Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 20:48:44 (2076)

1997-12-12 20:48:44# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[20:48]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Við höfum verið að ræða þetta fjárlagafrv. lengi dags, byrjuðum kl. 10.30 í morgun og nú vantar klukkuna 10 mínútur í 9 að kvöldi og ég verð að segja að þar sem ég hef fylgst með umræðunni í allan dag, þá hefur það vakið furðu mína að það er hending ef ráðherra úr þessari ríkisstjórn hefur sést í salnum. Ég gagnrýni það þar sem þetta er mjög mikilvæg umræða sem við erum að fara í gegnum og ég hefði talið það eðlilegt að ráðherrar í ríkisstjórninni fylgdust með því sem menn hafa að segja um fjárlagafrv. Þó svo að formaður fjárln. og fjárlaganefndarmenn hafi af og til verið viðstaddir og að mestu margir hverjir í salnum eru þetta mál sem full ástæða er til að ráðherrar sinni og hlusti á.

Það sem ég mun reifa í ræðu minni eru mál sem hér hafa verið þó nokkuð mikið til umræðu og kannski ekki óeðlilega. Það eru heilbrigðismálin, það er ástandið á sjúkrahúsunum og síðan samgöngumálin. Ég mun afmarka mig við þá málaflokka sem heyra undir þær nefndir sem ég sit í í þinginu en engu að síður mun ég koma inn á fleiri málaflokka sem ég tel ástæðu til að minnast á.

Mig langar til að byrja á því að ræða aðeins um stefnuleysið í heilbrigðismálum. Mér finnst afleitt að ekki skuli hafa verið meiri stefnumörkun í heilbrigðismálum á þessu kjörtímabili. Það virðist vera nokkurs konar hentistefna eða handahófskennd vinnubrögð sem ég tel að þurfi að bæta. Heilmikil vinna hefur verið unnin undanfarið í nefndum og ég nefni sérstaklega nefnd sem ég tók þátt í að vinna með sem er forgangsröðunarnefnd hæstv. heilbrrh. og þar hefur verið unnin vönduð og mikil stefnumótunarvinna sem ég hefði talið að þyrfti að koma í framkvæmd en ég mun víkja að því síðar.

Úr því að ég er farin að tala um heilbrigðismálin er full ástæða til þess að minnast á þau misvísandi skilaboð sem berast til almennings, annars vegar frá yfirvöldum og hins vegar frá heilbrigðisþjónustunni og þá á ég sérstaklega við það sem snýr að sjúkrahúsunum.

Í nýlegu riti sem ríkisstjórnin sendi frá sér á kostnað skattborgara sem ber heitið ,,Áfangar í starfi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks`` er m.a. fjallað um heilbrigðisþjónustuna í einum kafla. Þar er talað um róttækar aðgerðir til að bæta þjónustu sjúkrahúsanna og í þeim kafla er þessi setning: ,,Verulegur árangur hefur náðst í hagræðingu og bættri þjónustu við sjúklinga.`` Þetta stendur í riti ríkisstjórnarinnar sem var sent til landsmanna. Þau skilaboð koma sem sagt frá ríkisstjórninni.

Á sama tíma og við heyrum af því að fjöldi sjúklinga liggur á göngum, það þurfi að leggja sjúklinga inn á salerni, inn á skolherbergi og víða á sjúkrahúsum þar sem sjúklingar eiga alls ekki að vera. Aldrei hafa verið fleiri endurinnritanir á sjúkrahúsin og eins og ég sagði í andsvari í dag hefur komið fram hjá landlækni að 75 af hverjum þúsund sjúklingum sem koma inn á ákveðnar deildir á sjúkrahúsunum koma aftur inn á sjúkrahúsin innan átta daga og þar eru ekki taldir með sjúklingar utan af landi sem lenda þá innan átta daga inn á sjúkrahúsum úti á landi. Þetta er mjög alvarleg staðreynd. Fólk kemur inn á sjúkrahúsin mun veikara en áður og það er útskrifað áður en það nær fullum bata. Eins og komið hefur fram og segir m.a. í skýrslu landlæknis eru sjúklingar sendir heim án þess að búið sé að tryggja þeim viðunandi heimahlynningu. Þetta ástand og þjónusta er brot á lögum sem voru sett í vor um réttindi sjúklinga. Ég leyfi mér að efast um öryggi þeirra sjúklinga sem liggja á nokkrum deildum þar sem gangarnir eru jafnvel tepptir dögum, vikum og mánuðum saman.

Hvað með brunaeftirlit á sjúkrahúsunum? Fullnægja þessi sjúkrahús skilyrðum um brunavarnir þegar gangar eru dögum saman fullir af sjúkrarúmum með fársjúku fólki? Ég er viss um að svo er ekki og ég tel fulla ástæðu til þess að menn skoði það hvort öryggisskilyrðum er fullnægt þegar ástandið er svona. Hvað með náttúruhamfarir, jarðskjálfta og annað þegar gangarnir eru tepptir eftir bráðavaktirnar á stóru sjúkrahúsunum?

Ég var að tala um misvísandi skilaboð frá heilbrigðiskerfinu annars vegar og stjórnvöldum eða ráðuneytinu hins vegar og auðvitað veltir maður fyrir sér hvar við erum eiginlega stödd. Annars vegar er þessi hryggðarmynd og hins vegar þessi glansmynd í riti ríkisstjórnarinnar.

Í umræðunni um fjáraukalögin var að sjálfsögðu mikið talað um heilbrigðismálin og þar kom hæstv. heilbrrh. inn í umræðuna og talaði um hvað allt væri gott, það væri hægt að setja milljarð í viðbót og 200 millj. kr. pott fyrir áramót og 300 millj. kr. pott eftir áramót. Enginn veit hver fær úrlausn, hvaða stofnanir fá úr þessum pottum. Það þarf vissulega ansi kröftugan pottasleiki til þess að hægt sé að leysa málið með þessu pottastandi öllu saman heldur betur. (Gripið fram í: Heldurðu að hann sé kominn?) Það fer að líða að því að jólasveinarnir mæti í bæinn. Hvað veit maður hvað gerist. (JónK: Hann fer að koma.) Hann fer að koma, segir formaður fjárln. Hann ætlar kannski að koma hérna með einhvern jólaglaðning áður en fjárlögin verða afgreidd þannig að ástandið verði ekki eins og það lítur út fyrir í þeim gögnum sem við höfum til umfjöllunar.

Það er alveg ljóst að það mun vanta hundruð millj. upp á til þess að hægt verði að reka sjúkrahúsin á höfuðborgarsvæðinu, Sjúkrahús Reykjavíkur og Ríkisspítalana þannig að ekki sé verið að brjóta lög á sjúklingum dag eftir dag. Því miður verða brotin lög á sjúklingum nema eitthvað verði að gert. Mig langar til að gagnrýna þau vinnubrögð sem stjórnvöld hafa viðhaft í heilbrigðismálum.

Stjórnendur sjúkrahúsanna hafa um árabil getað illa sinnt þeim verkefnum sem þeim er ætlað, sérstaklega eftir að fjárlagafrv. hefur komið fram með tug- og hundrað millj. kr. gati því að allur tíminn fer hjá þeim í að finna leiðir til sparnaðar og niðurskurðar til þess að þeir fái aukafjárveitingar til að brúa bilið síðar á árinu. Yfirleitt eru sett þau skilyrði ef sú fjárveiting á að fást að viðunandi sparnaðaraðgerðir verði að koma á móti og það á stofnunum sem menn telja vera búið að vinda til síðasta dropa. Þetta er svokölluð þumalskrúfuaðferð sem er notuð á sjúkrahússtarfsfólk ár eftir ár.

Ég nefndi nefnd þá sem sett var á laggirnar fyrir þessa fjárlagagerð, nefnd þá sem átti að vinna að tillögum um sparnað á stóru sjúkrahúsunum á höfuðborgarsvæðinu, þriggja manna nefnd fulltrúa fjmrh., heilbrrh. og borgarstjórans í Reykjavík. Sú nefnd vann ötullega í 8 eða 9 mánuði og að loknu því verki komst hún að þeirri niðurstöðu að unnt væri að spara 205 millj. --- og reyndar voru miklar efasemdir um að þessi niðurstaða væri raunhæf --- 205 millj. eftir nefndarvinnuna í 8--9 mánuði. Hvað gerist síðan? Síðan kemur fjárlagafrv. og þá hefði maður kannski haldið að það væri byggt á vinnu nefndarinnar, það væri vöntun upp á 205 millj. eins og nefndin var búin að finna út að hægt væri að spara. Nei. Það voru ekki 205 millj. Það voru 800 millj. sem vantaði upp á að hægt væri að reka þessi sjúkrahús sómasamlega. Ég leyfi mér að efast um að sómasamlega sé rétta orðið því auðvitað er búið að þrengja svo að þessum sjúkrahúsum að það er ekki sómasamlegt hvernig búið hefur verið að þeim. Og þó að allir pottar ráðherrans færu til stóru sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu dygði það ekki til þess að reka þar sómasamlega þjónustu fyrir alla landsmenn. Ég ítreka að þessi sjúkrahús sinna öllum landsmönnum. Það er ekki eins og þetta sé eitthvað kjördæmabundið. Þetta er þjónusta fyrir alla landsmenn þar sem sjúrahúsin eru. Nú stöndum við frammi fyrir því að enn er fjárvöntun, enn er gat og nú á leikurinn með þumalskrúfuna að fara að byrja aftur. Reyndar gladdi það mig í umræðunni í dag að svo virðist sem fjárlaganefndarmenn hafi gert sér grein fyrir því hve vandinn er mikill. Í máli hv. þm. Jóns Kristjánssonar, formanns fjárln., kom fram að það yrði að taka á þessum málum og ég fagna því að menn skuli gera sér grein fyrir því því að það ríkir algert ófremdarástand og sérstaklega á bráðadeildunum.

[21:00]

Við höfum rætt heilmikið um viðhald á húsnæði á sjúkrahúsunum. Það hefur legið nánast algerlega niðri. Húsnæði í eigu ríkisins og borgarinnar er að drabbast niður og í umræðunum hefur ítrekað komið fram að ákveðnar deildir á Sjúkrahúsi Reykjavíkur halda hvorki vatni né vindum og þarna vantar hundruð millj. til þess að bæta úr ástandinu. Þetta ástand sem ríkir á sjúkrahúsunum, það að sjúklingarnir komast ekki inn nema mjög mikið veikir og eru útskrifaðir áður en þeir eru búnir að ná bata, er náttúrlega alls ekki viðunandi og landsmenn eiga ekki að láta bjóða sér þetta. Ég velti því fyrir mér, hvað ætlar Framsfl. að láta bjóða sér þetta lengi, hv. þm. Jón Kristjánsson, formaður fjárln.? Ætlar hann að láta fara svona með sig í ríkisstjórninni að láta fjmrn. stjórna þessu ástandi? Ætla þeir að láta hæstv. forsrh. Davíð Oddsson ná sér í fleiri punkta rétt fyrir kosningar þegar hann kemur og plástrar eða slær á fingur vegna ástandsins? Er það það sem menn í Framsfl. eru að bíða eftir? Ég bara spyr.

Allur þessi sparnaður og niðurskurður og samdráttur í þjónustunni á sjúkrahúsunum hefur átt sér stað án þess að viðunandi úrræðum hafi verið komið upp samhliða þjónustunni og ef viðunandi úrræðum er ekki komið upp er erfitt að hagræða á sjúkrahúsunum.

Ég vil t.d. nefna hjúkrunarrýmin. Þeim hefur ekki verið fjölgað sem skyldi þó svo því hafi verið lofað að sjúkrahúsin fengju forgang inn á hjúkrunarheimilin. Á höfuðborgarsvæðinu, þar sem þörfin er mest, þar sem þarf tilfinnanlega að koma upp hjúkrunarrýmum til þess að rýma út af sjúkrahúsunum í ódýrari úrræði, þar er ástandið þannig að tæp 400 manns bíða eftir hjúkrunarrýmum og í byrjun vetrar kom fram að um 90 hjúkrunarsjúklingar hefðu verið á sjúkrahúsunum í rýmum sem voru ekki í samræmi við þjónustuþörf þeirra. Vegna þess að ég er að tala um þjónustuheimilin og hjúkrunarrýmin finnst mér mjög sérkennileg forgangsröðun ríkja í heilbrrn.

Samkvæmt línuriti sem ég er með yfir hjúkrunarrými kemur fram að miðað við hverja 100 íbúa 70 ára og eldri á Íslandi eru þau flest á Suðurlandi, þau eru 25 á hverja 100 íbúa yfir sjötugt á Suðurlandi og það er bara fínt. Það er fínt að ástandið er svona gott á Suðurlandi. Það er líka næstum því svona gott á Vesturlandi. En í Reykjavík þar sem hundruð manna bíða eftir plássi eru þau 10 á hverja 100 íbúa 70 ára og eldri. Þegar óskað hefur verið eftir því að fjölga hjúkrunarrýmum, nei, þá eru dregnar lappirnar þó svo að talað hafi verið um það þegar Skógarbær var opnaður í Reykjavík að hægt væri í samstarfi við Reykjavíkurdeild Rauða krossins að fjölga hjúkrunarrýmum undir sömu stjórn þá hefur það ekki verið heimilað en eftur á móti er búið að leyfa fjölgun stofnanarýma fyrir aldraða á Suðurlandi. Þar voru teknar skóflustungur á dögunum þannig að manni finnst þetta dálítið sérkennileg forgangsröðun hjá ríkisstjórninni í þessum málaflokki, sérstaklega þegar menn vita að þetta kemur í veg fyrir að hægt er að hagræða á stóru sjúkrahúsunum.

Ég vil nefna í þessu sambandi að við höfum lagt fram brtt. við fjárlögin til þess að bregðast við þessum vanda sem er 30 millj. kr. aukafjárveiting til að leggja í hjúkrunarheimili á Reykjavíkursvæðinu. Ég leyfi mér að velta því fyrir mér hvort þetta muni nokkuð lagast fyrr en landið verður eitt kjördæmi eða atkvæðavægið verður jafnað út. Það er vert að spyrja sig að því.

Mig langar aðeins líka til þess að víkja að biðlistunum. Hæstv. heilbrrh. er reyndar ekki hér og ekki nokkur einasti ráðherra til að hlusta á þetta en hæstv. heilbrrh. hefur talað um að mikið átak hafi verið gert í biðlistamálum. Auðvitað hefur verið reynt að sporna við sífelldri fjölgun fólks á biðlistum en þeir hafa ekki minnkað samkvæmt upplýsingum frá landlækni. Biðlistar hafa ekki styst en þeir hafa heldur ekki lengst. Enn þá bíða þúsundir eftir aðgerðum og ég er sannfærð um að það verða að koma inn sérstakar fjárveitingar til þess að stytta biðlistana og það þarf að setja reglur um hámarksbið. Sú nefnd sem ég nefndi í upphafi máls míns um forgangsröðun telur að það sé nauðsynlegt að setja reglur um hámarksbið eftir aðgerðum og hún verði ekki lengri en 3--6 mánuðir og ég held að það verði að setja slíkar reglur. Það er ekki boðlegt að leggja það á sjúklinga. Það er kostnaðarsamt, það er erfitt, þetta er álag á fjölskyldurnar. Það getur haft varanlegar afleiðingar á fjárhag einstaklinga að bíða og við verðum að bregðast við því með einhverjum hætti, bæði með aukafjárveitingum til að stytta biðlistana og setja reglur um hámarksbið.

Ég talaði um úrræði til þess að unnt væri að hagræða á sjúkrahúsunum. Ég nefni sjúklingahótel sem er leið sem margir fara í löndunum í kringum okkur og reyndar víða í heilbrigðiskerfinu. Ef það á að útskrifa sjúklinga af sjúkrahúsum æ veikari eins og gerist nú, áður en þeir eru búnir að ná sér, þá verða að vera til staðar sjúklingahótel þar sem hægt er að sinna þessum sjúklingum sem er náttúrlega mun ódýrari kostur. En það verður að vera þannig að það sé aðgengilegt frá sjúkrahúsunum eins og þessi sjúklingahótel eru í öðrum löndum. Það má nefna það að Bretar hafa talið að sjúklingahótel sem úrræði geti lækkað kostnað við sérgreinadeildir um 10--15% og Norðmenn eru að fara þessa leið í auknum mæli. Þeir eru að byggja 30--40 sjúklingahótel við sjúkrahús í Noregi.

Auðvitað má benda á ýmsar aðrar leiðir sem reyndar er verið að fara sem betur fer. Það er nú ekki allt tómt svartnætti þó að ástandið sé slæmt í þessum málum. Það er auðvitað verið að vinna að málum eins og líknardeild og sjúkrahúsum tengdri heimaþjónustu sem er af hinu góða og ég fagna því. En það dugar bara ekki til. Það þarf að taka mun betur á.

Mig langar líka til að nefna umönnunargreiðslur sem ég hef verið óþreytt við að tala um í þinginu en það er að aðstandendum sjúklinga sé greitt til að annast þá heima. Ég er sannfærð um að það mun vera ódýr kostur og mannúðlegur að gera fólki kleift að annast sína nánustu heima ef þeir eru sjúkir. Þá þyrfti oft að koma til heimaþjónusta til viðbótar eins og heimahjúkrun og félagsleg heimaþjónusta. En allar tillögur um slíkt hafa verið ræddar hér, síðan settar í nefnd og svæfðar þar þannig að það er ekki áhugi einu sinni á því að leita þessara leiða.

Menn hafa líka verið að tala um ýmsa hagræðingu eins og sameiningu sjúkrahúsa. Ég tel að það sé mál sem þurfi að ræða málefnalega og sú umræða þarf auðvitað að fara fram í þinginu og taka faglega á því máli en ég er ósátt við það sem er að gerast í sjúkrahúsmálunum og eins og verið sé að svelta þessi stóru sjúkrahús á höfuðborgarsvæðinu til sameiningar.

Ýmislegt sem hefur komið fram hér er kjörið til þess að ræða í sambandi við sameiningarumræðuna, t.d. VSÓ-skýrslan. Hún er ágætt innlegg í þá umræðu, umræðu sem er nauðsynleg.

Mig langar líka til að koma inn á annað sem er afleiðingarnar af fjársvelti sjúkrahúsanna. Það er ekki eðlileg endurnýjun á tækjabúnaði. Eins og ástandið hefur verið undanfarið hefur um það bil 1% af fjárframlögum til sjúkrahúsanna farið til endurnýjunar á tækjum og það er langt fyrir neðan það sem eðlilegt getur talist. Almenn viðhorf í heilbrigðisþjónustu erlendis er að það þurfi að fara a.m.k. 3--5% í endurnýjun tækja og það er það hlutfall sem nágrannaþjóðir okkar miða við og ég held að það verði að gera átak í að endurnýja tæki á sjúkrahúsunum því að það er auðvitað forsenda fyrir því að þjónustan geti orðið hagkvæmari og ódýrari að menn séu með sæmilegan og öruggan tækjakost. Að vera með úrelt og löngu útrunnin tæki eru náttúrlega ekki vinnubrögð sem eiga að líðast og það veldur bæði starfsmönnum og sjúklingum óöryggi.

Það má líka nefna rannsóknir og upplýsingastarf. Það hefur komið fram hjá landlækni þegar hann hefur komið á fund heilbr.- og trn. og höfum verið að óska eftir ákveðnum upplýsingum bæði um sjúkrahúsin og heilbrigðismálin að hann hefur safnað miklum upplýsingum um þessi mál sem er gott en fjárveitingar vantar til þess að vinna úr þeim þannig að það hægt sé að byggja á þessum upplýsingum meira við ákvarðanir og það þarf auðvitað að sinna því rannsóknarstarfi.

Það kemur líka fram í vinnu forgangsröðunarhópsins að það þurfi að koma skýrt fram þegar menn fara út í nýjar fjárfestingar hvað þær munu kosta og það þarf líka að koma fram hvaða afleiðingar það hefur fyrir þann rekstur sem fyrir er. Menn eru að fara út í að byggja nýjar stofnanir og á sama tíma er verið að svelta starfsemi sem er í gangi og hún er að drabbast niður. Maður veltir því fyrir sér hvort þetta er forgangsröðunin að láta það sem fyrir er drabbast niður og að ekki sé hægt að reka þokkalega þær stofnanir sem fyrir eru en síðan að byggja sér minnismerki með því að reisa nýjar stofnanir. Það er ekki þar með sagt að ég sé á móti því og ef menn hafa efni á því að fara út í slíkt þá mun ég svo sannarlega styðja það. En þetta eru auðvitað vangaveltur sem eiga fyllilega rétt á sér.

[21:15]

Mig langar líka aðeins að koma inn á heilsugæsluna í Reykjavík. Það kom fram í umræðunni um fjáraukalögin að 45 millj. kr. halli heilsugæslunnar verður greiddur í ár og næsta ár sem er gott. Mikill halli hefur safnast upp vegna þeirrar auknu þjónustu, m.a. heimahjúkrunar, sem heilsugæslan hefur þurft að sinna, en ég vil gjarnan spyrja hv. þm. Jón Kristjánsson: Hvað með kostnaðinn við að breyta heimahjúkruninni þannig að hún verði öll út frá heilsugæslustöðvunum? Ég get ekki séð það í fjárlagafrv. að það eigi að kosta nokkurn skapaðan hlut að flytja hana út á heilsugæslustöðvarnar frá Heilsuverndarstöðinni. Ég velti því fyrir mér hvort menn haldi að það kosti ekki neitt að flytja heimahjúkrunina út á heilsugæslustöðvarnar. Auðvitað kostar það. Það kostar aukinn tækjabúnað, það kostar jafnvel fleiri stöðugildi o.s.frv. Á þetta að koma sem halli og síðan inn á fjáraukalögum? Er það meiningin?

Ég tek undir það sem hefur komið fram í umræðunni í dag að það þarf að útbúa fjárhagsáætlun til fleiri ára til þess að það sé hægt að ná betri árangri í rekstri sjúkrahúsanna. Ég get tekið undir það sem rætt var áðan án þess að ég fari að endurtaka þá umræðu alla og heyrði það hér á fjárlaganefndarmönnum að þeir væru á því og það er gott.

Ég hef nefnt að sjúkrarúmum hefur verið fækkað og fólk er sent veikara heim og kemur veikara inn á sjúkrahúsin. Það felur auðvitað í sér að inni á sjúkrahúsunum eru alltaf dýrari sjúklingar, fólk sem þarf mikla umönnun og það kallar á hærri fjárveitingar því að menn eru með veikara fólk en áður inni á sjúkrahúsunum. Hjúkrunarþyngdin hefur aukist og fjárveitingar taka ekki mið af eðli þjónustunnar.

Mig langar til þess að minnast aðeins á að menn hafa verið að tala um, sérstaklega stjórnarliðar, að alltaf sé verið að setja meiri og meiri peninga í heilbrigðisþjónustuna. Það kom reyndar fram fyrir kvöldverðarhlé hjá hv. þm. Svavari Gestssyni að Þjóðhagsstofnun hefur reiknað það út að verið er að setja sífellt minni peninga til heilbrigðisþjónustunnar. Ég er líka með tölur hér frá Þjóðhagsstofnun sem sýna að verið sé að minnka þessi framlög. Ef við horfum t.d. á sjúkrahúsreksturinn voru fjárveitingar árið 1988 til sjúkrahúsanna 73.500 kr. á mann hér á landi, ef við tökum fjárveitingar á mann. Síðan hefur fólki fjölgað. Árið 1996 er þessi tala 64.500 á mann þannig að miðað við fjárveitingar á hvern einstakling hefur hún lækkað um 9 þúsund kr. á mann á tímabili frá 1988--1996. Það er sem sagt verið að veita þarna mun fleira fólki þjónustu fyrir minna fé því að landsmönnum hefur auðvitað fjölgað á þessu tímabili. Fjármagn til sjúkrahúsanna hefur því ekki aukist heldur minnkað miðað við fólksfjölda.

Það má líka benda á það eins og ég minntist reyndar á fyrr í dag að sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hafa fjárveitingar og útgjöld hins opinbera til heilbrigðsmála farið lækkandi. Ég nefni aftur árið 1988. Þá voru fjárveitingarnar 4,30% en eru núna árið 1996 3,58% þannig að við erum að setja minni peninga í heilbrigðisþjónustuna miðað við landsframleiðslu. Samkvæmt þessu er Ísland í 14.--16. sæti meðal Evrópuríkja árið 1997 ef tekið er tillit til þess að útgjöld vegna elli- og hjúkrunarheimila fellur undir heilbrigðismál á Íslandi en félagsmál hjá öðrum þjóðum. Við erum í 14.--16. sæti hvað þetta varðar.

Það er annað sem ég hef miklar áhyggjur af vegna þessa ástands á sjúkrahúsunum og það er atgervisflóttinn. Við erum þegar farin að verða vör við hann. Við erum að missa menntafólk og sérfræðinga okkar úr landi og ég tel að það sé bæði vegna þessa aukna vinnuálags og niðurskurðarins sem er þarna, þ.e. að álagið sem fylgir þessu ástandi á sjúkrahúsunum sé orsökin. Hvað gerum við ef við missum okkar besta fólk úr landi? Hvert snúum við okkur þá? Ef við værum með fjárveitingar eins og voru 1988, ef við miðum við fólksfjölda, mundi muna þarna hátt í 2 milljarða og jafnvel aðeins yfir það. Af því að okkur hefur verið tíðrætt um sjúklinga sem eru sendir heim of snemma áður en búið er að lækna þá, þá blöskrar manni þegar maður heyrir af því að það sé verið að senda fólk heim og jafnvel sé verið að útskrifa það með opin sár eftir uppskurði 2--3 dögum eftir aðgerðir. Maður trúir því varla þegar heilbrigðisstarfsfólk segir sögur af slíku. Þá veltir maður því fyrir sér hvort ekki þurfi að setja reglur eða einhverja viðmiðun um það hvenær menn eru hæfir til útskriftar alveg eins og menn eru með vistunarmat um það hvenær menn geta talist eiga rétt á hjúkrunarrýmum. Við verðum að sjá til þess að hægt sé að búa þannig að þessum stofnunum að þær geti sinnt þeim sem þurfa nauðsynlega á þjónustu að halda.

Á dögunum var frétt í sjónvarpinu um það hvernig þessum málum væri háttað og þar var borið saman afskrift um bankana árið 1995 og mér fannst alveg ótrúlegt að heyra þessa frétt. Þá var afskrift útlána Landsbankans 1,9 milljarðar sem voru 53% af heildarafskriftum viðskiptabankanna það ár. Í sambandi við það var nefndur til samanburðar uppsafnaður halli Ríkisspítala og Sjúkrahúss Reykjavíkur sem stefndi í árslok 1998 að vera 1,6 milljarðar kr. Þetta var samkvæmt fréttum í Ríkisútvarpinu, sjónvarpi og auðvitað er ástæða til þess að staldra aðeins við þegar maður heyrir svona tíðindi.

Ég hef aðeins minnst á forgangsröðunarnefndina sem skilaði af sér skýrslu nú á dögunum og ég ætla að vona að heilbrrh. hafi þor og dug til að fylgja þeirri stefnumörkun eftir. Það bara verður að koma skikk á þessa hluti.

Ég ætla að nota hluta af tíma mínum til að fjalla aðeins um vegamálin. Eins og menn sáu í bandorminum svokallaða, frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum, er gert ráð fyrir að markaðir tekjustofnar til vegamála, 1 milljarður og 64 millj. kr., fari í ríkissjóð. Nú er vegáætlun ekki komin inn í þingið þannig að við stjórnarandstæðingar höfum ekki séð hvað er á döfinni á þeim bæ, en ekki er hægt að líða það þegar skattar á ökutæki og eldsneyti eru það háir, eins og þeir eru, að þeir fari ekki í þá mörkuðu tekjustofna sem þeim er ætlað, enda hefur minni hluti fjárln. farið fram á það að þessar upphæðir skili sér til vegamála og vegamálin fái sína mörkuðu tekjustofna. Ástandið í vegamálum bæði á landsbyggðinni og ekkert síður í þéttbýlinu kallar á það að þessir fjármunir komi til þess sem þeim er ætlað.

Ég minni á einbreiðar brýr, einn helsta slysavald í umferðinni úti um land. Á hringveginum einum eru enn þá 116 einbreiðar brýr. Vissulega er ætlað til þess einhverjum fjármunum að fækka þeim en það er bara alls ekki nóg og við skulum horfa til þeirra hörmulegu slysa sem hafa orðið undanfarið vegna þessa ástands. Hefði þessi milljarður og 64 millj. ekki dugað nokkuð langt í að laga það ástand og koma í veg fyrir þær hörmungar sem hafa skapast af þessum vegum og þessum brúm?

Ég vil líka nefna annað mál sem við teljum að þurfi að koma meira fjármagn til og það er tvöföldun Reykjanesbrautar. Það er verk sem þarf að halda áfram. Þetta er þjóðbrautin hingað til landsins frá útlöndum, þjóðbrautin hingað til höfuðborgarinnar. Samkvæmt upplýsingum frá stjórnvöldum er gert ráð fyrir að ferðamönnum muni fjölga. Það á að stækka Leifsstöð umtalsvert og ef menn ætla að láta allt haldast í hendur er nauðsynlegt að taka til hendinni hvað varðar tvöföldun Reykjanesbrautar.

Fyrst við erum að tala um vegamálin vil ég nefna fleiri atriði. Núna erum við með óttalega vesældar- og vandræðalega vegáætlun sem mönnum tókst ekki að samþykkja nema til tveggja ára síðast. Inni á henni er t.d. ekki framkvæmd sem er í Reykjavík sem er breikkun Gullinbrúar sem hefur ekki verið hægt að hefja framkvæmdir við. Þar er ófremdarástand eins og menn þekkja sem hafa verið á ferðinni úr Grafarvogi eða í Grafarvog á annatímum. Þar er allt saman stopp og alls ekki boðlegt á þeirri leið. Í því sambandi vil ég einnig nefna annan veg sem nauðsynlegt er að hefja framkvæmdir á sem er Sundabrautin. Hún er einnig með allt of lágar fjárveitingar. Þar á að setja í ár og næsta ár 10 millj. en þyrfti auðvitað að vera miklu stærri fjárveiting. Öll umferð inn í höfuðborgina og jafnvel milli hverfa í borginni þegar Kjalarnes er nú orðinn hluti af Reykjavík þarf að fara um Mosfellsbæ. Umferðin þar hefur aukist mjög mikið. Um Vesturlandsveg, milli Mosfellsbæjar og Reykjavíkur, fara um 15 þús. bílar á dag. Það er gert ráð fyrir að íbúafjöldi hér á svæðinu muni aukast mjög mikið. Menn vita auðvitað hvernig ástandið er, að flóttinn af landsbyggðinni er hingað til höfuðborgarsvæðisins. Það er ekki hægt að bjóða Reykvíkingum upp á það sí og æ að skera niður vegaframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu.

[21:30]

Í umferðarmálum innan Reykjavíkur eru miklir erfiðleikar, sérstaklega að því er snýr bæði að umferðinni í Grafarvogi um Gullinbrú og vestur eftir. Þær fjárveitingar sem settar hafa verið í Sundabrautina árin 1996, 1997 og 1998, sem eru um 22 millj. kr. eru náttúrlega ekki nema upp í nös á ketti. Eins er talað um að verið sé að stytta leiðina upp á Akranes um með Hvalfjarðargöngunum. Auðvitað þarf að koma til móts við það með bættu vegakerfi til höfuðborgarinnar.

Vegna þess að ég er að ræða vegamálin langar mig að gagnrýna aðeins vinnubrögð við fjárlagagerðina og vegamálin. Við höfum fjallað um það í samgn. hverjir skuli hljóta styrki vegna vetrarsamgangna og vöruflutninga. Í ljós kom að af 38 úthlutunum bárust aðeins sjö umsóknir. Síðan fer það eftir kjördæmapoti hverjir fá styrki úr þessum sjóðum. Ég velti því fyrir mér hvort ákveðnar byggðir, ákveðnir staðir, geti verið eins og fastir áskrifendur að fjárlögum. Fái sjálfkrafa greiðslur. Auðvitað á það ekki að vera þannig. Það á að auglýsa þessa styrki og menn eiga að rökstyðja hvernig þeir nýttu styrkinn árið áður, séra minn, hv. þm. Hjálmar Jónsson. Það á auðvitað að auglýsa þessa styrki og vera með fagleg vinnubrögð. Maður trúir því ekki fyrr en maður kemst að raun um að það sé unnið svona við þetta. Úthluta 38 styrkjum þegar aðeins sjö umsóknir berast. Ég held að menn þurfi nú aðeins að hugsa sinn gang. (Gripið fram í.) Ég er að fjalla um fjárveitingar til vetrarsamgangna hér eða áskrift að þeim og spyr hvort mönnum þyki þetta eðlilegt.

Mig langar aðeins að koma að öðru máli. (Gripið fram í: Er þingmaðurinn á móti vetrarsamgöngum?) Nei, alls ekki. En ég tel að menn eigi að gera grein fyrir því hvernig þeir hafa ráðstafað því fé sem þeir hafa fengið úr ríkissjóði og sæki síðan um með rökstuddum umsóknum. (Gripið fram í: Það er fljótgert ... menn mokuðu snjó.) Það er ekki alls staðar snjór þar sem þessar úthlutanir komu til. Það veit ég. Látum umræðunni um vegamálin lokið.

Ég ætla að snúa mér aðeins að flugmálunum. Hluta af mörkuðum tekjustofnum til framkvæmda á flugvöllum hefur samkvæmt bandormi verið ráðstafað til að borga niður skuldir á Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Ég sætti mig ekki við það á meðan ástandið á Reykjavíkurflugvelli er eins og það er. Framkvæmdum þar hefur aftur og aftur verið frestað. Í upphafi þessa kjörtímabils áttu á annað hundrað millj. að fara í að hefja framkvæmdir við Reykjavíkurflugvöll sem er hættulegur við vissar aðstæður. Erlendir flugmenn eru farnir að sniðganga völlinn vegna ástandsins á honum. Óhöpp hafa orðið og tjón vegna þess hvernig ástandið er. Við höfum fengið erindi frá ýmsum byggðarlögum vítt um land þar sem þess er krafist að farið verði í að bæta ástandið á vellinum. Þetta er ekki bara hagsmunamál Reykvíkinga. Þetta er hagsmunamál allra Íslendinga. Hér er um aðalflugvöll landsins að ræða. Það er ekki boðlegt að teknar séu 60 millj. kr. af mörkuðum tekjustofnum meðan endalaust er dregið að hefja framkvæmdir á Reykjavíkurflugvelli. Í brtt. höfum við lagt til að þessar 60 millj. kr. sem ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar ætla í að borga niður skuldir Leifsstöðvar fari í að bæta ástandið á Reykjavíkurflugvelli. Auðvitað þarf að borga skuldir við Leifsstöð. En það á ekki að taka það af framkvæmdafé við flugvelli.

Ég ætlaði að minnast aðeins á málefni fatlaðra. Komið hafa fram hörð mótmæli vegna þess að tekið er af mörkuðum tekjustofnum til Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Ég tek heils hugar undir þau mótmæli. Það á ekki að eiga sér stað. Ég vil sérstaklega gera að umtalsefni hóp fatlaðra sem hefur verið afskiptur með þjónustu af því að hann hætti að fá þjónustu frá heilbrigðisstofnunum. Það eru einhverfir. Það eru einhverf börn og einhverfir einstaklingar. Fyrir um það bil ári hættu þeir að fá þjónustu hjá heilbrigðisstofnunum og félmrn. tók við þjónustu þessa hóps í gegnum Greiningarstöðina. Sem betur fer er nú nokkur fjárveiting til að sinna þessum hópi og á fjárlögum kemur fram að Greiningarstöðin fær 7 millj. kr. til að sinna þessum hópi. En með þessari litlu fjárveitingu er aðeins hægt að sinna þeim sem nýbúið er að greina, þeim yngstu og mest fötluðu. Það vantar alveg þjónustu í formi ráðgjafar og eftirfylgdar, t.d. fyrir einhverfa á unglingsaldri og eldri. Það vantar algjörlega þjónustu fyrir þá sem greinast með asperger-heilkenni. Þeir fá ekki neina þjónustu. Fólki sem greinist með þessa fötlun á eftir að fjölga vegna þess að þekking á fötluninni hefur aukist og komin eru betri greiningartæki. Við höfum þess vegna lagt til að það komi aukafjárveiting upp á 5 millj. kr. til Greiningarstöðvar ríkisins vegna þessa hóps. Það er ekki hægt að láta þennan hóp fatlaðra vera afskiptan ár eftir ár. Þeir verða að fá þjónustu. Það getur orðið dýrt fyrir samfélagið seinna ef þessi hópur verður áfram án heildstæðrar þjónustu.

Nefnd sem skoðaði þörf þessa hóps fyrir þjónustu fyrir nokkrum árum komst að því að 10 millj. kr. þyrfti til að geta sinnt öllum einhverfum. Þess vegna ætti þessi viðbótarfjárveiting sem við leggjum til að duga til þess að veita þokkalega þjónustu þeim einhverfum sem ekki hafa fengið þjónustu. Ég skora á hv. formann fjárln. að skoða hvort ekki séu einhvers staðar 5 millj. kr. smuga til að bjarga þessum hópi og foreldrum þeirra einstaklinga sem ekki fá þjónustu. Auðvitað þyrfti þetta að vera meira en 5 millj. því það vantar ýmis úrræði. Það vantar t.d. sumarúrræði fyrir þessi börn og 5 millj. mundu ekki duga til þar. En ég tel að það verði að bæta úr ástandinu hvað þennan hóp varðar.

Auðvitað mætti tína til fleiri hópa sem maður hefur verulegar áhyggjur af. Hv. fjárlaganefndarmaður ætlar greinilega að sinna þeim sem ég mun nefna hér. Ég skal ekki lengja ræðu mína mikið en engu að síður treysti ég hv. þm. Hjálmari Jónssyni til að sjá til þess að ekki verði skorið meira niður og saumað að þeim sem sinna heilbrigðismálum, t.d. geðsjúkum. Að deildum verði ekki lokað þannig að þeir fái ekki þá þjónustu sem þeir þurfa. Nóg er búið að skerða þar. Mig langar til að minnast aðeins á aldraða og öryrkja sem búa við mikið óöryggi. Ég minni sérstaklega á það sem lagt eru til í frv. með fjárlögunum þar sem fara á að tengja bæturnar launaþróun, að sögn stjórnvalda, sem er ákaflega loðið og sérkennilegt ákvæði. Ég vona að menn skoði það áður en samþykkt verður til að menn viti nokkurn veginn hvað þeir eru að gera þar. Ég vil minna á að samkvæmt samningum eiga lágmarkslaun um áramótin að verða 70 þús. kr. En miðað við þá hækkun sem menn ætla lífeyrisþegum þá verða hæstu bætur þeirra sem búa einir ekki nema 61 þús. kr. Þeir sem eru með óskertar bætur, hæstu bætur, og búa einir. Á sama tíma eru menn sammála um að lágmarkslaun skuli vera 70 þús. kr. Ég minni á að fjöldi lífeyrisþega er undir þessum 61 þús. kr.

Svo ég minnist aðeins á atvinnulausa þá hefur því ekki verið sinnt að atvinnuleysisbætur fylgi launaþróun eða verðlagsþróun.

Svona í lokin af því ég hef verið hér í (Gripið fram í: Klukkutíma.) klukkutíma, það er rétt hjá hv. þm. Ég áskil mér rétt til að taka til máls aftur. En ég vil minna á að það er tillaga hér frá frá þingflokki jafnaðarmanna, um að Samkeppnisstofnun fái aukafjárveitingu. Ekki veitir af samkvæmt nýjustu fréttum í kvöld þar sem hæstv. samgrh. er enn að fá tilmæli um að hann sé að brjóta samkeppnislög með embættisfærslum sínum. (Gripið fram í: Hvað heitir hann?) Það er spurning. En meðan embættisfærslur á þeim bæ eru eins og þær eru, þá veitir ekki af að Samkeppnisstofnun fái aukafjárveitingu til að sinna sínum verkum.