Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 09. desember 1997, kl. 20:57:29 (1925)

1997-12-09 20:57:29# 122. lþ. 38.7 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[20:57]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki tekið undir það með hv. 12. þm. Reykv. að ekki hafi orðið neinn árangur. Ég lít svo á að heljarmikill árangur hafi orðið í hagræðingu en hins vegar er alltaf spurning um hvernig til tekst þegar verið er að endurskipuleggja. En svo ég endurtaki aftur að inntakið í ræðu minni var að vekja athygli á því að við höfum verið að auka fjármuni til heilbrigðiskerfisins, við höfum ekki verið að skera niður. Vandi okkar liggur í því að við höfum ekki haft nægilega mikla fjármuni til þess að gera e.t.v. allt sem við hefðum þurft og viljað gera. Það er hið erfiða viðfangsefni. Einnig er það athyglisvert þegar kemur að þeirri umræðu í þinginu að leggja til stóraukin framlög í heilbrigðiskerfið, eins og við erum að fjalla um í dag bæði í brtt. hv. fjárln., þ.e. meiri hlutans, og einnig í frv. til fjáraukalaga eins og það liggur fyrir, þá fipast hv. stjórnarandstöðuþingmaður og fer að ræða um allt aðra hluti sem eru útgjöld almennt til tryggingakerfisins. Út af fyrir sig er það skiljanlegt en að öðru leyti get ég tekið undir með hv. þm. að hér er um mjög erfitt og vandmeðfarið viðfangsefni að ræða og ég held að við skiljum það öll mætavel.