Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 16:50:56 (2045)

1997-12-12 16:50:56# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[16:50]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Ég talaði reyndar um pottagerð en ekki pottagaldur en hv. þm., síðasti ræðumaður greip orðið þannig. Ég vek athygli hv. þm. á því að stefnubreyting hefur orðið gagnvart sjúkrahúsunum og vek alveg sérstaka athygli á því að nú er ekki talað niðurskurð heldur um að bætt verði við tölurnar frá fjárlagafrv. Það er ekki niðurskurður heldur verður verulega bætt við eins og oft hefur komið fram í þessari umræðu.

Það er rétt hjá honum niðurskurðaráformin í fyrra voru afar óheppileg. Þau komu reyndar ekki til framkvæmda nema að verulega litlu leyti. En sjálf umræðan var slæm og hafði skaðvænleg áhrif í byggðum landsins. Hún var ómakleg í garð margra góðra stjórnenda sem höfðu rekið fyrirtæki sín og stofnanir allvel. En það hlýtur að geta tekist sátt um að landsbyggðarsjúkrahúsin sinni þeirri þjónustu sem þau geta með góðu móti annast en hátæknihúsin hér og á Akureyri sinni hinum flóknari og vandasamari verkum en séu ekki að taka þjónustuna af sjúkrahúsum í smærri byggðum.