Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 18:06:47 (2058)

1997-12-12 18:06:47# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[18:06]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Sá málflutningur sem hér er viðhafður af einum hv. þm. sem tilheyrir stjórnarliðinu hlýtur að vekja athygli. Ég tel að úr þessum ræðustóli hafi oft og tíðum fallið harðir dómar í garð hæstv. heilbrrh. eða þess stefnuleysis sem ríkir hjá hæstv. ríkisstjórn í heilbrigðismálum en hér hefur þó fallið einhver sá harðasti dómur sem um getur í þessari umræðu um stefnuna í heilbrigðismálum, dómur um getuleysi, um stefnuleysi stjórnvalda sem horfast ekki í augu við raunverulega stöðu heilbrigðiskerfisins, of mikið vald framkvæmdarvaldsins, of mikið vald embættismanna og að enginn viti hvert stefnir og að svör fáist ekki. Svör fáist ekki frá framkvæmdarvaldinu, svör fáist ekki frá hæstv. heilbrrh., framtíðarsýn í heilbrigðisþjónustu er ekki til, segir hv. þm. Það eru mjög alvarlegar ásakanir, fullyrðingar þess efnis að við á hv. Alþingi fáum ekki hlutlausar upplýsingar um stöðu einstakra heilbrigðisstofnana. Það er mjög alvarlegur dómur. Alþingi á kröfu á því að við fáum hlutlausar upplýsingar en hér hefur m.a. verið getum að því leitt að þær upplýsingar sem eru í skýrslum, sem unnar eru af ákveðinni verkfræðiskrifstofu, byggist á pólitískum vilja eða fagpólitískum vilja. Þetta hlýtur, hæstv. forseti, að vera túlkað sem hreint vantraust á hæstv. heilbrrh. og á þá stefnu sem núv. ríkisstjórn hefur í heilbrigðismálum.