Fjárlög 1998

Laugardaginn 13. desember 1997, kl. 14:04:49 (2122)

1997-12-13 14:04:49# 122. lþ. 42.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv. 150/1997, RG (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur

[14:04]

Rannveig Guðmundsdóttir (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við þingflokksformenn höfum lagt mikla áherslu á að eiga gott samráð við forseta vorn hverju sinni um það sem á döfinni er í þinginu. Við höfum líka lagt mikla áherslu á það að gera breytingar á þingsköpum og annað sem horfir til betri vegar varðandi störf þingsins. Þetta mál, að vera með atkvæðagreiðsluna með öðru sniði en venjulega og lýtur auðvitað að breyttri uppsetningu frv., er eflaust til mikilla bóta. En athugasemd mín lýtur að því að um þetta hefðum við átt að fá að vita fyrr. Það hefði verið full ástæða til að ræða við þingflokksformenn um að nú yrði atkvæðagreiðslan með öðru formi og uppsetning öðruvísi.

Hvers vegna segi ég þetta? Það er vegna þess að venjulega höfum við haldið þingflokksfundi klukkustund fyrir atkvæðagreiðsluna til að fara yfir atkvæðagreiðsluskjalið, samræma ýmislegt í málflutningi okkar og átta okkur á stöðunni. Ég boðaði þingflokksfund í gær á þessum sama tíma, kl. hálf eitt í dag. Þá kemur í ljós að varðandi þetta stóra mál, stærsta mál hvers vetrar, fjárlög ríkisins, er uppsetning nú öðruvísi og við hefðum e.t.v. kosið að fara betur í frumvarpstextann sjálfan því oft er það svo að við þingmenn ætlum að gera athugasemdir við annað en brtt. okkar eða meiri hlutans. Þess vegna þykir mér miður, virðulegi forseti, að það skuli vera fyrst nú þegar við erum komin í atkvæðagreiðsluna að við fáum að vita um breytta uppsetningu og geri þessa athugasemd ef vera kynni að við þyrftum að biðja um hlé vegna einhvers sem upp kemur.