru þingflokksformenn, og eru sumir enn þingflokksformenn. Ég tel að verið sé að brjóta gegn þeim og þinginu nema menn hafi til þess ríkar ástæður, sem ekki hefur fengist ein einasta skýring á, að menn ætli að draga saman eða skerða um helming það framlag sem til þess var ætlað. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að menn gangi svo langt eins og þeir ætla sér.

Það er ástæða til að ræða um 3. gr., sem gerð er grein fyrir í fjárlagafrv., þar sem er verið að skerða ráðstöfun erfðafjárskatts og erfðafjár ríkissjóðs til vinnuheimila þannig að tekjur af erfðafjárskatti sem eru umfram 185 millj. eigi að renna í ríkissjóð. Ætli það væri nú ekki nær, hæstv. heilbrrh., að eitthvað af þessum fjármunum sem þarna eru til staðar rynni til þess fólks sem er á vernduðum vinnustöðum og vinnur á sultarlaunum, og ef það kemst að þeim tekjumörkum sem kallast skattleysismörk þá verða skerðingar á bótum þess. Ætli sé ekki ástæða til þess að taka á því máli. Ég skora á hæstv. heilbrrh., sem er eini ráðherrann sem er viðstaddur í salnum núna, að framfylgja því að breyta kjörum þess fólks sem vinnur á vernduðum vinnustöðum, fatlaðs fólks sem má ekki fara upp fyrir ákveðin tekjumörk því þá skerðast bætur þess. Og að það skuli þekkjast að fólk sé að vinna fyrir 180 kr. á tímann, skili jafnvel alveg ágætum afköstum og hafi síðan ekkert sumarfrí, engar tryggingar og ekki nokkurn skapaðan hlut eins og annað fólk á vinnumarkaðnum.

Ég ætla að fara, herra forseti, nokkrum orðum um þau atriði sem lúta að 2. gr. Og nú spyr ég hvort staðgengill hæstv. landbrh. sé kominn í salinn.

(Forseti (GÁS): Það er hæstv. viðsk.- og iðnrh.)

Nú fer tími minn að skerðast, hæstv. forseti, vegna þess að ég þarf einar 16--17 mínútur til að ræða við hæstv. landbrh.

(Forseti (GÁS): Forseti stendur við gefin fyrirheit og biður því hv. þm. að gera hlé á ræðu sinni.)

[15:45]

Herra forseti. Ég óska eftir því að staðgengill hæstv. landbrh. hlýði á mál mitt þannig að hann eigi þess kost að svara þeim spurningum sem ég þarf að bera fram. Og til að gera hæstv. ráðherra grein fyrir því hvað er verið að ræða, þá er verið að ræða 2. gr. um ráðstafanir í ríkisfjármálum og 2. mgr. skerðingarákvæðis 6. gr. í fjárlögum.

Það er fyrst til að taka, herra forseti, að til þessa verkefnis var stofnað á mjög sérstakan máta. Á árinu 1994, á hátíðarári íslenska lýðveldisins, voru hugmyndir þáverandi þingflokksformanna að gera sérstakt átak til að minnast þessara tímamóta og það varð að ráði að setja 50 millj. kr. á ári í fimm ár til þess að rannsaka lífríkið í sjónum og 50 millj. kr. á ári vegna íslenskrar tungu. Þar að auki varð að samkomulagi milli formanna þáverandi þingflokka á þingi að þingflokksformenn flyttu tillögu sem laut að sérstöku átaksverkefni vegna lífrænnar og vistvænnar framleiðslu og aukinna gæða og hreinlætis varðandi matvæli. Á þessum grunni voru síðan sett lög 1995 og um hefur verið að ræða verkefni sem ætlað var að fengju 50 millj. á ári. 25 millj. kr. áttu að koma af sérstöku framlagi frá ríkisstjórn og 25 millj kr. var reiknað með að kæmi úr Framleiðnisjóði landbúnaðarins. Um það er ekki að tala. Það hefur ekki verið þannig með þetta mál að fengist hafi framlag frá Framleiðnisjóði til þessara verkefna þó svo að Framleiðnisjóður hafi verið tilbúinn að láta fjármuni í alls konar ævintýraverkefni, m.a. í Litháen og til hrossabænda og til ýmissa aðila, hrossabænda þá sem eru búsettir á mölinni og hafa verið að setja upp einhvers konar búskap í sveitum og til þeirra hafa runnið tugir milljóna. Og það væri gaman að vita frá hæstv. staðgengli landbrh. hver árangurinn hafi verið af því verkefni.

Þetta verkefni fól í sér að lög voru sett og eins og kemur fram um þetta verkefni sem gengur undir nafninu Áform, þá ber því að sinna ýmsum öðrum málefnum en þeim sem tengjast beint landbúnaði. Verkefnið hefur m.a. stuðlað að því að kynna fyrir sveitarstjórnum mikilvægi þess að taka upp sjálfbæra byggðastefnu eins og liggur núna fyrir mál á þingi um. Það liggur fyrir mál á þingi um sjálfbæra byggðastefnu og nú á þessu ári hefur verið lögð sérstök áhersla á að sjávarútvegur taki upp umhverfisvottun sem byggir á lögum um stjórnun veiða. Það hefur m.a. verið kannað á meðal vottunaraðila í Evrópu og Ameríku hvort þeir séu reiðubúnir að viðurkenna okkar lög og reglugerðir og sjávarútveg og að votta í sínum heimalöndum á okkar forsendum. Hér er um mjög mikilvægt mál að ræða og sá sem hér stendur hefur flutt, með þingmönnum úr öllum flokkum, mál sem lýtur að því að tekin verði upp vottun allra framleiddra íslenskra matvæla. Þetta skiptir okkur miklu máli, ekki síst hvað varðar sjávarútveginn þar sem ekki er um að ræða auðlind sem hægt er að taka endalaust af, heldur verður að gera úr henni sem mest verðmæti. Þetta er lykilatriði í því sem ég er að ræða um m.a.

Það er rétt að vitna til ræðu hv. þm. Geirs H. Haardes sem ég hefði gjarnan viljað að staðgengill væri fyrir hér. En ég mun reyna að eiga orðastað við hv. þm. og þingflokksformann Sjálfstfl. Hann segir í flutningsræðu sinni fyrir málinu árið 1995, með leyfi forseta.

,,En tilefni málsins er hins vegar það að þetta var eitt af þeim verkefnum sem til greina kom þegar valin voru mál til að styrkja í tengslum við þjóðargjöfina 17. júní sl. Þá var að vísu ekki samkomulag um að hafa þetta mál, framleiðslu og markaðssetningu vistvænna og lífrænna afurða, inni í þeim pakka ef svo mætti segja en samkomulag um að taka það upp að nýju að hausti. Niðurstaðan í því er þetta frv. sem nú liggur fyrir. En til samræmis við það sem ákveðið var um Lýðveldissjóð og þau verkefni sem hann fæst við var ákveðið að festa þarna ákveðna tölu sem færi til verkefna er tengdust fyrst og fremst landbúnaði og má segja að það sé til samræmis við þau framlög sem ákveðin voru í Lýðveldissjóð til verkefna tengdum sjávarútvegi og hafrannsóknum.``

Þarna er um að ræða sérstaka þjóðargjöf sem hæstv. ríkisstjórn Íslands ætlar nú að taka af þjóðinni til baka, skerða um helming fyrir utan það að ekki hefur fengist frá þessum dálætissjóði ríkisstjórnarinnar, Framleiðnisjóði, framlag á móti í þeim verkefnum sem um hefur verið að ræða og hefur verið unnið við.

Það má til með að upplýsa hæstv. staðgengil landbrh. --- Gott er að sjá hæstv. forsrh. og ég tala nú ekki um hæstv. samgrh. sem var á þeim tíma landbrh. og mælti fyrir því máli sem hér er um að ræða. (Fjmrh.: Vel og skörulega.) Til þessa verkefnis var stofnað af formönnum allra þingflokka. Það var lagt fram á 118. löggjafarþingi og þeir sem lögðu frumvarpið fram voru hv. þm. Geir Haarde, hv. þm. Finnur Ingólfsson og þáverandi formaður þingflokks Framsfl., hv. þáverandi þm. Sigbjörn Gunnarsson og hv. þm. Ragnar Arnalds, virðulegur varaforseti, og hv. þáverandi þm. Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.

Markmið þessa verkefnis var að kanna hvort unnt væri að markaðssetja íslenskar afurðir erlendis á forsendum hollustu, hreinleika og gæða. Þetta hefur verið gert. Á þeim tæpum þremur árum sem þetta verkefni hefur verið í gangi hefur verið lögð mikil áhersla á að kanna markaðsmöguleika vottaðra afurða á erlendum mörkuðum. Þar liggja okkar tækifæri. Og hvað hefur svo gerst? Á sínum tíma var 2.500 tonna kjötfjall í landinu sem ekki var hægt að koma ofan í Íslendinga. Ríkisstjórn og hæstv. þáv. landbrh., sem nú er hæstv. samgrh., tók á þeim tíma þá ákvörðun að þetta kjöt skyldi flutt á Ameríkumarkað. Þegar síðan var skipuð stjórn yfir þessu verkefni var búið að taka ákvörðun um ráðstöfun 19 millj. af framlagi þess árs, 1996, til þessa verkefnis. Hver varð útkoman? Léleg, segja margir og margir segja: ,,Þetta verkefni á ekki rétt á sér vegna þessa.`` En hvað kom í ljós, hæstv. landbrh.? Það kom í ljós að Íslendingar kunnu ekki að slátra og pakka kjöti á erlendan markað samkvæmt óskum neytenda. Íslendingar kunnu ekki að koma þessu frá sér á þann hátt sem til þurfti. Það var flutt í allt of stórum kössum, í allt of stórum gámum og í röngum umbúðum. Það er ótrúlegt að þurfa að segja frá þessu.

[16:00]

En hver er svo árangurinn af þessum hrakföllum? Árangurinn er sá að nú eru flutt á Bandaríkjamarkað 5 tonn af kjöti í hverri einustu viku fyrir skilaverð upp á 240 kr. kg. Það getur vel verið að þetta finnist mörgum lakur árangur. En þetta er einhver besti árangur sem átt hefur sér stað með íslenskar landbúnaðarafurðir á erlendum markaði frá upphafi.

Hvað er verið að gera til viðbótar? Menn lærðu á þessu. Nú er lambakjöt flutt út til Danmerkur á 1.200 kr. kg, þ.e. 1.200 kr. er meðalverðið á kg út úr búð. Ég veit ekki nákvæmlega skilaverðið. Ef hæstv. landbrh. tekur sér það fyrir hendur að lesa þrjú síðustu bændablöð, þá er þar hver umsögnin á fætur annarri frá hagsmunaaðilum t.d. Kjötumboðsins. Þeir lýsa því að hefði ekki verið fyrir tilverknað þessa átaksverkefnis, þá hefði aldrei náðst markaðsstaða, hvorki í Bandaríkjunum né í Danmörku og ég nefni aðeins að litlu leyti það sem er verið að gera hjá KASK á Hornafirði. Á þeirra vegum eru nú fluttir út 12 þúsund skrokkar, á þriðja ári starfseminnar eftir að hafa byrjað með 2 þúsund skrokka, 12 þúsund skrokka, úrbeinaðir og fullunnin matvara með skilaverð upp á 233 kr. hvert kg. Það er ekki verið að flytja út bein heldur hreint kjöt og það er meira heldur en gert hefur verið hér frá upphafi. Þarna á átaksverkefnið aðild.

Markaðir hafa verið að stækka. Neytendur eru í auknum mæli að leita eftir vottuðum afurðum. Á hvaða forsendum? Forsendum sjálfbærrar þróunar. En á meðan það er vakning meðal Íslendinga og erlendra þjóða og eftirspurn eftir lífrænt ræktuðum afurðum, hvað gerir þá hæstv. ríkisstjórn Íslands undir forustu hæstv. forsrh., með tilstuðlan hæstv. landbrh. og auðvitað fyrir atbeina einhverra aðila sem starfa hjá landbrn.? Þeir leggja til að verkefnið, liðlega hálfnað, verði skorið niður um helming, um 12,5 millj. Það þýðir að þau verkefni, hæstv. landbrh., sem eru í gangi stoppa. Það er kannski rétt að rifja upp nokkuð af þeim verkefnum sem unnið hefur verið við. Það eru m.a. íslenskar lækningajurtir þar sem hefur náðst verulegur árangur og nú eru fluttar út íslenskar lækningajurtir. Unnið hefur verið við Alaskalúpínu, rannsóknir á vegum háskólans, háskólinn styrktur og Rannsóknastofnun landbúnaðarins hefur verið styrkt í þessum verkefnum sem hafa skilað árangri. Lífræn ræktun í gróðurhúsum hefur verið stunduð í miklum mæli og sú tilraun sem kostar um það bil 3 millj. á ári og er framkvæmd af garðyrkjubændum í Laugarási fellur um sjálfa sig í miðjum klíðum með fjóra sérfræðinga sem hafa verið að fylgjast með þessum möguleikum. Það er verið að klippa á þetta verkefni, hæstv. landbrh.

Lögð hefur verið stund á lífræna ræktun í Mýrdal. Hvað er verið að gera þar? Framleidd er lífrænt ræktuð mjólk og úr þeim afurðum er unnin jógúrt sem er seld --- á hvaða verði? 33% hærra verði en almennt er selt í landinu og það er mikil eftirspurn. Þetta selst allt saman upp. Af hverju? Af því að þetta er vottuð lífræn vara sem um er að ræða og Íslendingar eru orðnir meðvitaðir um að þeir vilja hollustufæði.

Búið er að leggja fjármuni til að kanna möguleika lífrænnar ræktunar sauðfjár á Vestfjörðum. Lagðir hafa verið fjármunir í framleiðslu lífræns ræktaðs barnamats. Allt þetta ásamt 40 verkefnum í viðbót sem eru meira og minna í gangi er hæstv. ríkisstjórn að kippa niður og fella út og ég skora á hæstv. forsrh. að grípa nú inn í, taka 2. gr. þessa frv. og fella hana niður. Þá er málið laust.

Hvað hefur verið gert fleira? Bændaskólanum á Hvanneyri hefur verið hjálpað til þess að koma sér upp námsefni vegna lífrænnar og vistrænnar framleiðslu. Bændaskólinn á Hvanneyri endurvinnur lífrænan úrgang og öll byggðin þar í kring skilar sínum úrgangi í Bændaskólann á Hvanneyri og þar er gerður úr honum jarðvegur. Hvað þýðir þetta? Þar er umhverfisvænt samfélag á ferðinni. Búið er að leggja verulegt fjármagn í að kanna möguleika á lífrænni mjólkurframleiðslu annars staðar. Það hefur verið tekið þátt í sýningum í Þýskalandi og Danmörku. Fjármunir hafa verið lagðir í rannsóknir á fitusýrum og kjöti og þannig má lengi telja. Verið er að skoða möguleika á styðja bóndann á Neðra-Hálsi í Kjós vegna lífrænnar mjólkurframleiðslu. Þessi verkefni eru í þeirri stöðu núna að ef þetta fjármagn verður klippt af, þá er rúmlega helmingur verkefnisins farinn fyrir stapa. Ég spyr hæstv. iðnrh., staðgengil landbrh.: Hver eru þau verkefni sem átaksverkefninu er gert að sinna ef af ákvörðun ríkisstjórnarinnar verður? Herra forseti. Ég óska eindregið eftir að fá svör við þeim spurningum. Hver eru þau verkefni, af þeim 40--50 verkefnum sem fyrir liggja, sem áform eru um að halda áfram með?

Herra forseti. Ég má til með að fara aðeins betur yfir málið um sölu á afurðum til Ameríku. Seld voru 160 tonn af kjöti í neytendapakkningum. Gerð var öflug kynning í 70--80 verslunum og þessi afurð var auglýst í blöðum í New York, m.a. í New York Times. Gefnir voru út uppskriftabæklingar og það kemur í ljós að Ameríkumarkaðurinn er afar flókinn og erfiður en staðreyndin er þessi: Á viku eru flutt út 5 tonn á mjög viðunandi verði og þetta er ein af örfáum ljósglætum í sauðfjárrækt á Íslandi sem hefur orðið fyrir 40% tekjuskerðingu á undanförnum árum. Það er ástæða til þess að fá svör um hvernig menn ætla sér að afgreiða þau mál sem ég spyr hér um.

Tilraunamarkaðssendingin leiddi til þess að kjötumboðið sem ég nefndi áðan hefur fundið aðila sem hafa reynst vel og það er ástæðan fyrir því að nú eru flutt þangað 5 tonn á viku og lítur út fyrir að verða vaxandi. Ameríkuverkefnið kenndi mönnum hvernig ætti að slátra, hvernig ætti að vinna kjötið, hvernig ætti að pakka því, í hvaða umbúðir og hvernig ætti að flytja það. Árangurinn af Ameríkuverkefninu sem hæstv. ríkisstjórn er að leggja til grundvallar fyrir því að skera þetta niður, er að skila sér í verulegri markaðsaukningu í Danmörku, Belgíu og á mun fleiri stöðum sem horfir vel fyrir. Þetta er það eina sem er lífvænlegt í sauðfjárræktinni og ég skora á hæstv. staðgengil landbrh. að svara hverjar hugmyndirnar séu. Á að halda við þann niðurskurð sem hér er boðaður eða ætla menn að fella hann út? Ég mun gera tillögu um það og væntanlega styðja þá allir þeir sem studdu þetta verkefni í upphafi, allir hv. þingmenn, að þetta verði fellt út. Um er að ræða 48 nafngreinda þingmenn sem sitja á þingi.