Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 17:35:25 (1904)

1997-12-09 17:35:25# 122. lþ. 38.6 fundur 323. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1998# (breyting ýmissa laga) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[17:35]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er að sönnu rétt sem hæstv. forsrh. segir um vegamálin að við munum fá vegáætlun til skoðunar, vonandi einhvern tímann. Að vísu hefur dregist úr hömlu að loforð hæstv. samgrh. um að hún kæmi fram næði fram að ganga. Hitt er ljóst að að því leyti erum við að ræða vegáætlun að skerðing á hinum mörkuðu vegatekjum setur grunninn fyrir fjárveitingu til vegamála á næsta ári. Fjárlögin núna og skerðingarákvæðið í þessari grein búa til rammann. Það sem Alþingi fær til að fjalla um þegar eða ef einhver ræfill af vegáætlun kemur loksins frá hæstv. samgrh. verður árið 1998 þegar frágengið hvað framkvæmdafé snertir. Það er ljóst. Þess vegna er eðlilegt að þetta sé rætt hér. Það er dálítið merkilegt að hvorki hæstv. samgrh. né neinn einasti þingmaður stjórnarliðsins virðist hafa þann áhuga á málinu að hann blandi sér í umræður um það. Og þó er verið að ræða um frágang fjárveitinga til vegamála á næsta ári.

Varðandi almannatryggingarnar, þá er það alveg merkilegt að hæstv. forsrh. skuli gefa þeim frágangi það orðalag að þarna sé á ferðinni tvöfaldur lás. Ég myndi ekki vilja læsa hjólinu mínu með slíkum lás sem er svona galopinn. Það er að vísu rétt að þetta ákvæði sem tryggir tengingu lífeyrisins við verðlag er efnislegt, og við treystum því að það haldi. En hitt er galopið. Eða hvað þýðir að ,,taka mið af launaþróun?`` Er hæstv. forsrh. tilbúinn að koma hér og segja að það þýði í skilningi hæstv. ráðherra að bæturnar skuli hækka alltaf eins og laun? Ef það þýðir eitthvað annað, þá er þetta opið. Síðan fullyrði ég að tengingin við skerðingarnar á 17. og 59. gr., þótt það sé lesið saman við 18. gr. og 65. gr., þýðir að opnun er í málinu þeim megin hvað varðar frítekjumarkið. (Forseti hringir.) Og þá spyr maður sig, ef ákvörðun er tekin um annars vegar að hækka bæturnar um eitthvað tiltekið en halda frítekjumarkinu eftir, það er líka opið. Orðalagið er þannig. Þetta þarf að sjálfsögðu að skoða betur í þingnefnd en svona virðist þetta vera samkvæmt orðanna hljóðan í frv.