Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 20:31:44 (1921)

1997-12-09 20:31:44# 122. lþ. 38.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., StB
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[20:31]

Sturla Böðvarsson:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til fjáraukalaga vegna fjárlaga þessa árs og vil ég leyfa mér að fara nokkrum orðum um frv. og þær brtt. sem fluttar eru við frv.

Í fréttum Ríkisútvarpsins í kvöld var sagt frá því að lokahrina þingstarfa væri hafin og vakti fréttamaðurinn athygli á því að um mjög friðsælt þing væri að ræða og er vissulega ástæða til að taka undir það hér í kvöld að svo er. Það er ástæða til að þakka hv. þm. fyrir gott samstarf við það vandasama verk sem er að koma saman breytingartillögum við fjárlög, ég tala nú ekki um fjáraukalög.

En umræðan í dag og í kvöld lýsir ef til vill vel þeim mikla vanda sem við stöndum frammi fyrir í ríkisfjármálunum. Í viðræðum hefur komið fram hjá hv. þm. stjórnarandstöðunnar að þeir hafa í umræðum um ráðstafanir í ríkisfjármálum krafist þess að skattalækkunaráform stjórnarflokkanna næðu fram að ganga, það ætti að standa við þau áform. Það er ánægjulegt að okkur stjórnarliðinu berist liðsinni frá stjórnarandstöðunni við að ná fram stefnumálum ríkisstjórnarinnar. En hvað þýðir þetta? Það þýðir auðvitað að ríkissjóður verður af tekjum, tekjur skerðast. Á sama hátt mótmælti stjórnarandstaðan áformum okkar um að lækka tiltekin framlög á grundvelli 6. gr. fjárlagafrv. og þess frv. sem hér liggur fyrir, um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Um er að ræða svokölluð heimildarákvæði. Þetta þýddi, ef við yrðum við óskum og kröfum stjórnarandstöðunnar, aukin útgjöld hjá ríkissjóði. Síðast en ekki síst leggur stjórnarandstaðan fram brtt. við frv. til fjáraukalaga sem mundi leiða til útgjalda upp á 790 millj. kr. En á sama tíma er rætt um að ekki megi verða halli á ríkissjóði sem vissulega er ástæða til að taka undir og það hefur verið og er markmið okkar stjórnarliðsins.

Almenningur í landinu undrast þennan málflutning. Það er ástæða til að vekja athygli á honum við þessa umræðu. Eins og ég sagði áður, herra forseti, gengur þetta ekki saman og umræðurnar valda vandræðum margra við að skilja í hvaða átt er togað.

Það frv. og þær brtt. sem eru til umræðu fela í sér aukin útgjöld. Fjárlög fyrir yfirstandandi ár gerðu ráð fyrir tekjuafgangi á greiðslugrunni upp á 124 millj. kr. Samkvæmt frv. til fjáraukalaga er gert ráð fyrir auknum tekjum upp á 4,7 milljarða kr. sem bæta stöðuna að sjálfsögðu og er afrakstur þess efnahagsbata sem vissulega hefur orðið í þjóðfélaginu. Hins vegar er um að ræða aukin rekstrarútgjöld upp á 2,9 milljarða til viðbótar þeim 4 milljörðum sem eru í auknum vaxtagjöldum vegna innköllunar á spariskírteinum ríkisins sem var nauðsynleg ráðstöfun til að endurskipuleggja lánsfjáröflun ríkisins og lækka vexti ríkissjóðs. Áætlaðar yfirfærslur sem verða heimilaðar til næsta árs eru 1,1 milljarður. Síðan eru brtt. meiri hluta fjárln., sem ég vil gera nokkuð að umtalsefni, upp á 949 millj. kr. Það verður því nokkur tekjuafgangur sem betur fer þegar litið er til þess hvað greitt er í vöxtum umfram það sem við höfðum áætlað og ég gat um áður.

Þau atriði sem ég vildi gera að umtalsefni eru að við gerum brtt. sem felur í sér 84 millj. kr. aukin framlög til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Þarna er um að ræða uppgjör og ekki í raun sérstaka eða sjálfstæða ákvörðun um aukin framlög til jöfnunarsjóðsins heldur er um að ræða venjubundið uppgjörsmál. Í sambandi við þá brtt. vil ég gera að umtalsefni stöðu sveitarfélaganna. Staða sveitarfélaganna í landinu er vissulega mjög mismunandi. Ég vona að þessi viðbót í jöfnunarsjóðinn geti orðið til þess að þeim, sem fara með málefni sjóðsins, gefist færi á að taka á gagnvart þeim sveitarfélögum sem þurfa sérstaklega á því að halda. Nú er mér ekki ljóst hvernig stjórnendur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga hafa hugsað sér að ráðstafa þessum fjármunum en eins og við þekkjum er um að ræða mismunandi framlög, tekjujöfnunarframlög og annað. Samkvæmt upplýsingum sem ég hef undir höndum hefur þróun í tekjum sveitarfélaganna orðið mjög mismunandi milli áranna 1996 og 1997. Áætlaður staðgreiðslustofn ársins 1997 er talinn hækka að meðaltali um 8,7% fyrir öll sveitarfélögin í landinu. Hækkunin hjá Reykjavíkurborg er 9,1% og væri ástæða til þess að hv. 12. þm. Reykv., sem hér er, eins og fyrri daginn og tekur þátt í umræðum, heyri þessa tölu vegna þess að tölurnar gefa vísbendingu um auknar tekjur milli ára. Hins vegar er þetta er mjög mismunandi milli sveitarfélaga. Í sveitarfélögunum á Reykjanesi t.d. hækkar þessi áætlaði staðgreiðslustofn, sem gefur vísbendingu um tekjur sveitarfélaganna, um 10,4% milli áranna 1996--1997. Í öðrum landshlutum, landsbyggðarkjördæmunum, er um mun minni hækkun að ræða. Það gefur augljósa vísbendingu um hversu mismunandi sveitarfélögin eru sett og ég vil vekja sérstaka athygli á því þegar ég ræði þessa brtt. sem varðar Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.

Það mál sem hefur verið mest til umræðu í dag eins og fyrri daginn er málefni heilbrigðisstofnana. Í frv. til fjáraukalaga eru gerðar sérstakar ráðstafanir til að bæta úr þeirri erfiðu stöðu sem sjúkrastofnanir hafa verið í. Gerðar eru tillögur um að Ríkisspítalarnir fái 154 millj. og Sjúkrahús Reykjavíkur 166 millj. kr. Það eru tillögur sem eru byggðar á samkomulagi sem var gert á milli ráðherra og borgarstjórans í Reykjavík, sem var afar mikilvægur samningur að mínu viti og mikilvæg tilraun til að ná tökum á því vandasama viðfangsefni sem rekstur spítalanna er.

Ég hlýt að vekja athygli á því að við höfum verið að auka fjármuni til heilbrigðiskerfisins, m.a. í því fjárlagafrv. sem verður innan skamms til umfjöllunar. En samkvæmt þeim brtt. sem meiri hluti fjárln. gerir til viðbótar því sem er í fjáraukalagafrv. er gert ráð fyrir, eins og hér hefur komið fram áður, að leggja tæplega 80 millj. í rekstur nokkurra hjúkrunarheimila og heilsugæslustöðva vítt og breitt um landið auk þess sem tillaga er um að leggja 200 millj. kr. til að koma til móts við uppsafnaðan vanda sjúkrastofnana utan höfuðborgarsvæðisins. Gert er ráð fyrir að sérstök stýrinefnd fái það erfiða viðfangsefni að ganga til samninga við þessar sjúkrastofnanir og ná samkomulagi um rekstrarumsvif og úrbætur í rekstri þannig að þeir fjármunir sem þarna er um að ræða nýtist sem best.

Í umræðum í þjóðfélaginu og ekki síst á hinum pólitíska vettvangi er stöðugt og oftast talað um niðurskurð. Það er talað um niðurskurð á sjúkrastofnunum. Vissulega er vandinn við rekstur sjúkrastofnana ærinn, ég dreg ekki úr því. Við eigum við það að stríða að safnast hafa upp biðlistar vegna aðgerða sem erfitt er við að una. Engu að síður hefur verið gerð atlaga að því að draga úr þeim biðlistum með því að auka framlög til sjúkrastofnana en engu að síður verður að gera betur. Það er tilgangurinn með því ná öflugri tökum á rekstri sjúkrastofnana, að reyna að nýta fjármunina betur svo að meira verði úr og reyna að forgangsraða þannig að mikilvægustu verkefnunum megi sinna. Því nefni ég þetta að við í hv. fjárln. höfum upplýsingar undir höndum sem segja aðra sögu en þá að við höfum stöðugt verið að skera niður.

[20:45]

Samkvæmt upplýsingum um rekstur og þróun útgjalda spítalanna í Reykjavík þá hafa launaútgjöld hækkað á föstu verðlagi um 10,9% á árabilinu 1990--1996 og síðan hækkað frá þeim tíma. Lyfjakostnaður hefur lækkað um 8,8% sem er mjög mikilvægur árangur út af fyrir sig ef í því felst að lyf hafi lækkað en önnur rekstrarútgjöld hafa hækkað um tæp 4%. Samtals er þetta vegið meðaltal upp á 7,8% raunhækkun á þessu tímabili. Ég vil vekja sérstaka athygli á þessu vegna þess að stöðugt er talað um að við séum að skera niður. Menn gera ekki alltaf greinarmun á því að meiri fjármuni þurfi inn í kerfið og því að við séum að draga saman seglin.

Varðandi Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri er svipaða sögu að segja. Að vísu er heldur minni raunhækkun á þessu tímabili, 6%, en hins vegar hefur niðurskurðurinn orðið á sjúkrastofnunum úti á landi. Þar er það þannig. Þetta vil ég draga fram því við liggjum oft undir ásökunum og átölum út af því að ekki sé nóg að gert á stóru sjúkrahúsunum, sem auðvitað sinna mikilvægum verkefnum og ég undirstrika það. Staðreyndin er hins vegar sú að langflestar sjúkrastofnanir fyrir utan höfuðborgarsvæðið hafa fengið lægri framlög, svo verulega háum fjárhæðum nemur á þessu tímabili, nema einungis þær sjúkrastofnanir sem hafa verið að opna nýjar deildir eða auka sérstaklega starfsemi á grundvelli ákvarðana sem hafa verið teknar á Alþingi með byggingu þeirra stofnana.

Herra forseti. Þetta vildi ég draga sérstaklega fram. Það er nauðsynlegt að við gerum okkur glögga grein fyrir þessu viðfangsefni. Mat mitt er það að þær tillögur sem meiri hluti fjárln. leggur fram og fela í sér hækkun á framlögum til heilbrigðismála til viðbótar því sem kemur fram í fjáraukalagfrv. fyrir árið 1997, stuðli að verulegum umbótum og það sem er mikilvægast er að gert er ráð fyrir því að ná öflugri tökum á viðfangsefninu. Það er að sjálfsögðu af hinu góða og hljóta allir að fagna því.

Annað sem ég vildi nefna og gera að umtalsefni, herra forseti, er að meiri hluti fjárln. gerir tillögu um að hækka framlög til niðurgreiðslu á raforku til húshitunar. Þar er um að ræða 50 millj. kr. hækkun og það er til þess að vega upp þá fyrirsjáanlegu hækkun sem verður vegna ákvörðunar um gjaldskrárhækkun Landsvirkjunar. Við eigum við að etja verulega mikinn vanda vegna byggðaþróunar í landinu. Margt kemur þar til og er ekki hægt að finna eina ástæðu fyrir því en það fer ekkert á milli mála að meðal þess sem veldur tilflutningi fólks er að það leitast við að sækja þangað sem ódýrast er að lifa og þar vegur orkukostnaður heimilanna mjög þungt. Þess vegna hafa stjórnarflokkarnir lagt ríka áherslu á að reyna að draga úr orkukostnaði heimilanna og á undanförnum árum hafa verið settir töluverðir fjármunir í að lækka orkuverðið og það er gert með þessari tillögu.

Til að gefa hv. þm. aðeins hugmynd um hvað hér er um að ræða þá er það þannig að með Hitaveitu Reykjavíkur, sem er ein allra hagkvæmasta hitaveitan og feiknargott fyrirtæki sem sparar þjóðinni náttúrlega mikla fjármuni, mundi kostnaður við að hita upp 400 m3 hús í Reykjavík vera rúmar 52 þús. kr. á ári en mundi kosta 116 þús. kr. að kynda sama hús með olíu, og kostar á taxta Rariks, þeim niðurgreidda taxta, 86.700 kr. núna áður en nokkur hækkun hefði orðið. Þarna er um verulega mikinn mun að ræða og munar svo sannarlega um minna. Þess vegna hefur mjög víða verið reynt að ná í ódýrari orkugjafa og víða hefur það tekist úti um land og góðar og ódýrar hitaveitur eru reknar vítt og breitt um landið en vandi okkar hefur verið sá að raforkuverðið hefur ekki verið samkeppnishæft. Þess vegna er nauðsynlegt að grípa til þessara aðgerða og því gerir meiri hluti fjárln. þessa tillögu.