Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 15:17:25 (2022)

1997-12-12 15:17:25# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[15:17]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Það voru tvö atriði í ræðu hv. þm. sem ég vildi gera að umfjöllunarefni í andsvari. Hún ræddi um skattsvik og nauðsyn á að berjast gegn þeim. Ég tek undir að það er mikil nauðsyn en ég vil benda á og halda því til haga að í tillögum meiri hluta fjárln. er lagt til að 20 millj. í viðbót verði lagt til ríkislögreglustjóra vegna efnahagsbrota og til að koma upp sérhæfðri deild við embættið í því efni, m.a. vegna þess að kærum frá ríkisskattstjóra hefur fjölgað og það er í kjölfar þess að tekið hefur verið verulega á í þessu efni. Ég er ekki með þessu að draga úr því að gera þurfi enn meira og mjög áríðandi að það sé gert en eigi að síður vildi ég halda því til haga að við erum að mæta þarna þörf í því efni.

Varðandi niðurskurðinn þá dró hv. þm. í efa að fullyrðingar okkar um aukin framlög til velferðarmála eigi við rök að styðjast en það er nú svo að framlög til tryggingakerfisins hafa hækkað um 4 milljarða frá árinu 1990 á verðlagi ársins 1997. Vissulega er það rétt að þjóðartekjurnar hafa aukist síðari árin, sem betur fer, því annars hefði stefnt í óefni. Ég vildi halda þessu til haga í andsvari ásamt því að vissulega koma umhverfismál mjög sterkt inn í umræðuna á næstu árum og er þörf á að mæta því.