Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 12:35:41 (2003)

1997-12-12 12:35:41# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., Frsm. minni hluta KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[12:35]

Frsm. minni hluta fjárln. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst andsvarið vera heldur snemma á ferðinni því að ég gat um það að við flyttum brtt. við fjárlagafrv. bæði gjaldamegin og útgjaldamegin og að við legðum til að afla tekna fyrir þeim tillögum okkar sem auka útgjöld. Hins vegar eru ekki allar tillögur komnar fram eins og gengur í fjárlagavinnu sem er unnin í mikilli tímaþröng, auk þess sem tekjuhlið fjárlaganna er rædd við 3. umr. og við boðum brtt. okkar tekjumegin þar. Ég vísa því alveg á bug að einhver tvískinnungur sé í málflutningi okkar að þessu leyti.

Ég vil hins vegar upplýsa hv. þm. um að það er góðæri á Íslandi að sögn ríkisstjórnarinnar. Það góðæri kemur auðvitað fram m.a. í afkomutölum atvinnulífsins. Hví skyldu menn ekki mega hugleiða það og leggja til að atvinnulífið legði fram einhverja fjármuni til sameiginlegra þarfa þjóðarinnar við þær aðstæður þegar góðæri ríkir að þessu leytinu til? Gleymum því ekki að fyrir nokkrum árum þegar talið var að efnahagslægð væri í atvinnulífinu og mikið atvinnuleysi braust fram, var talið nauðsynlegt að létta sköttum af atvinnulífinu fyrir fjárhæð sem nemur um 4 milljörðum kr. og þeir voru færðir yfir á almenning. Nú er sú kreppa búin og komið góðæri og er þá ekki, herra forseti, rétt að einhver hluti af þessum 4 milljörðum fari til baka frá almenningi yfir til fyrirtækjanna?